06.12.2018 11:07
B. v. Keflvíkingur GK 197 á málverki.
B.v. Keflvíkingur GK 197. (C) George Wisemann ? Mynd úr safni mínu.
B.v. Keflvíkingur KE 19 í Reykjavíkurhöfn. Ljósmyndari óþekktur.
Togaraútgerð
í Keflavík
Það er að sjálfsögðu hvorki löng saga né viðburðarík, sem
enn verður sögð af togaraútgerð í Keflavík, því að svo má telja, að útgerð
togara hefjist fyrst í Keflavík með komu b/v Keflvíkings á árinu 1948. Að vísu
var togarinn Hafsteinn skráður frá Keflavík árið 1944, og eigandi hans var
Keflvíkingur, en togarinn kom örsjaldan til Keflavíkur og hafði þar enga bækistöð.
Í Reykjavík hafði hann skrifstofu og alla afgreiðslu. B/v Hafsteinn var seldur
árið 1945 og þá skráður frá Reykjavík. B/v Keflvíkingur er einn af hinum
svonefndu "nýsköpunartogurum". Hann var smíðaður í skipasmíðastöð
Alexander Hall í Aberdeen í Skotlandi. Hann er 175 fet að lengd, 30 fet að
breidd og dýptin 15 fet, og er talinn um 657 rúmlestir brúttó. Ganghraði
skipsins var í reynsluför 14.06 sjómílur á klst. Þó segja megi, að Keflvíkingur
sé hið vandaðasta skip, komu fram ýmsir gallar, sem höfðu í för með sér
óþægindi og fjárhagslegt tjón. Leki kom fram á þilfari, einkum á hvalbak. Gekk
illa að komast fyrir hann og varð viðgerðin mjög kostnaðarsöm.
Þá reyndist
togvindan of veik, og bilaði hún illa í 4. veiðiför. Tafði þetta skipið um eina
veiðiför og orsakaði þannig óbeint tjón, auk þess, sem viðgerðin kostaði tugir
þúsunda króna. Keflvíkingur er búinn hinum fullkomnustu öryggistækjum, svo sem
sjálfritandi dýptarmælum og Radar. Hann hefur reynzt mjög gott sjóskip.
Keflvíkingur lagðist í fyrsta sinni að bryggju í Keflavík 31. marz 1948. Hann
fór í fyrstu veiðiförina 9. apríl og fiskaði í ís. Hann sigldi til Grímsby með
aflann og landaði þar 4450 kit, sem seldust fyrir £ 14.595. Alls fór
Keflvíkingur 10 veiðiferðir árið 1948 og aflaði fyrir kr. 3 343 706.84. Árir
1949 fór hann 13 veiðiferðir og aflaði fyrir um kr. 3.4 millj. Útgerð
Keflvíkings hefur gengið ágætlega hvað aflabrögð snertir, og sala aflans hefur
einnig verið í góðu meðallagi þessi 2 ár, miðað við aðra togara flotans. Fyrstu
tvö árin fiskaði Keflvíkingur í ís og sigldi með afla sinn til Bretlands og
Þýzkalands, en það sem af er þessu ári, hefur hann farið eina söluferð til
Englands, en síðan hefur hann fiskað í salt, og var aflinn 9. maí s. l. um 450
tonn af fullstöðnum saltfiski, og um 200 tonn af fiski upp úr sjó.
Er ætlunin
að verka og þurrka saltfiskinn í þurrkhúsunum í Keflavík og Garði. Þeir, sem
ókunnugir koma til Keflavikur og sjá hafnarmannvirkin við Vatnsnes, mundu lítið
öryggi telja í því að eiga að afgreiða togara við þau skilyrði, sem þar eru, en
þetta hefur verið framkvæmt og tekizt eftir öllum vonum vel. Aðeins einu sinni
hefur Keflvíkingur ekki getað komið hér að til afgreiðslu vegna veðurs, síðan
útgerð hans hófst. Má segja, að hér hafi heppni ráðið, því að oft koma þau veður
hér á vetrarvertíð, að eigi er fært hér að með togara eða stærri skip. Er þá
framtíð fyrir togaraútgerð í Keflavík? Hvers vegna ekki? Að vísu þarf höfnin að
batna, hafnargarðurinn þarf að lengjast um nokkra tugi metra, til þess að
afgreiðsla togara og stærri skipa geti örugglega farið þar fram, og til þess
þarf mjög lítið fé, miðað við þau útflutningsverðmæti, sem þar eru lögð upp og
afgreidd úr landi. Er vonandi, að þeir, sem þessum málum ráða, komi auga á
þessar staðreyndir og hraði framkvæmdum.
B/v Keflvíkingur er eign
Keflavíkurbæjar, sem gerir hann út. Útgerð hans er sérstakt fyrirtæki og heitir
"Togaraútgerð Keflavíkur". Stjórn þess annast þriggja manna nefnd ásamt
skipstjóra. Bókhald útgerðarinnar er í skrifstofu bæjarins, og verkstjóri bæjarins
sér um alla afgreiðslu skipsins og það sem því við kemur í landi. Sérstök
netjastofa á vegum bæjarins sér um alla netjagerð fyrir togarann, og hefur svo
verið frá byrjun. Með því að nú er séð, að í náinni framtíð verða
saltfiskveiðar stundaðar nokkurn eða ef til vill mestan hluta ársins, er
nauðsynlegt að komið verði upp þurrkhúsi til þess að þurrka saltfiskinn. Eru
þær framkvæmdir nú í undirbúningi.
Þegar Keflvíkingur var keyptur, voru við hann tengdar miklar vonir,
menningarlegar og fjárhagslegar. Þó að þessar vonir hafi enn þá eigi að fullu
ræzt, þá eru Keflvíkingar bjartsýnir á framtíðina og hafa sótt um einn af þeim
tíu togurum, sem ríkisstjórnin hefur fest kaup á í Bretlandi.
Ægir. 6 tbl. 1 júní 1950.
Ragnar Guðleifsson.