15.07.2018 10:26

590. Huginn VE 65. TFCV.

Vélbáturinn Huginn VE 65 var smíðaður í Gilleleje í Danmörku árið 1956 sem Huginn NK 110. Eik. 60 brl. 300 ha. Völund díesel vél. Fyrsti eigandi var Hrafnkell hf (Jón Svan Sigurðsson, Ármann Magnússon útgerðarmenn og fl.) í Neskaupstað frá 6 febrúar sama ár. Seldur 2 nóvember 1959, Guðmundi Inga Guðmundssyni og Óskari Sigurðssyni í Vestmannaeyjum, hét Huginn VE 65. Ný vél (1964) 375 ha. Kromhout díesel vél. Seldur 1967, Sjöstjörnunni hf í Keflavík, sama nafn og númer. Seldur 11 desember 1969, Kristjáni Gústafssyni á Höfn í Hornafirði, hét Ljósá SF 2. Ný vél (1973) 382 ha. MWM díesel vél. Seldur 1973, Guðmundi Andréssyni og fl í Kópavogi. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 22 desember árið 1976.

590. Huginn VE 65.                                                     (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.


590. Huginn NK 110 á Norðfirði.                                                          (C) Jakob Hermannsson.

               Huginn NK 110

Um kl. 9 á fimmtudagsmorgun bættist norðfirzka flotanum nýr fiskibátur. Nefnist hann Huginn og eru einkennisstafir hans N. K. 110. Huginn er byggður í Gilleleje í Danmörku og er um 65 lestir að stærð með 240 hestafla Völund vél. Báturinn var 5 sólarhringa á leið hingað frá Danmörku og meðalganghraði á klukkustund var 9 sjómílur. Huginn er traustbyggður bátur og búinn öllum þeim öryggis og siglingatækjum, sem tíðkast í bátum af þessari stærð, þar á meðal asdic-tæki. Mannaíbúðir eru vistlegar og rúmgóðar. Í lúkar eru rúm fyrir 8 menn, í káetu 4 og í brú er klefi skipstjóra. Eigandi Hugins er hlutafélagið Hrafnkell, en aðaleigendur þess eru Jón S. Sigurðsson og Ármann Magnússon.  Huginn verður í vetur gerður út frá Sandgerði og fór áleiðis Þangað í gær.
Skipstjóri verður Jóhann K. Sigurðsson, en skipstjóri á heimleiðinni frá Danmörku var Þórður Björnsson. Austurland óskar eigendum Hugins til hamingju með þennan nýja bát.

Austurland. 11 febrúar 1956.


590. Huginn VE 65 í Vestmannaeyjahöfn.                                          Ljósmyndari óþekktur.


Um borð í Huginn VE 65. Það er Guðmundur Ingi Guðmundsson skipstjóri og útgerðarmaður sem stendur þarna í dyragættinni.              Ljósmyndari óþekktur.


         "Hraðferð á miðin"

  með vélbátnum Huginn NK á síld
      austur af Hraunhafnartanga

Sleppa, rödd Jóns skipstjóra glymur úr brúarglugga. Hásetarnir hlaupa til að leysa landfestar og innan stundar líður Huginn NK 110 út úr Raufarhöfn, með 10 vaska sjómenn innanborðs auk eins landkrabba, fréttamanns blaðsins. Eftir langa mæðu, tókst honum að fá skipspláss, hann hafði gengið á vit nokkurra þekktra og aflasælla skipstjóra, en þeir neitað að taka hann á skipsfjöl af þeim einföldu ástæðum, að síldin fældist þessar ,skrifstofublækur", sem ekkert gera annað en að pikka á ritvél guðslangann daginn. Og hjátrú skipstjóranna sem byggja alla sína afkomu á hegðun þessa dutlunga fulla fisks varð ekki yfirbuguð. En með herkjunum hefst það og á endanum samþykkti Jón Sæmundsson skipstjóri að lofa mér að fljóta með, hann hafði enga reynslu af fréttamönnum. Og út var haldið klukkan nákvæmlega 5 mínútur yfir eitt. Stefna var tekin í NA frá Raufarhöfn, en þar skammt undan landi hafði heyrzt um nokkrar vænar síldartorfur. Hafði Huginn fengið dágóðann afla þar nóttina áður. Ekkert af þeirri síld hafði sézt vaða, en með hjálp asdictækja hafði þeim tekizt að kasta fyrir hana. Asdic-tæki er nú á næstum öllum bátum flotans enda alveg ómissandi. Skipshöfnin á Hugin, hefur veitt um 7000 mál síldar í sumar og þar af aðeins um 300 mál af vaðandi síld, hin 6700 málin með aðstoð asdictækja. Það var mikið rætt og skrifað um asdicið á sínum tíma, en það er samt alls ekki úr vegi að skýra frá notkun þess í fáum orðum. Á botni skipsins er komið lyrir hreyfanlegu "auga", sem stjórnað er með sveif, sem staðsett er upp í brúnni. Tækið sendir frá sér breikkandi rafgeisla út um "augað" og endurkastast hann svo til skipsins, ef um einhverja mótstöðu í sjónum er að ræða.


Nótin dregin inn í nótabátinn hjá Huginn NK 110.                    (C) M.Ö.A. / Morgunblaðið.
  
Áhrifin ritast niður á pappír í tækinu í stjórnklefanum og þannig er hægt að finna síldina án þess að til hennar sjáist úr bátnum. Mönnum hefur gengið misjafnlega vel að notfæra sér þetta "undratæki" og má segja sem svo að aflamagn hvers skips á þessari vertíð fari að nokkru leyti eftir því, hve skipsmenn eru lagnir að beita asdicinu. Í stjórnklefa Hugins er asdic-tækið í gangi og ritar í sífellu. Það er aðeins sjávarbotninn sem kemur fram. Eftir tveggja stunda siglingu frá Raufarhöfn er dregið mjög úr ferðinni og byrjað að leita að síldinni. Það tekur oft margar klukkustundir og jafnvel daga og því ganga hásetar fram í lúkar, þar sem Sæmundur kokkur er með heitt kaffi á boðstólum. Og það er skrafað um það yfir kaffinu hvað eigi nú að gera við kaupið, 35 þúsund krónur nú þegar, það er enginn smáskildingur. Kokkurinn ætlar að byrja á því að byggja bílskúr. Þú færð ekki leyfi til að byggja bílskúr, segir Jón háseti. Ég segi þá bara, að þetta sé kassi. Hvað kemur mönnum það við, þó að maður setji upp stóra kassa á lóðinni. En Sæmundur hættir við það áform, því  þá myndu allir apa þetta eftir honum svo að allar lóðir yrðu fullar af kössum. Nei nú man ég, við vorum búnir að ákveða að fara til Parísar, segir annar og allir skellihlæja. Nei, það væri nú annars betra að fara til Mallorca með Flugfélaginu í haust. En það er lítil von til að við förum þetta, því upphaflegu lágmarkstekjurnar fyrir þetta ferðalag voru 80 þúsund. Ætli það endi ekki með því að maður eyði þúsund kalli í tveggja daga fyllerí. Maður verður að gera sér einhvern dagamun. En samræðurnar hætta skyndilega. Jón skipstjóri birtist í lúkarsopinu kl. 7 og tilkynnir að hann hafi lóðað á sæmilega síldartorfu. Allir rjúka upp til handa og fóta og reka upp siguróp. Nótabáturinn er dreginn upp að skipshlið og tveir ungir sjómenn stökkva um borð og byrja á því að kasta út rauðu dufli. Svo er byrjað að kasta nótinni. 220 faðma löng nælonnót liggur í bátnum og rennur greiðlega í sjóinn. Skipinu er stefnt í hring á mjög hægri ferð svo að endar nótarinnar liggi að því á báðar hliðar. Úti á sjónum flýtur korkurinn upp úr, en stöku sinnum hverfur hann algjörlega í hafdýpið og þá gella við húrra hróp, þetta er merki þess að síld sé í nótinni. En þá ber einn í áhöfninni fram þá athugasemd að þetta geti nú bara alveg eins verið straumnum að kenna. Allir þagna, en herða tökin og bíða í ofvæni eftir svarinu við þessari athugasemd. Frammi í stefni er spilið sett í gang og nótinni er lokað. Nokkrir menn til viðbótar fara í nótabátinn og þá er byrjað að draga nótina.

 
Búið að herpa nótina og skipverjar að byrja að háfa þessar 250 tunnur sem reyndust vera í þessu kasti. 
(C) M.Ö.A. / Morgunblaðið. 

Það er mikið verk og tekur um eina klukkustund. Þrír menn eru enn eftir á skipinu. Þeir fylgjast með og vinna þau handtök, sem ekki eru framkvæmd í nótabátunum. Fjörutíu og fimm mínutur eru liðnar síðan drátturinn hófst. Ein og ein síld er tekin úr nótinni um leið og hún er dregin í bátinn. Það er lítið sagt. Skyldi kastið ekki hafa heppnazt. Múkkahópur er á sveimi rétt við skipið og steypir sér við og við niður að sléttum haffletinum. Hann virðist hafa orðið var. Enn er dregið. Er engin síld í nótinni, verður fréttamanninum að orði?  Það er ekki gott að segja er svarið. Þó að korkurinn hafi nær allur verið dreginn að bátnum, getur nótin náð langt út í sjó. Og það er rétt. Nú kemst hreyfing á við nótabátinn. Og það er ekki um að villast, þetta er síld. Skipshöfnin herðir enn tökin við að sjá silfurgljáandi síldina. Þetta eru einar 250 tunnur hrópar einhver og allir hinir taka undir með honum. Síldin er króuð af milli skips og nótabáts og nú er háfurinn tekinn fram og lagfærður lítið eitt og síðan er honum beint út yfir borðstokkinn og ofan í nótina og hífður inn yfir aftur, fullur af síld. Síldinni er jafnað niður í hólf á þilfarinu, og er haldið áfram að háfa þar til örfáar síldar eru eftir í nótinni en þær eru teknar upp í járnkörfu. Í nótabátnum er verið að ljúka við að ganga frá nótinni og þegar því verki er lokið er ekkert því til fyrirstöðu að haldið sé til lands. Skipstjóri gengur til talstöðvarinnar og "meldar" sig með 250 tunnur í salt til Raufarhafnar. Stefna er tekin á reykinn úr Síldarverksmiðjunum á Raufarhöfn. þær eru að bræða sitt síðasta. Frammi í lúkar bíður maturinn og það er setzt að snæðingi og tekið að rabba um aflabrögðin og kaupið. Fyrir þennan afla fær hver háseti rúmar 16 hundruð krónur og það virðist vera sæmilegt dagkaup. En það er ekki þar með sagt að þessi afli sé vís á hverjum einasta degi, því er nú verr og miður. Fréttinn um veiði Hugins hefur borizt út "í loftinu" og mönnum verður tíðrætt um "strætisvagninn", sem kominn var með afla í annað sinn á sama sólarhring. Klukkan 11 er lagzt að landi við söltunarstöð Valtýs Þorsteinssonar. Stúlkurnar eru ekki enn komnar niður á planið. Áhöfnin byrjar að landa úr skipinu, og að löndun lokinni siglir Huginn næstu "áætlunarferð" út á miðin.

Morgunblaðið. 11 ágúst 1959.
Grein eftir M.Ö.A.



Flettingar í dag: 456
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 2218
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 1193076
Samtals gestir: 83731
Tölur uppfærðar: 1.4.2025 12:26:12