13.11.2018 09:52

447. Garðar ÍS 124.

Þilskipið Garðar ÍS 124 var smíðaður í Farsund í Noregi árið 1894. Eik og fura. 13,67 brl. Eigandi var Ásgeir Ásgeirsson útgerðar og kaupmaður á Ísafirði og Kaupmannahöfn (Ásgeirsverslunin á Ísafirði. Garðar var einn af hinum svokölluðu "Árnapungum", en sú nafngift er dregin af Árna Jónssyni verslunarstjóra Ásgeirsverslunarinnar. Árið 1918 kemst Garðar í eigu Hinna sameinuðu íslensku verslana á Ísafirði. Báturinn var seldur 1927, Ásgeiri Guðnasyni útgerðar og kaupmanni og fl. á Flateyri. Árið 1928 var sett 6 ha. Dan vél í bátinn. Ný vél (1933) 32 ha. June Munktell vél. Báturinn var endurbyggður og lengdur á Ísafirði 1935, m.a. sett á hann hekk og stýrishús. Mældist báturinn þá 15 brl. Seldur 1 september 1947, Guðmundi V Jóhannessyni og fl. á Flateyri. Ný vél (1947) 50 ha. June Munktell vél. Seldur 9 apríl 1957, Einari Gíslasyni í Keflavík og Þorsteini Gíslasyni, Kotvogi í Höfnum, hét Garðar KE 59. Ný vél (1961) 100 ha. Penta díesel vél. Seldur 6 júlí 1961, Ebenezer Þ Ásgeirssyni og fl. í Reykjavík, hét þá Garðar RE 124. Seldur 5 september 1963, Birni Kristjónssyni og Einari Kristjónssyni í Ólafsvík, hét Garðar SH 164. Seldur 20 september 1970, Kára Einarssyni á Bíldudal, hét Garðar BA 74. Báturinn var endurbyggður sama ár (1970). Talinn ónýtur og tekinn af skrá 2 desember árið 1974.

Mótorbáturinn Garðar ÍS 124.                                                                        (C) Kristján Einarsson.

       Ásgeirsverslunin á Ísafirði

Vorið 1852 fékk Ásgeir Ásgeirsson skipherra frá Rauðamýri í Inn-Djúpi útmælda lóð til verslunar í Miðkaupstaðnum á Ísafirði. Þar reisti hann sér íbúðarhús, sölubúð og vörugeymslur og hafði að auki fiskreita um eyrina þvera. Ásgeiri farnaðist höndlunin vel og verslunin óx jafnt og þétt. Hann átti fjögur þilskip sem hann hélt til veiða og aflann flutti hann sjálfur á markaði erlendis og seldi. Þegar á leið varð útflutningurinn svo mikill að Ásgeir ákvað að ráðast í smíði á skonnortu til flutninga milli landa. Hún hlaut nafnið S. Louise og var afhent árið 1872. Skonnorta þessi sigldi síðan með saltfisk til Miðjarðarhafslanda á hverju hausti, allt þar til hún týndist í hafi árið 1900. Ásgeir skipherra var ákafur stuðningsmaður Jóns Sigurðssonar og þjóðfrelsisbaráttunnar. Veitti hann Jóni ríflegan fjárstuðning og mun tíðum hafa sent honum matföng.
Ekki voru þeir þó alltaf sammála og gátu orðið snarpar sennur þegar þeir ræddu landshagi og sambandið við Dani. Ásgeir hikaði ekki við að segja Jóni til synda ef hann taldi ástæðu til en aldrei veiktist vinátta þeirra af þeim völdum. Ásgeir brást jafnan drengilega við þegar stjórnmálastarfi Jóns varð fjár vant þó að sjálfur kysi hann að halda sig til hlés. Þegar Ásgeir lést haustið 1877 var hann sagður langauðugastur íslenskra kaupmanna. Engu að síður varð Ásgeirsverslun ekki ýkja stór um hans daga, að minnsta kosti ekki í samanburði við það sem hún varð undir stjórn sonar hans, Ásgeirs Guðmundar Ásgeirssonar. 


Hæstikaupstaður um árið 1920.                                                             (C) Byggðasafn Vestfjarða.

Ásgeir yngri hafði verið hægri hönd föður síns við reksturinn um nokkurt skeið og tók við stjórninni 21 árs að aldri. Um líkt leyti kom til starfa við verslunina annar maður sem átti ekki síður eftir að hafa áhrif á vöxt hennar og viðgang. Það var Árni Jónsson faktor (verslunarstjóri), mágur Ásgeirs yngra, kvæntur Lovísu systur hans. Ásgeir G. Ásgeirsson var aðalforstjóri verslunarinnar og hafði aðsetur í Kaupmannahöfn en dvaldist á Ísafirði á sumrum. Árni stýrði hins vegar versluninni á Ísafirði, stjórnaði útgerð og fiskverkun og hafði yfirumsjón með útibúum eftir að þau voru sett á stofn. Fyrstu árin undir stjórn Ásgeirs yngra var verslunin rekin með sama sniði og áður eða fram til 1883. Þá andaðist Bendix Wilhelm Sass, kaupmaður í Neðstakaupstað, og Ásgeirsverslun keypti aðstöðuna þar. Við þessi kaup gerbreyttist staða fyrirtækisins til hins betra, ekki síst vegna reitaplássins sem fylgdi í kaupunum. Mjög var þá farið að sneyðast um pláss til saltfiskþurrkunar í Miðkaupstað.
Nú var hægt að auka útgerð og fiskverkun til muna. Neðstikaupstaður var gerður að miðstöð fiskverkunar og útgerðar Ásgeirsverslunar auk þess að vera afgreiðslustaður fyrir þungavöru á borð við kol, salt og timbur.


Fiskþurrkun í Neðstakaupstað árið 1910. Til hægri á myndinni eru Ásgeir G Ásgeirsson og J.M. Riis að fylgjast með vinnu fólksins.    (C) Byggðasafn Vestfjarða.

Hin eiginlega sölubúð var í Miðkaupstað og þar hjá var vínbúð verslunarinnar, kölluð Brennivínshornið. Hún var ein af örfáum sérverslunum landsins á þessum tíma. Þess má geta, að núna er vínbúð ÁTVR nánast á sama stað. Tímabilið frá 1885 og fram yfir aldamót var mesta blómaskeiðið í sögu Ásgeirsverslunar. Þá óx útgerð fyrirtækisins hraðast, útibú voru sett á stofn og fiskverkun og fiskútflutningur færðust mjög í aukana. Þilskipaflotinn hafði verið þrjú til fimm skip en upp úr 1885 lét Ásgeir smíða mörg 10-20 lesta skip sem hentuðu vel til handfæraveiða.
Þau voru frábrugðin venjulegum þilskipum að byggingarlagi og voru í daglegu tali kölluð Árnapungar í höfuðið á Árna faktor. Floti Ásgeirsverslunar var orðinn 16 þilskip árið 1893 en árið 1915 voru 12 þilskip eftir auk þess sem verslunin hafði eignast 5 vélbáta. Árið 1902 voru um 500 manns í vinnu hjá fyrirtækinu. Eftir að útibúum Ásgeirsverslunar fjölgaði jókst þörfin fyrir örugga flutninga um Ísafjarðardjúp. Árabátar og seglskip sem notuð höfðu verið til að flytja fisk útvegsbænda til verslunarinnar önnuðu því vart lengur.


Eyrin á Ísafirði um aldamótin 1900.                                              (C) Byggðasafn Vestfjarða.

Árið 1889 keypti Ásgeir þess vegna 36 lesta gufuskip, sem nefnt var Ásgeir litli í höfuðið á systursyni Ásgeirs. Þetta var fyrsta gufuskipið sem Íslendingar eignuðust. Ásgeiri litla var ætlað að sigla með varning um Djúp á vegum verslunarinnar. Með samningi við sýslunefnd var ákveðið að nota hann jafnframt til áætlunarferða um Djúpið auk ferða til Önundarfjarðar og Súgandafjarðar og norður í Grunnavík. Ásgeir litli var í þessum áætlunarferðum á hverju sumri til 1904 þegar annar bátur leysti hann af hólmi. Árið 1893 réðst Ásgeir í kaup á 849 lesta gufuskipi fyrir eiginn reikning. Skipið kom til Ísafjarðar næsta ár og var nefnt Á. Ásgeirsson eftir föður Ásgeirs yngra en var jafnan kallað Ásgeir stóri. Þetta var fyrsta gufuknúna millilandaskipið í eigu Íslendinga og flutti vörur til og frá versluninni og sigldi með saltfisk til Miðjarðarhafslanda á haustin. Sífellt vaxandi umsvif Ásgeirsverslunar urðu til þess að stofnuð voru útibú á Flateyri, Hesteyri og Arngerðareyri, í Höfn í Hornvík, í Bolungarvík og á Suðureyri. Að auki hafði verslunin fiskmóttöku víða um Djúp og Hornstrandir. Líkur hafa verið leiddar að því, að Ásgeirsverslun hafi á mektarárum sínum átt 10-15% alls saltfisks sem fluttur var frá Íslandi, miðað við verðmæti, og stundum mun meira. Saltfiskur var langmikilvægasta útflutningsafurð Íslendinga á þessum tíma og vafasamt að nokkurt annað fyrirtæki hafi í annan tíma átt eins mikla hlutdeild í heildarútflutningi þjóðarinnar.


Saltfiskur á reitunum í Miðkaupstað. Íbúðarhús Ásgeirs Ásgeirssonar skipherra til hægri og sölubúð Ásgeirsverslunar vinstra megin.   (C) Byggðasafn Vestfjarða.
  
Ásgeir kom einnig á fót hvalveiðistöð á Uppsalaeyri í Seyðisfirði í Djúpi í félagi við Norðmanninn Stixrud og gerðu þeir út tvo hvalveiðibáta. Þeir voru einnig sagðir eiga marmaranámu í Noregi en það er óstaðfest. Ásgeir G. Ásgeirsson varð bráðkvaddur í Danmörku árið 1912 og gekk dánarbúið þá óskipt til móður hans, frú Sigríðar Ásgeirsson. Verslunin var rekin áfram til ársins 1918 undir stjórn J. M. Riis, mágs Ásgeirs. Sigríður Ásgeirsson lést 1915 og ákváðu erfingjar hennar að selja fyrirtækið. Nokkur útibúanna voru seld kaupmönnum á svæðinu en Hinar sameinuðu íslensku verslanir keyptu meginhlutann. 30. nóvember 1918 var síðasti dagurinn í 66 ára sögu Ásgeirsverslunar. Fyrirtækið sem í upphafi tengdist Jóni Sigurðssyni og þjóðfrelsisbaráttunni sterkum böndum hætti þannig starfsemi daginn áður en Íslendingar fengu fullveldi.

Byggðasafn Vestfjarða.





Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30