28.07.2018 07:51

B. v. Baldur RE 244. LCJQ / TFBD.

Botnvörpungurinn Baldur RE 244 var smíðaður hjá Schiffsbau Geselleschafts Unterweser í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1921. 315 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 44,21 x 7,63 x 3,67 m. Smíðanúmer 186. Eigandi var hf Hængur í Reykjavík frá október sama ár. Kom fyrst til heimahafnar, Reykjavíkur hinn 18 október 1921. Mikið uppnám varð við komu togarans, því umtalsvert magn af áfengi fannst í skipinu og var það gert upptækt og sent til Kaupmannahafnar þar sem "valdir" góðborgarar hafa eflaust gert því góð skil. Árið 1940-41, eignast Gísli Jónsson (Bíldudals-Gísli) útgerðarfélagið Hæng og einnig Fiskveiðahlutafélagið Njál á Bíldudal. Var togarinn gerður þá út af því félagi frá Bíldudal, hét þá Baldur BA 290. Togarinn var seldur í brotajárn til Belgíu og tekinn af skrá 20 febrúar árið 1952.
Myndin, sú fyrsta hér að neðan, var sögð vera af Þorgeir skorargeir GK 448 ex Ýmir GK 448, á "sígarettumyndunum" sem gefnar voru út af Tóbaks einkasölu ríkisins árið 1931. Það er togarinn Baldur RE 244 sem er á þessari mynd. Ég ætla hér að vitna í orð Birgis Þórissonar, sem er einn sá fróðasti um sögu gömlu togaranna okkar, en hann sagði í áliti hér á síðunni í fyrra:

"Fyrir margt löngu rak ég augun í það að "sígarettumyndin" af Þorgeiri skorargeir væri ekki af honum, heldur einu af þýsk-byggðu togunum frá 1921.
Nú nýlega varð myndasafn Guðbjartar Ásgeirssonar "sýnilegt" í Sarpi (sarpur.is), og kom þá í ljós að myndin er af togaranum Baldri RE 244"

Ég eignaðist nýlega þessa mynd, sem er á gömlu póstkorti og í góðum gæðum. Það fer ekkert á milli mála að skipið er Baldur RE 244, þegar maður ber saman myndir af "báðum" skipunum.

 
Botnvörpungurinn Baldur RE 244.   (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Mynd á gömlu póstkorti í minni eigu.
 

       Botnvörpungurinn "Baldur"

Nýr togari kom hingað í morgun frá Þýzkalandi. Heitir hann Baldur og er eign h.f." Hængur. Gunnlaugur Illugason var skipstjóri hingað til lands.

Vísir. 18 október 1921.

 
Baldur RE 244 á toginu út af Jökli.                                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
Botnvörpungurinn Baldur BA 290 í Reykjavíkurhöfn.                              (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

Mynd nr: 21 af "sígarettumyndunum" sögð vera af Þorgeir skorargeir GK 448 en reyndist vera af Baldri RE 244.
 

  Þegar tveir þeirra gömlu kvöddu  

Þess var getið í síðasta blaði að togararnir Haukanes og Baldur hefðu verið seldir til niðurrifs til Belgíu. Áður en þeir fóru héðan voru þeir fylltir af brotajárni, en þýzkur dráttarbátur var sendur til að draga þá utan. Þeir lögðu úr höfn mánudaginn 2. marz, en þegar komið var suður í Grindavíkursjó varð þess skjótlega vart, að kominn var talsverður sjór í Haukanes. Leit svo út um tíma, að það mundi sökkva og voru gerðar ráðstafanir til að koma viðgerðarmönnum um borð í skipið, en öll var þrenningin skammt undan landi. En þeir komust ekki um borð vegna veðurs. Dráttarbátnum tókst hins vegar að dæla sjónum úr Haukanesi og kom hann aftur með bæði skipin til Reykjavíkur. Við athugun kom í ljós, að leki hafði ekki komizt að Haukanesi, heldur hafði farið sjór inn um akkeriskeðjugatið. Nú eru skipin öll komin heil á húfi til Belgiu.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1952.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30