Þilfarsbáturinn Hrönn GK 50 var smíðaður af Pétri Vigelund skipasmíð í Grindavík árið 1935 fyrir Einar G. Einarsson kaupmann og útgerðarmann í Garðhúsum í Grindavík. Eik og fura. 8 brl. 18 ha. Ford vél. Ný vél (1942) 25 ha. Gray díesel vél. Seldur 1945, Gísla Styff Ólasyni í Reykjavík, hét Hrönn RE 54. Seldur 27 júlí 1953, Sigurjóni Ó Gíslasyni í Reykjavík, hét Hrönn RE 259. Seldur 13 desember 1956, Sófusi Gjöveraa og sonum hans, Sófusi Gjöveraa yngri og Alexander Gjöveraa (afi, faðir minn og föðurbróðir) í Neskaupstað, hét þá Hrönn NK 63. Talinn ónýtur vegna fúa og tekinn af skrá haustið 1959.
Fyrstu vélbátarnir sem gerðir voru út frá Grindavík voru gamlir áttæringar sem breytt var, er vél var sett í þá. Síðan tóku Grindvíkingar að smíða vélbáta og um miðjan 4 áratuginn (1934-35) voru allmargir bátar smíðaðir í víkinni (Grindavík). Þeir stærstu voru þilfarsbátarnir Hrönn GK 50 og Stormur GK 144, eigandi, Árni Vilmundsson Löndum í Grindavík. Báðir voru þeir smíðaðir af Færeyingnum Pétri Vigelund. Þeir voru báðir 8 brl. að stærð og smíðaðir árið 1935.

Þilfarsbáturinn Hrönn GK 50. (C) Einar G Einarsson.
Hrönn GK 50. Ég fæ ekki betur séð en að þeir hafi verið á síldveiðum þegar þessi mynd er tekin. Fæ ekki betur séð en að það sé síldarnót aftan við stýrishúsið. (C) Einar Einarsson.
Bátasmíði í
Grindavík.
Pétur Vigelund er, nú að lúka við smíði í Grindavík á
vjelbát með þilfari, fyrir Einar yngra Einarsson frá Garðhúsum. Annan bát hefir
Vigelund í smíðum og byrjar bráðum á þeim þriðja. Útgerðin í Grindavík er að
breytast, því að eftir að bryggjan kom er hægt að hafa þar stærri báta og betur
útbúna báta en áður var. Nú er t. d. verið að setja þilfar í einn trillubátinn
og verður sennilega sett í fleiri báta. Nýlega hefir nýr bátur bæst í flotann í
Grindavík, eigandi Karl Guðmundsson. Þessi bátur er smíðaður hjer í Reykjavík,
er með stýrishúsi, og vjelahúsi. Í honum er 12-15 hestafla Scandiavjel.
Báturinn var rjettar 7 stundir á leiðinni hjeðan til Grindavíkur.
Morgunblaðið. 17 október 1934.
28.-29. marz rak vélbátinn »Hrönn«, eign verzlunar Einars G.
Einarssonar, á land í Grindavík og brotnaði, en við bátinn hefur verið gert.
Ægir. 1 maí 1935.
Skrifað af Þórhalli S Gjöveraa.