12.08.2018 10:48

B. v. Brimir NK 75 að landa síld í Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar sumarið 1936.

Norðfjarðartogarinn Brimir NK 75 landaði oftast síldarafla sínum í Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar og hefur hann eflaust haldið þessari verksmiðju gangandi á meðan hann var í eigu Norðfirðinga. Þessi bræðsla var sú fyrsta sem reist var á Austfjörðum og var það þýski efnafræðingurinn Dr.Carl Paul sem það gerði ásamt norðmönnum árið 1927. Verksmiðjan tók til starfa í júnímánuði það ár. Árið 1931 hætti dr. Paul rekstri bræðslunnar og var ástæðan sögð vera fjármálakreppan í Þýskalandi. Bærinn eignaðist svo verksmiðjuna árið eftir og var hún stækkuð árið 1934 og aftur 1938 og gat þá brætt rúmlega 700 mál á sólarhring. Árið 1940 er verksmiðjan komin í eigu Landsbankans og svo sama ár í eigu Síldarverksmiðja ríkisins sem ráku hana aldrei, heldur sendu menn austur til að negla fyrir glugga og loka henni til frambúðar. Síldarbræðsla hófst ekki aftur á Norðfirði fyrr en Síldarvinnslan hf var stofnuð og byggði sína bræðslu árið 1957.


Togarinn Brimir NK 75 að landa síld í Fóðurmjölsverksmiðjuna 1936.  Úr safni Salgerðar Jónsdóttur.

           "Gúanó" verksmiðjan

Þýsk-norskt fjelag er nú byrjað á byggingu stórrar "gúanó-verksmiðju" hjer á Norðfirði. Er henni ætlað fyrst um sinn að vinna mjöl úr þorskúrgangi, hausum og hryggjum og er svo ráð fyrir gert, að þorsk-úrgangar frá öðrum fjörðum hjer eystra, verði fluttur hingað og malaður hjer, og mun skip verða haft í förum til þeirra flutninga. Er svo sagt, að reist muni verða þrjú hús, verksmiðjan, geymsluhús og íbúðarhús forstjóra, auk þess á að byggja bryggju og önnur "plön" tilheyrandi verksmiðjunni. Er svo til ætlast, að byggingu verði lokið í júnímánuði n. k. Er stundir líða, mun fjelagið einnig hyggjast að koma upp síldarbræðsluverksmiðju, ef síldveiði glæðist hjer eystra og mun jafnvel í ráði, að hafa litla "síldarpressu" nú þegar, svo hægt verði að veita viðtöku því er veiðast kynni í sumar. Blaðið hefir átt tal við forstjórann, hr. Joakim Indbjo, og spurt hann um, hvort nokkrir útlendingar mundu teknir til vinnu við verksmiðjuna og hefir hann lýst því yfir, að svo muni ekki verða, nema ekki yrði hægt að fá íslenska vjelamenn og verkstjóra, þá mundu Norðmenn verða til þess teknir. Verksmiðjan mun því verða reist og starfrækt með íslenskum vinnukrafti eingöngu, enda væri annað óverjandi í því atvinnuleysi, sem nú er hjer á Austfjörðum.

Jafnaðarmaðurinn. 1 tbl. 1 mars 1927. 


Þrær bræðslunnar sumarið 1937.                                                                  (C) Sveinn Guðnason.

  Fiskimjölsverksmiðja Norðfjarðar

Fóðurmjölsverksmiðja Norðfjarðar er nú tekin til starfa. Með sönnu verður eigi annað sagt en að fljótt og vel hafi gengið að reisa verksmiðjuna, þar sem eigi var byrjað að vinna þar fyr en eftir nýár, en nú getur að líta þar á lóðinni myndarlegt íbúðárhús, vjelahús úr stáli og bárujárni ásamt geymsluhúsi. Auk þessa hafa reistir verið pallar (plön) og hafskipabryggja byggð. Fyrir byggingum þessum hefir staðið framkvæmdastjóri verksmiðjunnar, hr. J. Indbjör, en hann hefir haft sjer til aðstoðar erlenda sjerfræðinga við járnhúsagerðina og vjelaniðursetninguna. Bendir allt á, að örugg hafi forystan verið. Og verkstjórar og vinnulýður verið samtaka, enda mun þar ríkt hafa friður og eindrægni og full samúð allra aðila. Hefir verkamönnum þessa þorps orðið hinn besti styrkur að byggingarvinnu þessari, enda munar um minna. Verksmiðjan hefir áræðanlega greitt verkalaun inn í þorpið svo þúsundum króna skiftir. Þar að auki kaupir hún fiskiúrgang, hausa og dálka, og þó að þar sje ekki um stóran tekjustofn að ræða, þá horfir það samt til hagabóta sjómönnum, og afarmikils hreinlætisauka í bænum. Einnig  má telja víst, að sjómennirnir muni í tómstundum sínum taka að stunda hjer upsaveiði, því að markaðinn skortir eigi lengur, verksmiðjan kaupir upsann. Vel mætti vera að nokkrar tekjur mætti af slíkri veiði hafa, því að oft er fjörðurinn fullur af smáupsa á sumrin og framan af vetri. Það er vonandi að iðnaðarfyrirtæki þetta verði alþýðu manna bæði hagfelt og hugfelt, og í fullu trausti þess að svo reynist, óska jeg því góðs gengis.

Jafnaðarmaðurinn. 2 júlí 1927.

Botnvörpungurinn Brimir NK 75. LBMQ / TFXC. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska flotann. Hét þar Simeon Moon. Smíðanúmer 897. 314 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur sama ár, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét General Rawlinsson H 173. Seldur 13 september 1924, Fiskveiðahlutafélaginu Víði í Hafnarfirði, hét Ver GK 3. Skipið var selt 4 september 1931, h/f Ver í Reykjavík, hét Ver RE 32. Selt 18 apríl 1936, Togarafélagi Neskaupstaðar í Neskaupstað, hét Brimir NK 75. Seldur 29 júlí 1939, Hlutafélaginu Helgafelli í Reykjavík (Skúli Thorarensen), hét þar Helgafell RE 280. Selt 15 júní 1945, Hlutafélaginu Hrímfaxa í Reykjavík og Hlutafélaginu Sviða í Hafnarfirði, skipið hét Skinfaxi GK 3. Skipið var selt til Færeyja í ágúst 1947, hét þar Miðafell FD 69. Togarinn var seldur í brotajárn til Antwerpen í Belgíu og rifinn þar í október árið 1951.


Áhöfnin á togaranum Brimi NK 75 sumarið 1937.                     Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.

     5-6 þúsund mál af síld veiddust í gær
       á Húnaflóa, við Skaga og Langanes
            Togarinn Brimir fékk 1.700 mál

Síldarflotinn er nær allur á leið til Langaness

Mikil síld veiddist í gær á Húnaflóa, við Haganesvík og við Langanes. Munu hafa veiðst að minsta kosti 5-6 þúsund mál alls á þessum slóðum. Mestan afla fékk Bæjarútgerðartogarinn "Brimir" frá Norðfirði,1.700 mál. Mest allur síldveiðaflotinn mun nú vera á leiðinni austur undir Langanes. Sólskin og ágætt síldarveður var fyrir Norðurlandi í fyrradag og í gær og í gær komu mörg síldveiðaskip inn til Síldarverksmiðjanna á Norðurlandi, Siglufirði, Dagverðareyri og Djúpuvíkur. Höfðu þau flest fengið síldina á Húnaflóa og við Haganesvík. Til Siglufjarðar komu í nótt Freyja með 500 mál, Alden með 400 mál, Hringur með 700 mál, Fáfnir með 750 mál og Vébjörn með 250 mál. Auk þess komu nokkur önnur skip með minna. Sildin er nú mun feitari en áður og er meðalfita á þeirri síld, sem mæld var í gær á Siglufirði um 15% en feitasta síld, sem mæld var var 17%. Til Dagverðareyrar komu í gær línuveiðarinn Langanes með 250 mál. Er það fyrsta skipið, sem leggur upp síld í þeirri verksmiðju í ár, en búizt var við þremur skipum þangað í morgun. Þau skip höfðu einnig fengið síldina á Húnaflóa og við Skaga. Til Djúpuvíkur kom í gær Surprise með 240 mál, en von var í dag þangað á togaranum Ólafi með 150 mál, sem hann hafði fengið í nótt og Garðari með 300 mál.
Togarinn Brimir frá Norðfirði, eign bæjarins, kom til Norðfjarðar í morgun og landar þar í dag 1.700 mál, sem hann hafði fengið við Langanes í gær. Er það mesti síldarafli sem eitt skip hefir fengið sem og fyrsti afli sem kemur til síldarverksmiðjunnar á Norðfirði. Eftir því sem frést hefir mun síldveiðaflotinn nú yfirleitt halda austur að Langanesi og mun verksmiðjan á Raufarhöfn verða tilbúin að taka á móti síld eftir fáa daga. Flest skip, sem ætla að stunda síldveiðar í sumar eru nú farin á veiðar og munu þegar vera komin um annað hundrað skip til veiðanna. Véíbáturinn Eggert frá Sandgerði kom í gær til Keflavíkur með 80 tunnur af síld til frystingar í frystihúsi hlutafélags Keflavíkur. Síldin veiddist í reknet síðastliðna nótt 15 sjómílur í vestur frá Sandgerði. Skipstjórinn áleit mikla síld á þeim slóðum. Síldin er talin eins góð eða betri en síld sú er veiddist síðari hluta síðastliðins hausts.

Alþýðublaðið. 23 júní 1936.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30