Vélbáturinn Benedikt Sæmundsson GK 28 var smíðaður í Skipasmíðastöðinni Bátalóni í Hafnarfirði árið 1965 fyrir Baldvin Njálsson og Svein R Björnsson í Garði. Eik. 36 brl. 200 ha. Scania díesel vél. Seldur 20 júlí 1969, Ingvari Hólmgeirssyni, Dagbjarti Sigtryggssyni og Herði Þórhallssyni á Húsavík, hét þá Svanur ÞH 100. Ný vél (1974) 250 ha. Cummins díesel vél. Seldur 25 maí 1977, Guðmundi A Hólmgeirssyni á Húsavík, hét Aron ÞH 105. Seldur 26 nóvember 1980, Þorsteini Svavarssyni í Hafnarfirði og Valdimar Halldórssyni í Garði, hét Fiskines GK 264. Seldur 6 október 1981, Þorsteini Svavarssyni og Útvík hf í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Seldur 23 júlí 1984, Hvítafelli hf á Bakkafirði, hét þá Byr NS 192. Seldur 25 júní 1985, Byr hf á Ólafsfirði, hét Byr ÓF 58. Ný vél (1985) 253 ha. Caterpillar díesel vél, 175 Kw. Seldur 7 júní 1987, Finnboga V Jakobssyni í Bolungarvík, hét Jakob Valgeir ÍS 84. Seldur 9 júní 1994, Reyni Gunnarssyni á Þingeyri, hét þá Máni ÍS 54. Frá 15 október 1996 er báturinn skráður í Hafnarfirði sem Máni HF 54 vegna flutnings eiganda þangað. 27 maí 1997 er báturinn kominn með ÍS 54 skráninguna aftur. Seldur 1998, Útgerðarfélaginu Óson ehf á Höfn í Hornafirði, hét þá Jón forseti ÍS 108. Árið 2000 er báturinn kominn í eigu Samábyrgðarinnar hf í Reykjavík, heitir þá Jón forseti ÓF 4 og skráður með heimahöfn á Ólafsfirði. Seldur 2004, Kuldakletti ehf á Ísafirði, hét Jón forseti ÍS 85. Árið 2006 er skráður eigandi Byggðastofnun á Sauðárkróki. Árið 2007 er báturinn í eigu Ólafs Theódórs Ólafssonar í Reykjavík. Frá árinu 2009 heitir báturinn Jón forseti RE 300 og er skráður sem skemmtiskip. Báturinn var tekinn úr rekstri og afskráður 11 september árið 2012. "forsetinn" er búinn að liggja lengi við Verbúðarbryggjuna í vesturhöfn Reykjavíkurhafnar og liggur þar enn eftir því sem ég best veit.

Vélbáturinn Benedikt Sæmundsson GK 28 í prufusiglingu. Ljósmyndari óþekktur.

Bátnum hleypt af stokkunum hjá Bátalóni í Hafnarfirði. (C) Alþýðublaðið.

Jón forseti RE 300 við Verbúðarbryggjuna. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 september 2015.

"forsetinn við Verbúðarbryggjuna. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 september 2015.
Nýjum báti
var hleypt af stokkunum í gær
Í gær var hleypt af stokkunum nýjum báti hjá
skipasmíðastöðinni Bátalón í Hafnarfirði. Báturinn, sem hlaut nafnið Benedikt
Sæmundsson, er 35 lestir að stærð og er stærsti báturinn, sem Bátalón hefur
smíðað. Þorbergur Ólafsson framkvæmdastjóri Bátalóns skýrði blaðinu svo frá í
gær, að tvö ár væru liðin síðan smíði bátsins hófst, en verkið hefur að nokkru
leyti verið ígripavinna þegar önnur verkefni hafa ekki legið fyrir, og auk þess
hefur rekstrarfjárskortur tafið smíðina nokkuð. Þetta er stærsti báturinn sem
Bátalón hefur smíðað, en hann er sem fyrr segir rúmlega 35 lestir að stærð.
Smíðanúmer bátsins er 345, og er þá talið frá einum.
Benedikt Sæmundsson GK 28 er eign hlutafélagsins BEN h.f. í Garðinum, og
skipstjóri á honum verður Sveinn R. Björnsson. Í bátnum er 205 hestafla Scania
Vabis vél, radar af gerðinni Kelvin Hughes, Simrad dýptarmælir og miðunarstöð
af gerðinni Autozonia. Njáll Benediktsson, einn af eigendum bátsins gaf honum
nafn, en allmargt manna var viðstatt er báturinn hljóp af stokkunum. Báturinn
er smíðaður samkvæmt teikningu Egils Þorfinnssonar skipasmíðameistara.
Alþýðublaðið. 27 október 1965.