23.09.2018 11:21
Hafdís RE 66. TFIO.
Vélbáturinn Hafdís RE 66 í Reykjavíkurhöfn. Ljósmyndari óþekktur.
Fyrsti
Svíþjóðarbáturinn sem ríkið lét smíða er kominn
Hafdís fékk
vont veður á leiðinni
Hafði samflot við dansksmíðaðan bát
Í gær kom til Reykjavíkur fyrsti Svíþjóðarbáturinn, sem
smíðaður er á vegum ríkisstjórnarinnar. Er það m.b. "Hafdís". Vísir hefir
haft tal af Þorkeli Jónssyni, skipstjóra bátsins, og innt hann eftir hvernig
báturinn hafi reynst í ferðinni. Sagðist honum svo frá:
Við lögðum af stað frá Gautaborg föstudaginn 5. apríl. Fengum við slæmt veður á
leiðinni til Færeyja, 7-9 vindstig á móti. Frá Færeyjum fengum við hvasst
S-A.-veður nær alla leiðina til Reykjavíkur. Reyndist báturinn vera alveg
prýðilegt sjóskip og vélin ekki síðri, eða svo, að ég tel að vart verði á betra
kosið. Báturinn er byggður í Ringens Bátvarv, Marstrand og er ca. 50 smálestir
að stærð og er hinn traustbyggðasti í alla staði. Gangvél bátsins er 170 ha.
Atlas Dieselvél. Þess má geta í sambandi við smíði bátsins, að fremur illa
gengur með afhendingu og vinnu við niðursetning vélanna, en hjá
skipasmíðastöðvunum sjálfum er annars mikill áhugi fyrir að ljúka smíði bátanna
hið fyrsta. Ákveðið er að gera bátinn út á togveiðar svo fljótt sem unnt er.
Samflota "Hafdísinni" var bátur, er smíðaður var í Frederikssund
Skibsværft í Danmörku. Heitir bátur sá "Fram" og er eign hlutafélagsins
"Stefnis" í Hafnarfirði. Reyndist bátur þessi hið traustasla og bezta
sjóskip. Er bátur þessi um 60 smálestir að stærð, með Tuxham dieselvél. Var
samið um smíði bátsins í ágústmánuði s. l., og er kostnaður við smíðina
töluvert minni en þeirra sænsku. Eru nú 15 bátar í smíðum í þeirri
skipasmíðastöð, sem smíðaði "Fram". Hafa borist miklu fleiri pantanir, en ekki
hefir verið hægt að taka fleiri sökum anna.
Vísir. 15 apríl 1946.
Fyrirkomulagsteikning af 50 tonna bát, smíðuðum í Svíþjóð árið 1946.
Sæbjörg VE 50 í Vestmannaeyjahöfn. (C) Tryggvi Sigurðsson.
Sæbjörg VE
50 sökk á rúmri klukkustund
Vélbáturinn Sæbjörg áður Sigrún VE 50, 52 tonn að stærð,
sökk er hún var að veiðum út af Vík í Mýrdal s.l. sunnudagsmorgun. Á skipinu
voru 5 menn og björguðust þeir allir yfir í vélbátinn Gylfa, sem flutti þá til
Vestmannaeyja síðari hluta sunnudags. Nánari atvik þessa slyss eru sem hér
segir eftir því sem fram kom við sjópróf:
Sæbjörg hélt héðan í róður s.l. föstudag, en báturinn stundaði botnvörpuveiðar.
Var haldið austur að Alviðruvita og verið þar nokkurn tíma. Síðan er haldið
vestur aftur og verið að veiðum út af Vík í Mýrdal um kl. 7 á sunnudagsmorgni.
Þegar einu kastinu er lokið fara allir niður í lúkar nema skipstjórinn, Hilmar
Rósmundsson, sem var á vakt á toginu. Áður en farið er niður, segir
vélstjórinn, Theodór Ólafsson, að hann hafi gengið niður í vélarrúmið til að
dæla á hæðarbox og fleira er ditta þurfti að, dæla út sjó o.þ.h. Sá hann þá
ekkert athugavert. Þegar klukkan er tekin að ganga níu lítur skipstjórinn niður
í vélarrúm og sér þá að mikill sjór er kominn í vélarrúmið. Hann fer strax fram
í lúkar og kallar á skipsmenn og segir þeim að koma upp í snarheitum því mikill
leki virðist kominn að skipinu. Þá er svo komið að sjór er kominn á
lúkargólfið. Vélstjóri fer strax aftur í vélarrúm og er þá kominn svo mikill
sjór þar, að hann stóð í mitti við vélina, en aðalvél hélzt þó enn í gangi.
Hann tengdi þegar sjódælu við aðalvél og ætlaði síðan að setja aðra sjódælu í
gang, sem tengd var við ljósavél, en gat ekki sett ljósavélina í gang sökum
þess að hún var þegar hálf í sjó. Meðan þessu fór fram, kallaði skipstjórinn út
og bað um hjálp, náði fljótt í Vestmannaeyjaradió, svo og í nærstadda báta og
var Gylfi þeirra næstur og kom fljótt að. Samtímis þessu var gúmmbátur skipsins
hafður til taks. Skipverjar reyndu einnig að dæla með þilfarsdælu og ausa með
fötum, en þrátt fyrir þetta jókst sjórinn stöðugt í skipinu.
Á tíunda tímanum kom Gylfi á vettvang. Tók hann trollið um borð til sín, en það
hékk aftan í Sæbjörgu, tekur síðan bátinn í slef og ætlaði að sigla móti
hafnsögubátnum, sem var lagður af stað úr Eyjum til að flýta því að samband
næðist við Lóðsinn, sem hefir mjög sterkar dælur. Þegar Gylfi er búinn að draga
Sæbjörgu í nokkrar mínútur, virðist báturinn síga svo að aftan að þeir leggja
alla áherzlu á að ausa og hætta að draga bátinn, en sjá fljótt að þetta er
vonlaus barátta. Skipsmenn af Sæbjörgu fara þá í gúmmbátinn og eru þeir tæplega
komnir yfir að Gylfa þegar Sæbjörg er sokkin. Veður var allan tímann mjög gott
og nær alveg sjólaust. Klukkan var um 10,30 þegar báturinn sökk. Við réttarhöldin
kom fram að enginn skipverja gat gefið neina skýringu á því hvernig á þessum
leka stóð. Báturinn hafði ekki lent í vondu veðri, eða öðru áfalli og hafði
verið við land í viku tíma vegna ógæfta og veikinda áhafnar. Fréttamaður
blaðsins átti stutt samtal við Hilmar skipstjóra Rósmundsson í dag og sagði
hann svo frá:
Við fórum í róður á föstudaginn, höfðum legið inni í nokkra daga. Kastað var
einu sinni við Alviðru en við náðum halinu ekki kláru. Þegar búið var að koma
því í lag var komið vont veður og færðum við okkur þá vestur á Vík. Þar toguðum
við á laugardag, en hættum um nóttina og lágum, en byrjuðum að kasta um kl. 7
um morguninn. Afli var tregur. Ég var einn á vaktinni, en mennirnir höfðu lagt
sig. Þegar ég var búinn að toga í klukkustund sé ég að vélarúmið er orðið
hálffullt af sjó, er ég leit þangað niður. Kallaði ég þá mennina út og bað þá
vera við öllu búna því mikill leki væri kominn að bátnum. Þegar ég hafði sagt
mönnum að hafa til gúmmbátinn kallaði ég út í talstöðina og síðan reyndum við að
halda skipinu á floti þar til hafnsögubáturinn Lóðsinn kæmi á vettvang, en það
tókst ekki. Þegar Gylfi kom á vettvang var reynt að draga bátinn en þá færðist
sjórinn aftur í hann og varð að hætta því. Sökk báturinn um klukkustund eftir
að Gylfi kom á vettvang. Ég get ekki gert mér nokkra grein fyrir hvernig á
lekanum stendur. Þarna var sjólaust og bezta veður. Á bátnum voru þrír bræður
vélstjórinn Theodór Ólafsson og tveir bræður hans, sagði Hilmar.
Sæbjörg hét áður Sigrún og er 52 tonn að stærð byggð í Svíþjóð 1946.
Morgunblaðið. 15 október 1963.