16.07.2018 18:43

Percy ÍS 444. LBMC / TFMI.

Mótorbáturinn Percy ÍS 444 var smíðaður í Yarmouth á Englandi árið 1902. Eik og fura. 43,57 brl. 55 ha. Gray vél (1916). Fyrsti eigandi hér á landi var Jóhann J Eyfirðingur & Co á Ísafirði frá árinu 1924. Í janúar árið 1927 er báturinn kominn í eigu Íslandsbanka. Percy var gerður út á árunum 1927 og 28 af Guðmundi Guðmundssyni og Jóni Guðmundssyni á Ísafirði. Seldur 1929 Jóni Barðasyni á Ísafirði. Högni Gunnarsson útgerðarmaður á Ísafirði eignast bátinn síðar (1933 ?) Percy sökk út af Sauðanesi við Önundarfjörð 5 nóvember árið 1935. Mannbjörg varð. Var Percy að flytja kol úr flutningaskipinu Bisp frá Önundarfirði til Súgandafjarðar og sökk út af Sauðanesi eins og áður segir vegna ofhleðslu.


Percy ÍS 444 við bryggju á Ísafirði.                                             Ljósmyndari óþekktur.

          Aflabrögð Ísafjarðarbáta

»Percy« lagði eigi á veiðar héðan fyrr en í lok janúar, sömuleiðis tveir bátar Sigurðar Þorvarðssonar. »Kári« sameinuðu verslana fór og suður í byrjun febrúar. Hinir bátarnir munu hafa haldið út syðra frá janúarbyrjun fram undir lok marsmánaðar. »Gissur hvíti« er aflahæstur, hefir fengið meiri afla en áður hefir fengist á báta þessa fyrir sama tíma. »Hermóður«, »Sjöfn«, og einkum »Percy« er byrjaði eigi veiðar fyrr en í febrúar, hafa og allir aflað prýðisvel. Auk þess, sem hér er talið, hafa og ýmsir bátanna selt fisk til matar í Reykjavík, eins og áður, og er engin skýrsla til um hve miklu það hefir numið.
Ísafirði, 17. apríl 1926. Kr. J. 

Ægir. 5 tbl. 19 árg. 1 maí 1926.

        Vélbáturinn "Percy" sekkur
                    Mannbjörg

ÍSAFIRÐI í GÆR. EINKASKEYTI TIL MORGUNBLAÐSINS.
Vjelbáturinn "Percy" sökk um hádegi í dag út af Sauðanesi. Áhöfn bátsins bjargaðist á land. Verið var að flytja kol á "Percy'' úr flutningaskipinu "Bisp", frá Önundarfirði til Súgandafjarðar og var báturinn hlaðinn kolum, er hann sökk. Eigendur bátsins eru Högni Gunnarsson, útgerðarmaður, Bjarni Þorsteinsson, skipstjóri bátsins og Gísli Hannesson, sem var vjelstjóri á bátnum.
Percy var 44 smálestir brúttó að stærð. Hann var tryggður hjá Vjelbátaábyrgðarfjelagi Ísfirðinga fyrir 27,500 krónur.

Morgunblaðið. 6 nóvember 1935.


 
Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30