03.06.2018 08:48
Sjómannadagurinn.
Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur 6. júní árið
1938 og er hann séríslenskur hátíðisdagur. Sjómenn höfðu um langan aldur gert
sér glaðan dag í vertíðarlok á lokadegi að vorinu. Eflaust hafa ýmsir velt
þeirri hugmynd fyrir sér að haldinn yrði árlegur hátíðisdagur sem allir
sjómenn, jafnt fiskimenn sem farmenn, gætu tekið þátt í. Hugmyndin að
sjómannadeginum er rakin til Henrys Hálfdanssonar þótt fleiri komi við sögu.
Hann var loftskeytamaður á togaranum Hafsteini vorið 1929 og ræddi þá við stýrimann
skipsins um að hann ætti sér þann draum að sjómenn myndu helga sér einn dag á
vori sem nefndur væri sjómannadagur. Hugmynd hans var sú að haldinn yrði
árlegur minningardagur um drukknaða sjómenn og þeim yrði reistur veglegur
minnisvarði. Markmiðið yrði að auka skilning þjóðarinnar á hinu áhættusama
starfi sjómannsins og jafnframt að auka veg og virðingu stéttarinnar.
Ég óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra nær og fjær innilega til hamingju
með daginn og megi þeir og landsmenn allir njóta hans vel.
5 af togurum H.B. Granda hf við bryggjuna í Örfirisey í gærmorgun. Þau eru frá v: Helga María AK 16, Akurey AK 10, Engey RE 1, Höfrungur lll AK 250 og Örfirisey RE 4. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Sjötti Grandatogarinn og sá nýjasti í flotanum, 2895. Viðey RE 50. TFJI við Bótarbryggju ásamt skipi Landsbjargar, Sæbjörginni. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Frystitogari Brims, Brimnes RE 27 nýlagstur við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE 13 við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Frystitogarinn Örfirisey RE 4 við samnemda bryggju. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 júní 2018.
Um borð í b.v. Ottó N Þorlákssyni RE 203 við Ægisgarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Á Grandagarði í gærmorgun. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Íslendingar
og hafið
Sjómannadagurinn
Fyrsti fundur fulltrúa sjómannafélaganna um stofnun og aðild
að "Sjómannadagssamtökum" var haldinn í Oddfellowhúsinu í Reykjavík 8.
marz 1937 og mættu á þeim fundi fulltrúar níu félaga. Formleg stofnun
Fulltrúaráðs Sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði verður hins vegar að
teljast 27. febrúar 1938, en þá mættu til fundar 22 fulltrúar frá eftirtöldum
11 félögum. Félögin voru þessi:
Skipstjórafélagið Ægir,
Vélsfjórafélag Íslands,
Skipstjóra og stýrimannafélag Reykjavíkur,
Sjómannafélag Hafnarfjarðar,
Skipstjórafélagið Aldan,
Skipstjórafélag Íslands,
Sjómannafélag Reykjavíkur,
Skipstjórafél. Kári, Hafnarf.,
Stýrimannafélag Íslands,
Félag Ísl. loftskeytamanna og
Matsveina- og veitingaþjónafélag Íslands.
Á þessum fundi var kjörin stjórn fyrir samtökin og var þessi fyrsta stjórn
þannig skipuð:
Formaður Henry Hálfdánarson,
varaform. Björn Ólafsson,
ritari Sveinn Sveinsson,
vararitari Geir Sigurðsson,
gjaldkeri Guðmundur H. Oddsson,
varagjaldkeri Þorgrímur Sveinsson.
Þessi fyrsta stjórn undirbjó og stóð fyrir hátíðahöldunum á 1. Sjómannadaginn,
sem haldinn var hátíðlegur 6. júní 1938 og vakti fádæma athygli. Vakti fyrsti
Sjómannadagurinn athygli, var það ekki síður með þann næsta. Þá sýndu þessi
samtök það stórfellda afrek, að stofna til sýningar um þróun íslenzkra
sjávarútvegsmála, sem undirbúningur var hafinn að í sambandi við fyrsta
Sjómannadaginn, og var sýning þessi, að margra áliti einhver bezta og
eftirtektarverðasta sýning fyrir almenning, sem hér hafði verið haldin. Fyrst
var aðeins gert ráð fyrir að hafa sýninguna opna um hálfsmánaðar skeið, en
niðurstaðan varð sú, að sýningin var opin um tveggja mánaða skeið við mikla
aðsókn. Hið opinbera studdi þessa menningarviðleitni Sjómannasamtakanna með
myndarlegu fjárframlagi, en sjálfir lögðu sjómenn fram gífurlega vinnu til að
gera sýninguna sem bezt úr garði. Úr þessu urðu sjómannadagssamtök til í öllum
helztu ver- og útgerðarstöðum landsins, þótt þau sem starfað hafa úti um land
hafi ekki haft á prjónunum jafn stórkostleg verkefni og samtökin hér í
Reykjavík og Hafnarfirði, hefur víða verið unnið að ýmsum menningarframkvæmdum
á viðkomandi stöðum.
Sjómannablaðið Víkingur. 5 tbl. 1 maí 1968.