15.11.2018 17:27
361. Bryndís ÍS 69.
Nýir bátar á
sjó
Síðari hluta vetrar árið 1938 var stofnað hér á Ísafirði
hlutafélagið Njörður. Hlutverk þess skyldi vera að láta smíða vélbáta til
fiskveiða og gera þá út héðan frá Ísafirði. Hluthafar í félaginu er margt
þeirra manna hér í bænum, sem hafa föst laun hjá bænum eða fyrirtækjum hans,
eða hjá Kaupfélagi Ísfirðinga. Þá eru hluthafar skipstjórar og vélstjórar á
bátum félagsins og loksins nokkrir menn aðrir en þeir, sem þegar hefir verið um
getið. Loks er Kaupfélagið hluthafi og ennfremur hafnarsjóður og bæjarsjóður.
Stjórn félagsins skipa Guðmundur Gíslason Hagalín, Ketill Gruðmundsson, Grímur
Kristgeirsson, Ólafur Magnússon og Eiríkur Einarsson. Ketill Guðmundsson er
framkvæmdastjóri félagsins. Félagið samdi vorið 1938 við Bárð Tómasson
skipaverkfræðing um smíði á fimm vélbátum. Skyldu þeir allir vera um 15
smálestir og allir eins að lagi og búnaði öllum. Í desember 1938 voru tveir af
bátunum fullbúnir og byrjuðu róðra, en nú s.l. laugardagskvöld fóru hinir þrír
á sjó í fyrsta skipti. Í öllum bátunum eru 40-45 hestafla June Munktel vélar.
Bátar þeir, sem fullbúnir voru 1938, heita Ásdís og Sædís. Hinir, Bryndís,
Hjördis og Valdís. Bátarnir eru allir eins, og þykja hin beztu og fríðustu
skip. Skipstjórar á þeim eru:
Sigmundur Jóhannesson á Ásdisi,
Guðmundur Guðmundsson á Bryndísi,
Sigurvin Júlíusson á Hjördísi,
Pálmi Sveinsson á Sædísi og
Björgvin Pálsson á Valdísi.
Allt eru þetta ungir menn, sumir aðeins liðlega tvítugir. Engir höfðu þeir áður
haft á hendi skipstjórn, en voru þaulvanir sjómenn og kunnir að dugnaði. Þeir
tveir, sem nú þegar hafa stjórnað skipi í rúmlega eitt ár, hafa reynzt hinir
farsælustu til forystu. Á bátunum eru samtals 45 menn, hið vaskasta lið. Þá er
byrjað verður að salta afla bátanna, mun margt manna fá atvinnu við aðgerð, og
auk þess verður svo allmikil vinna við verkun fiskjarins. Er þess að vænta, og
Nirði og bátum hans vegni sem bezt.
Skutull. 1 tbl. 13 janúar 1940.Hér eru 3 af 5 "dísunum" svonefndu í smíðum
í Skipabraut Ísafjarðar, skipasmíðastöð Bárðar G. Tómassonar skipaverkfræðings
á Torfunesi. Þetta voru nýsmíði stöðvarinnar nr. 12, 13 og 14. Frá vinstri eru
skipin Hjördís, Bryndís og Valdís. Þeim var hleypt af stokkunum 27., 28. og 29.
desember 1939. Árinu áður var Sædísi hleypt af stokkunum 9. nóvember, og Ásdísi
10. nóvember 1938. Á plankana, sem tengja saman skut skipanna, var letrað:
"Íslensk skip fyrir íslenska sjómenn", og á plankann milli stefnanna:
"Hollt es heima hvat". (C) H.R.B.
Skipasmíðastöð Bárðar G Tómassonar á Torfunesi. (C) H.R.B.
"Dísirnar"
"Dísirnar" voru smíðaðar á Torfunesi á
árunum 1938 og 1939 teiknaði og smíðaði Bárður G. Tómasson skipaverkfræðingur 5
fiskiskip um 15 brl. að stærð í skipasmíðastöð sinni á Torfunesi á Ísafirði
fyrir útgerðarfélagið Njörð hf. á Ísafirði. Eitt þessara skipa var Hjördís.
Fyrsti skipstjóri á Hjördísi, og á meðan hún var í eigu Njarðar hf., var
Sigurvin Júlíusson, bróðir Ólafs Júlíussonar, sem var skipstjóri á ms. Sæbirni.
Hjördís hefur oft skipt um eigendur, en haldið nafni sínu alla tíð og verið
mikið happaskip í þau rúm 50 ár sem hún hefur verið í notkun, en eins og
kunnugt er sökk Hjördís KE 133 við Stafnes 23. mars síðastliðinn.
Þessi skip og önnur sem Bárður G. Tómasson smíðaði í stöð sinni á Ísafirði
teiknaði hann á grundvelli þeirra staðla, sem hann samdi um smíði plankabyggðra
tréskipa. Þessa staðla keypti atvinnumálaráðuneytið síðan af Bárði, og fól
honum að semja íslenskar reglur um smíði tréskipa á grundvelli þeirrar reynslu,
sem þegar hafði fengist af gerð og styrkleika þessara skipa við íslenskar
aðstæður. Að grunni til eru þessar reglur ennþá í gildi. Vegna þessa verkefnis
og annarra fyrir ráðuneytið, flutti Bárður G. Tómasson til Reykjavíkur á
stríðsárunum, og seldi þá skipasmíðastöð sína Marsellíusi Bernharðssyni, en
Eggert B. Lárusson, sem var yfirverkstjóri í skipasmíðastöð Bárðar á Torfunesi,
hélt því starfi áfram eftir að Marsellíus hafði tekið við stöð Bárðar.
Árið 1943 lét Njörður hf. svo smíða sjöttu dísina, Jódísi ÍS 73, í
skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar, að mestu eftir sömu teikningum og
fyrstu 5 "dísirnar", sem smíðaðar voru í stöð Bárðar, árin 1938 og
1939.
Morgunblaðið. 31 mars 1990.
Hjálmar R. Bárðarson.