01.12.2018 17:02
Aldan VE 250. LBMW.
Mótorbáturinn Aldan VE með hákarl á síðunni. (C) Ljósmyndasafnið á Ísafirði.
Mótorskipið
Aldan strandar við Arnarstapa
Undanfarið hefir mótorskipið Aldan úr Vestmannaeyjum, verið
að herpinótaveiðum hjer fyrir vestan land Aðfaranótt miðvikudags var skipið
statt norðvestur af Snæfellsnesi. Skall þá á norðan veður, svo skipið varð að
halda undan veðrinu. Er það var statt undan Svörtuloftum, urðu skipverjar þess
varir, að leki var kominn að skipinu. Jókst hann brátt svo mikið, að skipstjóri
sá, að helsta ráðið væri að sigla skipinu á land. Ætlaði hann að sigla skipinu
upp í sandfjöru í vík einni hjá Hellnum við Arnarstapa. Er komið var nálægt
landi þar, ætluðu skipverjar að draga það að landi á skipsbátunum. En þetta
mistókst, og rak skipið upp í kletta. Veður var þá dágott. Skipið er vátryggt
hjá Sjóvátryggingarfjelagi Íslands. Sagði skipstjóri fjelaginu frá þessu í síma
í gær, en Morgunblaðið hefir fengið frásögn þessa hjá forstjóra fjelagsins.
Ætlaði skipstjóri að losa afla allan úr skipinu og reyna síðan að losa það úr
stórgrýtinu og koma því upp í sandfjöruna. Skipstjóri er Þorvaldur Guðnason,
alkunnur sjógarpur, en eigandi skipsins er Gísli Magnússon útgerðarmaður í
Vestmannaeyjum. Skipið er 30-40 tonn netto, og er af þýskum uppruna. Það er
byggt 1921 úr eik.
Segir forstjóri Sjóvátryggingafjelagsins, að víst væri um það, að ef hjer hefði
verið björgunarskip, hefði Aldan komist hingað heilu og höldnu í dag.
Morgunblaðið. 25 nóvember 1927.