08.09.2018 09:17
V. b. Óðinn GK 22.
Þrír
vélbátar farast
Aðfaranótt laugardags 12. febrúar gerði aftakaveður af
suðvestri. Flestir bátar úr verstöðvum frá Faxaflóa, Vestmannaeyjum og
Hornafirði, höfðu róið um nóttina, og lentu margir bátar í hinum mesta
hrakningi við að ná landi. Vélbátnum Ægir úr Garði, eign Finnboga
Guðmundssonar, útgerðarmanns, hvolfdi út af Garðskaga og fór heila veltu yfir
sig í sjónum. Reið brotsjór yfir skipið og braut allt ofan af því.
Skipstjórinn, ásamt Sigurði Björnssyni, var í stýrishúsinu, er sjórinn reið
yfir skipið. Tók Sigurð út. en skipstjórinn festist undir planka og bjargaðist
þannig. Í lúkarnum voru þrír menn, og sakaði þá ekki. Komu þeir upp, eftir að
báturinn hafði rétt sig við, en rétt í þeim svifum bar þar að m.b. ,.Jón
Finnsson", skipstjóri Þorsteinn Jóhannesson, og tókst honum að bjarga þeim
fjórum, sem eftir voru um borð, og fór með þá til Keflavíkur. Sigurður
Björnsson, sem drukknaði, var frá Geirlandi í Sandgerði, sonur Björns
Sigurðssonar, skipstjóra á Siglufirði. Hann var fæddur 27. maí 1917, kvæntur og
átti 3 börn. "Björn II", frá Akranesi sökk á fiskimiðunum, er hann var
ásamt öðrum bátum á leið til lands. Kom allt í einu mikill leki að bátnum og
sáu skipverjar að hann myndi sökkva innan skamms. Náðu þeir sambandi við m.b.
"Fylkir" frá Akranesi, skipstj. Njáll Þórðarson, tókst skipverjum af
"Fylkir" að bjarga mönnunum fjórum, sem voru á "Birni II." en
báturinn maraði í kafi síðast er sást til hans. v.b. "Ægir" rak síðar yfir
bugtina og lenti í sandvík í landi jarðarinnar Ás í Melasveit. Frammastrið hékk
við bátinn á reiðanum, veiðarfæri í lestinni, bolur bátsins, kjölur, stýri og
skrúfa allt óbrotið. Þykir einstakt að bátinn skyldi reka gegnum skerjagarðinn
án þess að saka og eru nú taldar góðar líkur á, að báturinn náist út. Í þessu
sama veðri fórust tveir vélbátar frá Vestmannaeyjum og einn frá Gerðum.
Vestmannaeyjabátarnir voru: "Freyr", VE 98, 14 smál., byggður í Færeyjum
1920. "Njörður", VE 220, 15 smál. byggður í Vestmannaeyjum 1920, eigandi
beggja þessara báta var h.f. Fram í Vestmannaeyjum. Það er kunnugt að
"Njörður" lagði lóðir sínar vestur frá Einidranga og sást það síðast til
bátsins, að hann lagði af stað heimleiðis um hádegi á laugardag. Bjarghring
hefir rekið á Landeyjarfjörum úr bátnum. "Freyr" lagði sínar lóðir
norðvestur af Einidranga, ásamt öðrum báti. Hefir ekkert spurst til Freys
síðan. Einum Vestmannaeyjabáti hlekktist á. Var það Ísleifur, VE 63, 30 smál.,
byggður í Reykjavík 1916. Reið mikill sjór yfir bátinn og skolaði öllu lauslegu
af þiljum. Munaði litlu að báturinn færist. Sjómenn í Vestmannaeyjum telja
laugardagsveðrið eitthvert versta sjóveður, sem Vestmannaeyjabátar hafa lent í
lengi.
V.b. "Óðinn" GK 22 var byggður í Friðrikssundi 1931, var 22 smál. Eigendur
firmað Guðmundur Þórðarson, Gerðum. Hann fór í róður á föstudagskvöldið, og
hefir sennilega lagt línu sína djúpt í Miðnessjó. Þegar síðast sást til hans, rétt
um kl. 12 á laugardag, var hann á þeim slóðum og "slóvaði" við bauju. Á
Óðni voru þessir menn:
Geirmundur Þorbergsson, skipstjóri Bræðraborg, Garði, f. 10. sept. 1910,
kvæntur, lætur eftir sig 3 börn.
Þorsteinn Pálsson, vélamaður, Sandgerði, f. 8. júní 1925, kvæntur, lætur eftir
sig 4 börn.
Þórður Óskarsson, Gerðum, f. 16. sept. 1925, ókvæntur.
Tómas Árnason, frá Flatey á Skjálfanda. f. 28. sept. 1915, ókvæntur.
Sigurður Jónasson, frá Súðavík, f. 4. nóv. 1923, ókvæntur.
Auk þessara bátstapa með allri áhöfn, varð mikið um skemmdir á bátum, sem ýmist
komust nauðulega að landi, sumir mikið brotnir, og allmikið var um að bátar
brotnuðu við að reka á land. Veiðarfæratjón varð gífurlegt hjá bátaflotanum, og
er talið að það muni nema hundruðum þúsunda króna.
Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1944.