01.11.2018 16:08
Þilskipið Olivette SH 3. LBHM / TFUJ.
"Framfaraspor"
Siglfirðinga
Til framfara má telja það, að keypt voru tvö allstór
fiskiskip, sem halda á út til þorskveiða í vor og sumar, og jafnvel til
reknetaveiða, sem menn hér hafa numið til fullnustu af frændum sínum,
Norðmönnum; þeim (Norðmönnum) til verðugs heiðurs má geta þess, að þeir skutu
saman allt að 300 kr. til styrktar fátækum, og var því fé varið til að kaupa
korn fyrir handa kúm og mönnum; yfirleitt féll öllum vel við Norðmenn, og höfðu
bændur o. fl. gott af þeim.
Vatneyrarverslun
Verslanir Miljónafjelagsins á Vesturlandi eru seldar.
Verslunina á Þingeyri hafa Proppé-bræðurnir keypt með skipum og vörubirgðum á
50 þús. kr. Einnig verslanirnar í Ólafsvík og á Sandi á 45 þús. kr. að sögn. En
Bíldudalsverslun hafa þeir keypt Þórður Bjarnason verslunarstjóri og Hannes
Stephensen bróðir hans á 75 þús. kr. Vatneyrarverslunina hefur Ólafur
Jóhannesson konsúll keypt.
Vísir. 20 ágúst 1914.
Skip til
sölu
Kútter "Olivette", byggð upp að nýju úr eik 1921, 37
tons, og kútter "Diddó", byggður upp að nýju 1919, stefni og bönd úr eik,
kjölur úr brenni, með furuklæðning. Bæði eru skipin með 12 hesta nýjum
Solovélum og í ágætu standi. Diddó er 27 tons. Skipin seljast með öllu
tilheyrandi í ríkisskoðunar ástandi.
Frekari upplýsingar gefur Ólafur Jóhannesson á Vatneyri.
Hænir. 45 tbl. 5 desember 1929.
Olivette SH 3 við bryggju á Siglufirði. Ljósmyndari óþekktur.
Þilskipið (kútter) Olivette BA 126. Ljósmyndari óþekktur.
Ólafur
Ólafsson skipstjóri
Árið 1913 keypti Ólafur Jóhannesson, kútterinn Olivette
norður á Siglufirði, en þangað sótti nafni hans, Ólafur Ólafsson (Ólafur í Krók
) skipstjóri, hið nýja skip, sem átti eftir að verða hans annað heimili um nær
tvo tugi ára, eða allt fram til ársins 1930, og var hann óslitið skipstjóri á
Olivette allan þann tíma, en skipið var ávallt gert út frá Patreksfirði á vegum
Ólafs Jóhannessonar. Var þá liðinn nær aldarþriðjungur síðan hann tók við
skipstjórn, og átti hann því láni að fagna, að hafa aldrei hlekkzt á á sinni
löngu sjómannsævi. Fullan fjórðung aldar var hann skipstjóri á útvegi síns
gamla vinar og sameignarmanns að Ísafoldinni, Ólafs Jóhannessonar. Var Ólafur í
senn einkar farsæll skipstjóri og aflasæll mjög, kappsfullur, og þó í hófi og
aðgætinn.
Varð honum vel til manna og hélt sömu mönnum oft lengi í skiprúmi,
enda þekktur orðinn að aflasæld og góðum útbúnaði skips síns, eftir því sem þá
tíðkaðist.
Skip hans, Olivette, var um 38 tonn að stærð, og eins og aðrar fiskiskútur þess
tíma búið seglum einum til gangs. Þægindum var litlum fvrir að fara. Ekkert
skýli ofandekks, ekkert stýrishús, enginn kortaklefi, aðeins kappinn einn og
svo, stýrisásinn að standa við, hvernig sem veður létu. Öryggistækin voru og
færri, aðeins kompásinn, loggið og lóðið, og vegvísarnir á ströndinni engir
fyrstu árin. Á seinni árum fékk Ólafur hjálparvél í skip sitt, og voru menn þá
mun betur settir en áður, meðan ládeyðan gat heft för þeirra svo mörgum
klukkustundum skipti.
Á slíkum skipum var jafnaðarlegast 14-17 manna áhöfn, en
fækkaði er kom fram um sólstöður. Þurftu þá ýmsir að fara heim og sinna búum
sínum, rúning sauðfjár, öðrum vorverkum og síðar slætti, því að margir háseta
voru bændur úr nærliggjandi sveitum. Var oft ærið kapp, eða fiskirígur, milli
skipstjóra hinna ýmsu kúttera, en vel mátti Ólafur jafnan una sínum hlut, enda
skipið hið bezta af skipum slíkrar tegundar, vel við haldið og hið fríðasta á
sjó að sjá og gott í sjó að leggja.
Sjómannablaðið Víkingur. 1 apríl 1952.
Úr grein Einars Sturlaugssonar.