08.09.2018 10:16
1472. Ísborg ll ÍS 260. TFVM.
Nýtt
skip í flota Vestfirðinga
Það bættist í Vestfirskan skipaflota þegar
útgerðarmaðurinn Arnar Kristjánsson sigldi nýju skipi sínu, Ísborg ll ÍS 260
til heimahafnar í dag. Með tilkomu nýja skipsins verður eldra skipinu Ísborgu,
lagt og það selt í niðurrif. Það skip sem áður hét Hafþór og síðan Haffari og
var þá gerður út frá Súðavík hefur verið mikil happafley og verið ein af
burðarásum í hráefnisöflun fyrir rækjuvinnslur í Ísafjarðarbæ.
Nýja skipið sem áður var gert út frá Sauðárkrók og hét þá Klakkur, var gert út
á fiskitroll til hráefnisöflunar fyrir Fisk Seafood. Skipið var þá undir stjórn
Snorra Snorrasonar, mikils fiskimanns. Klakkur er 500 rúmlestir, smíðaður í
Gdynia í Póllandi 1977 og var Klakkur hf í Vestmannaeyjum upphaflegur eigandi.
Ísborg II kemur úr slipp á Akureyri þar sem það var botnmálað og farið yfir
skrúfu og öxuldregið. Arnar gerir ráð fyrir að veturinn verði notaður til að
útbúa skipið til rækjuveiða og það geti hafið veiðar snemma vors.
1472. Klakkur SK 5 við bryggju á Sauðárkróki. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 17 júlí 2016.
1472. Klakkur VE 5 í slippnum á Akureyri. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
Togarinn fór
á hliðina í þurrkví
Skuttogarinn Klakkur VE skemmdist mikið þegar hann lagðist á
hliðina í slipp í Cuxhaven í Vestur-Þýskalandi seint í fyrrakvöld. Skipið var
til viðgerða í skipasmíðastöð og var verið að sjósetja það þegar óhappið varð.
Haraldur Benediktsson skipstjóri á Klakk vildi sem minnst um óhappið ræða þegar
Mbl. náði símasambandi við hann í gærkvöldi. Sagði hann að sjópróf ættu eftir
að fara fram og þar myndu málin skýrast. Skipið maraði í hálfu kafi og hallaði
80 gráður eftir óhappið en rétti sig við í 45 gráðu halla eftir að vélarrúmið
fylltist af ajó. Í gærkvöldi var kominn stór flotkrani að Klakki og átti að
lyfta skipinu aftur upp í slippinn í gærkvöldi. "Þetta er flot"dokk" sem
þeir hleypa sjó inn í og var búið að sökkva henni þó nokkuð þegar óhappið varð.
Skipið lagðist bara á hliðina þarna í "dokkinni" hjá þeim þannig að það
hallaði 80 gráður en lenti þá með möstrin á brúninni á kanti sem þarna er
við," sagði Haraldur.
Aðspurður um skemmdir sagði hann: "Þetta er eins svart og það getur verið, held
ég að óhætt sé að segja. Sjór fór niður alla loftkanala þannig að vélarrúmið
fylltist. Sjórinn fór um allt skip, inn í íbúðir og alveg inn í brú, hún
fylltist fast að því til hálfs. Skrokkur skipsins er óskemmdur og mest af
tækjunum í stýrishúsinu. Maður veit ekki hvað mikið er skemmt í vélarrúminu.
Allt er ónýtt í eldhúsi og matvælageymslum og íbúðum. Jólainnkaup mannskapsins
fóru þar fyrir lítið." Þegar sjósetja átti skipið voru 14 um borð, 12
skipverjar og eiginkonur tveggja þeirra. Haraldur sagði að enginn hefði meiðst
og aldrei hefði verið veruleg hætta á ferðum fyrir fólkið. Sagði hann að þau
hefðu verið hífð í land með krana sem þarna er og allt hefði það gengið vel.
Hluti hópsins færi heim með flugi á föstudag en hin með Breka VE sem selur í
Cuxhaven á mánudag. Haraldur sagði að þetta setti mikið strik í reikninginn hjá
þeim. Fyrirhugað hefði verið að halda heim með skipið um helgina en nú væri
ljóst að það yrði ekki næstu mánuðina en tók jafnframt fram að hann væri
reyndar ekki fæddur bjartsýnismaður.
Morgunblaðið. 8 nóvember 1984.
1472. Klakkur VE 103 í Vestmannaeyjahöfn. Enn með framgálgann. (C) Tryggvi Sigurðsson.
Klakkur VE
103
29. marz sl. kom skuttogarinn Klakkur VE 103 til heimahafnar
sinnar, Vestmannaeyja, í fyrsta sinn. Klakkur VE er byggður í Gdynia í Póllandi
hjá Stocznia im Komuny Paryskiey (nýsmíði B 402/2) og er síðasti skuttogarinn í
raðsmíði þriggja togara fyrir íslenzka aðila hjá umræddri stöð. Fyrr á þessu
ári komu til landsins skuttogararnir Ólafur Jónsson GK og Bjarni Herjólfsson
ÁR. Klakkur VE er í eigu samnefnds hlutafélags í Vestmannaeyjum. Skipstjóri á
Klakk er Guðmundur Kjalan Jónsson og 1. vélstjóri Jón Sigurðsson.
Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Arnar Sigmundsson. Klakkur VE er byggður í
flokki Lloyds Register of Shipping og búinn til botnvörpu- og flotvörpuveiða.
Mesta lengd skipsins er 52.05 m, breidd 10.30 m, dýpt að efra þilfari 6.96 m,
dýpt að neðra þilfari 4.60 m. Lestarrými er 462 m3 og er lestin gerð fyrir
kassa nema fremsti hluti hennar, sem er búin uppstillingu. Brennsluolíugeymar
eru 190 m3 að stærð og ferskvatnsgeymar 55 m3 . Skipið mælist 488 brl og hefur
skipaskrárnúmer 1472. Aðalvél er frá Sulzer, 2200 hö, tengd niðurfærslugír frá
Renk og skiptiskrúfubúnaði frá Liaaen. Þrír rafalar eru drifnir af aðalvél um
niðurfærslugír, tveir 130 KW jafnstraumsrafalar á sama öxli fyrir togvindur og
einn 400 KVA, 3x400 V riðstraumsraf all fyrir rafkerfi skipsins. Hjálparvél er
frá Caterpillar, 330 hö, sem knýr einn 250 KVA, 3x400 V riðstraumsrafal og einn
60 KW jafnstraumsrafal, vararafal fyrir togvindur. Eftir að skipið kom til
landsins var sett í það 110 ha Lister hafnarljósavél með 88 KVA riðstraumsrafal.
Stýrisvél er frá Hydroster, 6300 kgm snúningsvægi. Af öðrum vélabúnaði má nefna
tvær skilvindur, tvær ræsiloftþjöppur, tankmælikerfi,
ferskvatnsframleiðslutæki, COo-slökkvikerfi, rafknúnar dælusamstæður fyrir
vökvaknúin búnað svo og tvær kæliþjöppur, fyrir lest og matvælageymslur. íbúðir
eru fyrir samtals 16 menn. Á neðra þilfari eru fimm 2ja manna klefar og einn
eins manns klefi, en á efra þilfari eru fimm eins manns klefar fyrir yfirmenn.
íbúðir eru hitaðar upp með rafmagnsofnum. Vinnuþilfar er búið blóðgunarkerum,
aðgerðarborðum færiböndum og þvottavél, svo og búnaði fyrir slóg og lifur. Í
skipinu er 10 t Finsam ísvél og 20 m3 isgeymsla. Kæling í lest er með
kælileiðslum. Vindur eru allar pólskar að undanskilinni flotvörpuvindu (Karmoy)
og netsjárvindu (Brattvaag). Skipið er búið tveimur rafknúnum togvindum
(splitvindum), rafknúinni hjálparvindu með sex tromlum og akkerisvindu sem
einnig er rafknúin. Auk þess eru tvær vökvaknúnar hjálparvindur, tveir
vökvaknúnir losunarkranar svo og áðurnefndar vindur, flotvörpuvinda og
netsjárvinda.
Mesta lengd 52.05 m.
Lengd milli lóðlína 43.80 m.
Breidd 10.76 m.
Dýpt að efra þilfari 6.96 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.60 m.
Djúprista (KVL) 4.40 m.
Eiginþyngd 905 tonn.
Særými (djúprista 4.58 m) 1170 tonn.
Burðarmagn (djúprista 4.58 m) 265 tonn.
Lestarrými 462 m 3.
Brennsluolíugeymar 190 m 3.
Sjókjölfestugeymir 7 m 3.
Ferskvatnsgeymar 55 m 3.
Ganghraði (reynslusigling) 14,4 sjómílur.
Togkraftur (bollard pull) 25 tonn.
Rúmlestatala 488 brl.
Skipaskrárnúmer 1472.
Ægir. 6 tbl. 1 apríl 1977.