10.06.2018 11:09
1345. Blængur NK 125. TFXD.
Freri fékk nafnið Blængur
Síldarvinnslan
hf. hefur keypt frystitogarann Frera RE-73 af Ögurvík hf. og gerir hann
nú út undir nafninu Blængur NK-125. Skipið hefur legið í Reykjavíkurhöfn
síðustu ár eftir að Ögurvík lagði honum, að eigin sögn vegna hárra veiðigjalda.
Nú heldur það aftur á miðin frá Neskaupstað.
Stefnt var að því að fara fyrsta túrinn frá Neskaupstað í gær, undir skipstjórn
Sigtryggs Gíslasonar. Tuttugu og fjögurra manna áhöfn er um borð og verður
hann gerður út á ufsa, grálúðu og annan botnfisk, segir Gunnþór Ingvason,
framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, í Morgunblaðinu í dag.
Mbl.is
11 júlí 2015.
1345. Blængur NK 125 við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 12 júlí 2015.
1345. Blængur NK 125 við Slippstöðvarbryggjuna á Akureyri. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
Frystitogarinn
Blængur NK verulega breyttur Hér er allt stórt og öflugt
segir Bjarni Ólafur Hjálmarsson, skipstjóri
Frystitogarinn Blængur NK, sem er í eigu Síldarvinnslunnar í
Neskaupstað, er kominn á veiðar eftir viðamiklar breytingar og endurbætur. "Það
má segja að hér hafi allt verið hreinsað út nema vélin. Þetta er eins og að
vera á nýju skipi," sagði Bjarni Ólafur Hjálmarsson, skipstjóri að lokinni
fyrstu veiðiferð eftir breytingar. Blængur er nú á gullkarfaveiðum djúpt suður
af landinu en þar er nú farið að veiðast vel. Blængur NK hét áður Freri RE og
þar á undan Ingólfur Arnarson RE. Skipið var smíðað á Spáni árið 1973 og var
fyrst í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur en síðan eignaðist Ögurvík skipið.
Togarinn var lengdur árið 2000 og er nú tæplega 79 metrar og í honum er 5000
hestafla Wartsila aðalvél. Síldarvinnslan í Neskaupstað eignaðist skipið árið
2015 og snemma á síðasta ári var því siglt til Póllands þar sem skipið var
sandblásið og málað.
Allar innréttingar voru hreinsað út og endurnýjaðar í brú
skipsins, áhafnarklefar sömuleiðis endurnýjaðir, millidekk sandblásið og málað
og breytingar gerðar í lest, m.a. steypt nýtt gólf. Ný löndunarlúga var sett á
skipið. Sett var hliðarskrúfa á skipið og er hún af gerðinni DTG sem Ásafl ehf. hefur
umboð fyrir hér á landi. Allir ljóskastarar á skipinu eru nýir og með LED
tækni. Skjáir voru endurnýjaðir í stjórnpúlti skipstjóra í brú og er í skipinu
nýr Furuno dýptarmælir og JRC straummælir. Að loknum breytingunum í Póllandi
var skipinu siglt til Akureyrar þar sem síðari áfanga verkefnsins var lokið nú
upp úr áramótum. Settur var niður vinnslubúnaðar á millidekki en hluti hans var
áður í frystitogaranum Barða NK í eigu sömu útgerðar. Slippurinn Akureyri ehf.
hafði þann áfanga með höndum og smíðaði hluta vinnslubúnaðar. Rafeyri ehf.
annaðist raflagnaþáttinn og Kælismiðjan Frost ehf. sá um frystibúnaðinn. Blængur er útbúinn til flakafrystingar og áætla skipstjórnendur að frysta alla
jafna um 1600 kassa á sólarhring. Sú breyting verður í Blæng frá því sem
áhöfnin var áður vön í Barða að í skipinu er búnaður til að ganga frá kössum á
bretti uppi á vinnsludekki og er plastfilma sett utan um brettið áður en
lyftibúnaður skilar því niður í lest. Frá afurðum er því gengið tilbúnum á
bretti í lest að lokinni vinnslu og flýtir það talsvert fyrir þegar landað er
úr skipinu. Rafmagnslyftari er í lestinni og því fljótgert að ganga frá brettum
í stæður jafnóðum og þau berast frá vinnslunni. Í lestina er áætlað að komist
um um 20 þúsund kassar.
Bjarni Ólafur Hjálmarsson og Theódór Haraldsson eru skipstjórar á Blæng NK og
voru hæstánægðir með reynsluna sem komin er á skipið eftir breytingarnar.
"Þetta er mikil breyting frá Barða NK, skipið er auðvitað mun stærra og allt
mjög öflugt hér um borð. Við höfum fengið góða reynslu á vinnsluna og förum nú
á gullkarfaveiðar. Það eru næg verkefni framundan fyrir okkur," segja
skipstjórarnir á Blæng NK.
Ægir. 2 tbl. 1 febrúar 2017.
1345. Freri RE 73 við bryggju í Örfirisey. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19 maí 2013.
Um borð í Frera RE 73 við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Skuttogarinn
Ingólfur Arnarson fær nýtt nafn
Freri skal hann heita
Ögurvík, hinn nýi eigandi skuttogarans Ingólfs Arnarsonar,
hefur nú, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, ákveðið að gefa honum nafnið
Freri. Skipinu verður breytt í frystiskip og þykir því nafnið Freri vel við
hæfi. Skrásetningarnúmer skipsins verður RE 73. Auk Frera á Ögurvík og gerir út
skuttogarana Vigra RE 71 og Ögra RE 72.
Morgunblaðið. 9 mars 1985.
1345. Freri RE 73 í slipp. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 september 2014.
Freri verður
frystitogari
Slippstöðin á Akureyri hefur samið við útgerðarfélagið
Ögurvík hf. í Reykjavík um að breyta togaranum Frera RE í frystitogara. Freri
hét áður Ingólfur Arnarson og var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Freri kom
til Akureyrar fyrir helgina og er talið að vinna við breytingarnar taki a.m.k.
fjóra mánuði. Vegna þessa verkefnis sá Slippstöðin sér ekki fært að bjóða í
endurbæturnar og viðgerðina á togaranum Bjarna Herjólfssyni sem Útgerðarfélag
Akureyringa hefur fest kaup á og í framtíðinni mun bera nafnið Hrímbakur EA.
Dagur. 29 apríl 1985.
1345. Freri RE 73 í slipp. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 september 2014.
Skuttogarinn Freri RE 73 fljótandi fiskvinnslu og frystihús
Hægt að frysta allt að 45 tonn á sólarhring
Hið hrollkalda nafn Freri hæfir vel fyrrum Spánartogara
Bæjarútgerðar Reykjavíkur, Ingólfi Arnarssyni, 1.000 tonna skuttogara sem
Slippstöðin á Akureyri hefur nýlega lokið við að breyta í fullkominn
frystitogara. Fljótandi fiskvinnslu- og frystihús. Freri RE 73 er í eigu
Ögurvíkur hf., og að sögn framkvæmdastjórans, Gísla Jóns Hermannssonar, er hægt
að frysta um borð í skipinu allt að 45 tonnum af flökum á sólarhring. Í um það
bil 250 fermetra vinnslusal ægir saman vélum og færiböndum og virðist allt renna
saman í eina sundurlausa bendu. En það er öðru nær. Þarna ræður skipulagið
ríkjum. Úr trollinu kemur sjóvolgur þorskurinn inn á blóðgunarborð, fer þaðan í
aðgerðarvél, þar sem hann er slægður og hausaður, síðan á færibandi inn í
flökunarvél, í gegnum roðflettara, inn á ljósaborð þar sem ormarnir eru tíndir
úr honum, upp á vikt, í pökkunarvél og frystitæki og loks niður í frystigeymslu
í iðrum skipsins. Framhaldið þekkja allir: flutningaskip siglir með hann vestur
um haf þar sem hungraðir gestir Long John Silver bíða spenntir yfir
hvítvínsglasi eftir að borinn sé fyrir þá gómsætur pönnusteiktur þorskur af
íslandsmiðum. Og þjóðin fær skotsilfur í erlendri mynt til að eyða á börum við
Spánarstrendur. Um borð í Frera er 26 manna áhöfn. Brynjólfur Halldórsson skipstjóri
sagði að nóg væri að 10 manns væru á vakt í einu, 4 til að taka inn trollið og
6 í móttökunni inni í vinnslusalnum. Freri heldur líklega á miðin nk.
laugardag.
Morgunblaðið. 31 október 1985.
Skuttogarinn Ingólfur Arnarson RE 201 við bryggju á Akureyri árið 1985. Ljósmyndari óþekktur.
Ingólfur
Arnarson kominn til landsins
Sagt er, að landnámsmaðurinn Ingólfur Arnarson hafi komið
til Íslands árið 874. Nú, 1100 árum síðar, er annar Ingólfur Arnarson kominn
til landsins, Þótt fátt eigi þessir tveir Ingólfar annað sameiginlegt en
nafnið, nema ef vera skyldi, að hinn fyrri hafi einnig haft til að bera
glæsileik á borð við skuttogarann Ingólf Arnarson, sem lagðist fánum prýddur að
Ægisgarði síðdegis í gær. Ingólfur Arnarson er þriðji skuttogarinn, sem
Bæjarútgerð Reykjavíkur kaupir frá Spáni, hin tvö fyrri eru Bjarni Benediktsson
og Snorri Sturluson, og er skipið að allri gerð og stærð nákvæmlega eins og
systurskipin tvö, eða um 960 brúttólestir. Töluvert fjölmenni var komið um borð
í skipið, er blaðamann og ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði og því ekki
hlaupið að því að ná tali af skipstjóranum Sigurjóni Stefánssyni. Um síðir
tókst okkur þó að króa hann af í brúnni ásamt fjölskyldunni og spurðum hann um
skipið og ferðina heim.
"Ferðin heim gekk mjög vel, og ég er í alla staði mjög ánægður með skipið. Ég
er bjartsýnn á, að það eigi eftir að reynast mjög vel og ég held, að ég slái
því bara föstu, að það reynist eins vel og gamli Ingólfur Arnarson." Gert er
ráð fyrir, að áhöfnin verði um 24-25 menn og eru vistarverur allar í skipinu
hinar glæsilegustu, þannig að ekki ætti að væsa um sjómennina um borð. 1.
vélstjóri á Ingólfi Arnarsyni er Kristinn Hafliðason.
Morgunblaðið. 25 janúar 1974.
Ingólfur Arnarson RE 201. Líkan. (C) Arnar Sigurðarson.
Togarar BÚR
Hinn nýjasti af skuttogurum BÚR, Ingólfur Arnarson, kom úr
sinni fyrstu veiðiferð í gær með milli 220 og 230 tonn af mjög góðum fiski,
mest þorski. Ingólfur var 16 daga í túrnum, en mun hafa verið við veiðar í 12
daga, oft í slæmu veðri. Verður ekki af þessum skipum skafið, að þau eru góð
sjóskip, hvað svo sem segja má um þau að öðru leyti. Að sögn Marteins
Jónassonar, framkvæmdastjóra BÚR, er aflaverðmætið eftir þessa ferð um 6
milljónir, gróflega útreiknað. Aðspurður sagði Marteinn, að Snorri Sturluson
hafi farið í veiðiferð síðasta föstudag, en Bjarni Benediktsson á laugardag.
Sagði hann að allt væri í lagi um borð í báðum skipunum, og engar bilanir hefðu
komið upp nýlega.
Síðutogarinn Hjörleifur kom frá Grimsby í gær, þar sem hann seldi 2450 kit
fyrir rúm 34 þús. pund, og var meðalverðið 44-45 kr. fyrir kilóið. Þormóður
goði fór á veiðar laugardaginn 2. marz. Skuttogarinn Júní kom til Hafnarfjarðar
í fyrradag með 190 tonn og þá var Vestmannaey einnig væntanleg.
Tíminn. 14 mars 1974.