30.06.2018 21:45
Landað úr skuttogaranum Barða NK 120.
Skuttogarar
til Austfjarða.
Í þessum mánuði bættust tveir skuttogarar í flota
Austfirðinga, fyrstu skipin þeirrar tegundar, sem Austfirðingar eignast. Hér er
um systurskip að ræða, 494 tonn eftir eldri mælingareglum með 1200 ha Deutz
aðalvél og þrjár ljósavélar af franskri gerð. Bæði eru skipin smíðuð árið 1967
og eru keypt hingað frá Frakklandi. Öll siglingatæki eru ný. Skipin eru tveggja
þilfara þannig að fiskaðgerð fer fram í lokuðu rúmi. Eigendur annars skipsins,
Barða NK 120, er Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað, en hitt, Hólmatind SU 220, á
Hraðfrystihús Eskifjarðar hf. Það var 14 desember, að Barði kom til
Norðfjarðar. Skipstjóri á honum er Magni Kristjánsson, 1. stýrimaður er ráðinn
Birgir Sigurðsson og 1. vélstjóri Sigurður Jónsson, allir í Neskaupstað.
Talsverðar breytingar verða gerðar á skipinu og verða þær framkvæmdar af
Dráttarbrautinni hf. Er hér einkum um að ræða breytingar á matsal og eldhúsi
til samræmis við kröfur okkar, færibönd fyrir fisk á milliþilfar, smábreytingar
í lestum og gerð ísgeymsla á milliþilfari. Loks verður skipið útbúið til veiða
með flotvörpu. Vinna við breytingarnar hófst skömmu eftir komu skipsins og
sækist verkið mjög vel og er gert ráð fyrir að skipið geti farið á veiðar eftir mánuð hér frá. Hólmatindur kom til
Eskifjarðar 22 desember. Breytingar þær,
sem á skipinu verða gerðar, munu mestallar framkvæmdar á Eskifirði. Skipstjóri
á Hólmatindi verður Auðunn Auðunsson, nafnkunnur togaraskipstjóri, 1. vélstjóri
Guðmundur Valgrímsson úr Reykjavík, en 1. stýrimaður hefur ekki enn verið
ráðinn. Menn vænta mikils af þessum skipum. Talið er, að skuttogarar hafi mun
meiri möguleika til að fiska en síðutogarar. Mætti því ætla að afkoma þeirra
verði betri og sjómannahlutur hærri. Þá er þess og vænzt, að útgerð þeirra
verði til að lengja til muna árlegan reksturstíma frystihúsanna og mynda
traustari rekstursgrundvöll fyrir þau og auka á atvinnuöryggi verkafólks.
Austurland. 30 desember 1970.
1137. Barði NK 120 á leið inn Norðfjörð með fullfermi. (C) Sigurður Arnfinnsson.
Fyrsta
veiðiferðin.
Á miðvikudagsmorgun kom Barði úr sinni fyrstu veiðiferð sem
íslenzkt skip. Hafði hann aðeins verið úti nokkra daga og oft verið bræla. Afli
skipsins var um 40 tonn. Allur útbúnaður reyndist í lagi og láta skipverjar vel
af skipinu og vinnuaðstöðu um borð. Hólmatindur, Eskifirði, er nú í sinni
fyrstu veiðiferð eftir að skipið komst í eigu Íslendinga.
Austurland. 19 febrúar 1971.