21.05.2018 11:25
792. Steinunn gamla KE 69. TFRC.
Steinunn gamla KE 69 á siglingu. (C) Hafsteinn Jóhannsson.
Sænskur
bátur til Hafnarfjarðar
Þeir Ólafur Einarsson, útgerðarmaður í Keflavík og Kristján
Sigurðsson, skipstjóri í Hafnarfirði, hafa keypt nýjan vélbát frá Svíþjóð og
kom hann til Hafnarfjarðar í gær. Bátur þessi verður gerður út frá Keflavík og
ber heitið "Steinunn gamla" GK 363. Hann er ekki gerður samkvæmt
teikningum þeim á fiskibátum, sem ríkisstjórnin hefir samið um við sænskar
skipasmiðastöðvar.
Vísir. 20 júní 1947.
Steinunn gamla KE 69 í endurbyggingu og lengingu í Keflavík árið 1963. (C) Emil Páll Jónsson.
2 menn
fórust er bátur sökk -
einn komst lífs af
Snemma á laugardagsmorgun sökk vélbáturinn Ver frá Sandgerði
aðeins um tvær mílur suður af innsiglingunni í Sandgerði. Tveir menn fórust með
bátnum, en þriðji maðurinn, Aðalsteinn Sveinsson, bjargaðist eftir að hafa
svamlað í sjónum í um hálfa klukkustund. Aðalsteinn hefur borið fyrir sjódómi í
Hafnarfirði, að Steinnnn gamla KE 69 hafi siglt á bátinn, og hafi hann brotnað
í spón við ásiglinguna. Þremenningarnir á Ver, sem var þrjú tonn að stærð,
höfðu verið á veiðum um nóttina. Höfðu þeir farið út á föstudagskvöld. Var
Björgvin Þorkelsson með í þessum róðri í stað bróður þeirra Gísla og
Aðalsteins, sem ekki hafði ætlað sér að róa í þetta sinn, en hefur annars verið
með bræðrum sínum á bátnum, sem þeir keyptu fyrir skömmu. Þegar báturinn kom á
miðin fór vikur í kælivatnsdælu, en tókst mönnunum að lagfæra það eftir nokkurn
tíma. Lítill fiskur var á þessum slóðum, sem báturinn var á, svo ákveðið var að
halda heim aftur. Á leiðinni komst báturinn á betri mið, og höfðu mennirnir
verið að dorga í um eina klukkustund, þegar þeir tóku eftir því að Steinunn
gamla frá Keflavík nálgaðist þá. Töldu þeir þó ekki vera hættu á ferðum, þar
sem skyggni var gott, og ratsjá Steinunnar í gangi. Aðalsteinn segir að hann
hafi heyrt bróður sinn Gísla hrópa upp, að þeir skuli kasta sér í sjóinn og um
leið hafi áreksturinn orðið. Aðalsteini tókst að ná í botn hlera, og sömuleiðis
rak til hans björgunarbelti, sem bróðir hans hafði verið búinn að blása upp að
nokkru leyti. Tókst honum að halda sér uppi á þessu tvennu, og hafði verið í
sjónum um hálfa klukkustund, þegar vélbátinn Báruna bar að, og tóku mennirnir,
sem voru á Báranni, Ásmundur Böðvarsson og Finnbogi Bjarnason eftir Aðalsteini
og gátu náð honum upp úr sjónum. Ekki sást til Gísla eða Björgvins þrátt fyrir
ítrekaða leit að þeim. Sigldi Báran með Aðalstein til Sandgerðis og síðan fóru
bátar út þaðan til þess að halda áfram leit að mönnunum tveimur en þeir fundust
ekki.
Gísli Sveinsson var 27 ára og Iætur eftir sig konu og tvö börn.
Björgvin Þorkelsson var 51 árs og lætur eftir sig konu og sjö börn.
Sjópróf hófust í Hafnarfirði í dag.
Tíminn. 20 maí 1970.
Steinunn gamla KE 69 í upphaflegu útliti. (C) Snorri Snorrason.
Bát slítur
upp - annar sekkur
Skömmu eftir hádegi, sunnudaginn 23. sept. 1973, kom sunnan
úr hafi mjög djúp lægð, sem hélt siðan norður yfir landið. Um leið gerði hér
eitt mesta fárviðri, sem geysað hefur síðustu árin. Voru þetta eftirstöðvar
fellibylsins Ellenar, sem mikinn skaða gerði við strendur Ameríku. Stóð
veðurofsinn fram á mánudag, en lægði er leið á daginn. Í Reykjavík mældist
vindhraði 108 hnútar í mestu hryðjunum. Aðeins einu sinni hafði þá mælst jafn
mikill vindur í Reykjavík. Það var 1942, þá mældust 109 hnútar.
Til samanburðar má geta þess, að septemberveðrið mikla 1936, var aðeins
hálfdrættingur á við Þetta ofsaveður. Í verstu hryðjunum 1936, mældust í
Reykjavík, 65 hnútar. Sextíu og fjórir hnútar eru tólf vindstig. Í
septemberveðrinu 1936 fórst franska rannsóknarskipið Pourqui Pas? Veðrið 1973
olli tugum ef ekki hundruð milljóna króna tjóni, einkum á suður-, vestur- og
norðurlandi. Óveðursdagana var stórstreymt og því meiri hætta á ferðum. Sjómenn
voru því víðast við báta sína. Í Keflavíkurhöfn rak upp v.b. Snorra KE 131.
Hann var gamall átján lesta eikarbátur. Hann náðist fljótlega út og skemmdist
lítið. Í Sandgerði lágu þá átján bátar sem brotnuðu meira og minna. Aðeins sex
þeirra sluppu frá verulegum skemmdum. Steinunn gamla KE 69, lá þar í höfninni,
og sökk. Er hún náðist upp, var hún talin ónýt. Er veðrið skall á, var vindátt
í Sandgerði suðaustlæg en lítið skjól. Töldu þá sjómenn þar, að betur væri
kominn garðurinn í suðurhöfninni, sem til umræðu hafði verið í tiu til fimmtán
ár. En gerð garðsins, hófst rúmu ári eftir að óveður þetta geysaði.
Steinunn gamla KE 69, var 87 lestir, smíðuð úr eik í Svíþjóð 1946. Eigendur
hennar þá voru Ólafur E. Einarsson o.fl. í Keflavík. Báturinn gekk um árabil
frá Keflavík, ern síðustu árin frá Sandgerði. Var hann þá í eigu Miðness h.f.
Steinunn gamla var skrásett í Keflavik og er þess vegna getið hér í annálnum.
Sjóslysaannáll Keflavíkur.
Skúli Magnússon.
Faxi. 6 tbl. 1 september 1989.