23.05.2018 08:25
Ísbjörn ÍS 15. LBDK / TFAI.
Ísbjörn ÍS 15 á Siglufirði. (C) Þorgeir Baldursson.
Bátar
samvinnufélagsmanna
Fjórir þeirra eru nú komnir hingað heilu og höldnu. Eru það
þessir: Sæbjörn kom 23. f. m, Ísbjörn kom 27. f. m., Ásbjörn kom 30 f. m. og
Vébjörn kom á nýársdagsmorgun. Fimmti báturinn Valbjörn sneri aftur til Noregs
vegna bilunar á olíugeymi. Var hann í Færeyjum á föstudaginn en var á leið
hingað. Af þessum bátum sem komnir eru var Sæbjörn lang fljótastur hingað. Hann
var sjö og hálfan sólarhring frá Risör til Ísafjarðar og eyddi 14 tonnum af
olíu, þó stansaði hann í 15 klst á leiðinni.
Skutull. 1 tbl. 6 janúar 1929.
Samvinnufélagsbátarnir við bryggjur á Siglufirði. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
Áhöfnin á Ísbirni ÍS 15. Mynd úr sögu Ísafjarðar.
Þegar m/b
Ísbjörn strandaði
Aðfaranótt hins 7. marz s. l. strandaði mótorbáturinn
"Ísbjörn", Í. S. 15, austan við Skálavík í norðaustan stórviðri. Mannbjörg
varð og tókst hún mjög giftusamlega, en báturinn sjálfur eyðilagðist. Einn
skipsmannanna segir svo frá strandinu og björgun skipverja:
Um leið og skipið kenndi grunns, lagðist það mjög mikið á stjórnborðshlið.
Brotsjóirnir gengu á það bakborðsmegin og sumir yfir það. Eftir skamma stund
kastaði stór brotsjór skipinu af boðanum og var það þá á floti, en mikill sjór
var kominn í það og hafði vélin stöðvazt þess vegna. Meðan þetta gerðist voru
allir skipverjar komnir á þiljur. Voru sumir þeirra settir að þilfarsdælunni,
til þess að dæla sjó úr skipinu, en hinir voru látnir vinda upp seglin. Þegar
seglin höfðu verið undin upp, kom í ljós að stýrið var farið af skipinu og varð
því engri stjórn viðkomið. Seglin voru nú tekin miðskips til þess að auka drift
skipsins inn í víkina (Skálavík). Meðan þessu fór fram, hafði sjór aukizt að
mun í skipinu, og var sýnilegt, að þess myndi skammt að bíða, að það sykki.
Var
nú lífbáturinn settur á sjó og tekinn yfir á stjórnborða (hléborða). Búið var
áður að binda sjö belgi innan í bátinn, til þess að auka burðarþol hans, ef
hann fyllti. Einnig var settur strengur undir kjöl bátsins aftan við hálsþóttu
og á hann festir tveir belgir á hvora hlið bátsins, þannig, að aðeins örlaði á
þá belgina, sem ofar voru á strengnum, þegar skipverjar voru komnir í bátinn.
Þegar lífbáturinn var vel laus frá skipinu, sökk það, og var klukkan þá 4,30 um
nóttina. Var nú haldið inn eftir víkinni, en það ferðalag sóttist seint, enda
gekk mikill sjór í bátinn. Lent var í suðausturhorni víkurinnar og tókst það
eftir atvikum, þar sem komið var mikið brim. Klukkan var 5,20 um morguninn,
þegar allir skipverjar voru komnir á land, ómeiddir og heilir á húfi, og heim
að bænum Meiribakka voru allir komnir eftir tíu mínútur frá því að á land var
komið. Fengu mennirnir þar hinar prýðilegustu viðtökur.
Öllum ber skipsbrotsmönnunum saman um það, að flotmagnsauki sá, er belgirnir
veittu, sem festir voru við lífbátinn, hafi orðið þeim til lífs, ásamt einbeittni
og röskleika skipstjórans.
Sjómannablaðið Víkingur. 13-14 tbl. 1 júlí 1940.