03.12.2018 08:50

Jón Garðar GK 510. TFEZ.

Vélskipið Jón Garðar GK 510 var smíðaður í Zaandam í Hollandi árið 1960 fyrir Guðmund Jónsson útgerðarmann á Rafnkelsstöðum í Garði. Stál. 128 brl. 500 ha. Kromhout díesel vél. Skipið sökk um 16 sjómílur suðaustur af Hjörleifshöfða 22 janúar árið 1964. Skipið var þá á leið til Vestmannaeyja með fullfermi af síld. Áhöfnin, 10 menn, komst í gúmmíbjörgunarbát. Það var svo vélskipið Hamravík KE 75 frá Keflavík sem bjargaði þeim síðan til lands heilum á húfi.


Jón Garðar GK 510 með fullfermi síldar á Siglufirði.                            Ljósmyndari óþekktur.

                  Jón Garðar GK 510                    Nýr og glæsilegur stálbátur til Sandgerðis

Sandgerðingum hefur bætzt nýr bátur. Jón Garðar heitir hann, 120 lesta og úr stáli. Eigandi er Guðmundur Jónsson, útgerðarmaður á Rafnkelsstöðum. Báturinn ber nafn sonar Guðmundar, hins kunna og fengsæla skipstjóra, er fórst í janúar sl. með áhöfn sinni á vb. Rafnkeli. Jón Garðar er smíðaður í Zanndan í Hollandi og kom til Sandgerðis aðfaranótt sunnudags. Eggert Gíslason var skipstjóri á leiðinni heim. í bátnum er 500 hesta Kromhout vél. Hann er búinn öllum fullkomnustu öryggis og siglingatækjum, m.a. Decea radar og tveimur Simrad-dýptarmælum. Japönsk miðunarstöð af fullkomnustu gerð verður og sett í bátinn á næstunni. Heimferðin tók 5 sólarhringa og var ganghraði 10-11 mílur. Létu skipsmenn mjög vel af bátnum og töldu hann einn hinn glæsilegasta, sem landsmenn hefðu eignazt á undanförnum árum. Báturinn fer til hringnótaveiða innan skamms og veiður Sigurður Bjarnason, Sandgerði, skipstjóri.

Morgunblaðið. 6 desember 1960.


Áhöfnin á Jóni Garðari um borð í Hamravík KE 75 í Vestmannaeyjahöfn.     (C) Morgunblaðið.


Vélskipið Hamravík KE 75 í Vestmannaeyjahöfn.      (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.

          Þriðja síldveiðiskipið sekkur
                       Mannbjörg
 

   Jón Garðar lagðist á hliðina á siglingu                   og sökk á 7-10 mínútum

Vélskipið Jón Garðar úr Garði sökk um kl. 5 í gærmorgun er það var á siglingu 16 mílur SA af Hjörleifshöfða með síldarfarm áleiðis til Vestmannaeyja. Mannbjörg varð, en skipið sökk á 7-10 mínútum. Skipið var með fullar lestar síldar og um 100 tunnur á dekki. Vélskipið Hamravík var nærstatt og bjargaði áhöfninni af Jóni Garðari, 10 manns, og kom með hana til Vestmannaeyja í gær um kl. 12 á hádegi. Áhöfnin kom svo hingað til Reykjavíkur um kl. 3 síðdegis og hélt suður í Garð. Suðvestan bræla var, 5-6 vindstig, og fékk skipið á sig vindkviku, er lagði það á hliðina, svo það náði ekki að rétta sig við. Fréttaritari blaðsins í Vestmannaeyjum, Björn Guðmundsson, náði tali af skipsmönnum þar, ennfremur átti blaðamaður Mbl. stutt viðtal við skipstjórann á Jóni Garðari, Sigurð Brynjólfsson, er hann kom með áhöfn sinni hingað til Reykjavíkur. Nánari atvik slyssins eru sem hér segir:
Vélskipið Jón Garðar var að veiðum austur í Meðallandsbugt og hafði fengið gott kast, um 1.700 tunnur, að sögn skipstjóra. Úr því var háfað í fulla lest, sem tekur 900-950 tunnur og síðan var háfað um 100 tunnum á dekk. Afgangnum úr kastinu var hent. Lokið var að háfa og ganga frá um kl. 1.20 eftir miðnætti. Hélt þá skipið af stað áleiðis til Vestmannaeyja. Upp úr miðnættinu tók að vinda af suðvestri. Nokkur undiralda var. Allt gekk vel þar til klukkan laust fyrir 5 um nóttina að vindkvika lagði skipið á hliðina. Vindur stóð á bakborðsbóg skipsins. Jón Garðar var þá staddur um 16 mílur SA af Hjör leifshöfða. Þá var skipstjórinn, vélstjóri og einn háseti á vakt. Aðrir voru í hvílum. Sýnilegt var að skipinu myndi ekki takast að rétta sig við og sendi skipstjóri því út neyðarkall. Vélskipið Hamravík frá Keflavík var statt um tvær mílur frá, lítið eitt á undan, og höfðu skipstjórarnir haft samband sín á milli fyrr um nóttina.
Hamravík hafði orðið fyrir því óláni að hengilrífa nót sína, en hafði litla sem enga síld innanborðs. Áhöfnin á Jóni Garðari náði lausum báðum gúmmíbjörgunarbátum skipsins og blésust þeir upp þegar í stað. Komust skipsmenn allir í annan björgunarbátinn, flestir þó létt klæddir, matsveinninn á nærklæðum einum saman. Skipsmönnum ber saman um að ekki hafi liðið nema 7-10 mínútur frá því skipið lagðist á hliðina og þar til það var sokkið. Er skipið hallaðist kveiktu Þeir öll ljós og sáu þeir á Hamravíkinni því greinilega hvar Jón Garðar fór niður. Komu þeir á vettvang eftir að skipbrotsmenn höfðu verið nálega 10 mínútur í gúmmíbátnum. Náðu þeir á Hamravík skipbrotsmönnum skjótlega um borð og ennfremur náðu þeir báðum gúmmbátunum. Magnús Bergmann skipstjóri á Hamravík segist hafa heyrt neyðarkallið þegar í stað og greiðlega hefði gengið að finna skipbrotsmennina og ná þeim um borð. Sigurður Bryjólfsson skipstjóri á Jóni Garðari bað blaðið færa áhöfn Hamravíkur alúðarþakkir fyrir björgunina og góðan viðurgerning.
Sigurður Brynjólfsson hefir verið skipstjóri á Jóni Garðari frá því í haust, en áður hafði hann verið með mörg skip, næst áður Freyfaxa . Jón Garðar er stálbátur byggður í Hollandi 1960, 128 tonn að stærð . Talið var skipið hið liðlegasta veiðiskip og kvaðst Guðmundur Jónsson útgerðarmaður á Rafnkelsstöðum hafa keypt samskonar skip, jafn gamalt og eins að öllu leyti, vegna þess hve reynslan hefði verið góð á Jóni Garðari. Það skip ber nú nafnið Kristján Garðar, áður Gjafar frá Vestmannaeyjum. Jón Garðar hafði gefið góða raun á sumarsíldveiðum, aflaði s.l. sumar 22 þúsund tunnur og varð 5. skipið í flotanum. Sumarið áður fékk það 27 þúsund tunnur. Það hefir stundað vetrar síldveiðar allt frá því er það kom til landsins. Sigurður lét vel af Jóni Garðari sem sjóskipi. Aðspurður sagði hann skipið ekki hafa verið valt. Það hafði um 15 tonna blágrýtisballest í lest. Skipið hefði nú oltið undan krappri báru . Sjór hefði ekki verið verri en oft gerðist á þessum tíma á þessari sjóleið. Að vísu væri Þessi staður slæmur. Vindur hefði ekki verið nema 5-6 vindstig. Ekki gátu þeir skipsmenn gert sér neina grein fyrir hvað raunverulega orsakaði slysið, urðu ekki varir við að neitt bilaði, eða neinu hefði verið ábótavant. Skipið tók ekki sjó inn á dekk er aldan skall á því. Sjópróf munu hefjast út af máli þessu hjá sýslumanni Gullbringusýslu í dag. Í gær átti blaðið tal við skipstjórann á Rifsnesinu, Angantý Guðmundsson . Skip hans hafði orðið fyrir áfalli, fengið á sig sjóhnút og lagzt á hliðina og við það hafði nótina tekið út af bátapalli. Þetta skeði um kl. 6 í gærmorgun , eða um klukkustund eftir að Jón Garðar sökk. Rifsnesið var aðeins með litla síld innanborðs eða um 70 tunnur. Það var væntanlegt til Reykjavíkur í gærkvöldi. Mörg skip fengu stór köst í fyrrinótt, en sum urðu fyrir áföllum og rifu nætur sínar. Jón Garðar er þriðja síldveiðiskipið sem ferst á nokkrum dögum.

Morgunblaðið. 23 janúar 1964.


Flettingar í dag: 2186
Gestir í dag: 37
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1195961
Samtals gestir: 83797
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 17:56:03