25.12.2018 13:26
844. Sævaldur ÓF 2. TFOJ.
Vélbáturinn Sævaldur ÓF 2. Líkan. Ljósmyndari óþekktur.
"Mikið tap
að missa bátinn"
"Ég veit ekki út frá hverju kviknaði í, en eldurinn kom upp
aftur í vélarrúmi", sagði Eyþór Björgvinsson, skipstjóri á Ögurnesi HU 4,
sem brann og sökk aðfararnótt sunnudagsins, en þrennt var á bátnum - auk
Eyþórs, Brynhildur Björnsson vélstjóri, sem er kona hans, og Jónas Jónsson,
stýrimaður. Þau komust í gúmbát og vélbáturinn Hamar frá Rifi bjargaði þeim, er
þau höfðu verið tvær klukkustundir í bátnum. Eyþór sagði í viðtali við Mbl. í
gær, að hann hefði verið uppi við, en Brynhildur og Jónas hafi verið frammi í.
Þau voru á rækjutrolli skammt utan við Öndverðarnes og biðu birtingar til þess
að geta kastað. Eyþór sagðist hafa gengið fram í bátinn til hinna, en þá hafi
hann séð reyk leggja upp af bátnum aftan til. Hann kallaði í Brynhildi og
Jónas, en ekki réðst við eldinn. "Ég fór þá að talstöðinni og gat kveikt á
henni. Hins vegar gat ég ekki kallað í hana vegna hita nema brjóta glugga og
teygja mig eftir henni inn um hann. Kallaði ég upp Reykjavík og bað
loftskeytamanninn um að hlusta eftir okkur á neyðarbylgjunni. Þegar þetta kom
fyrir, vorum við um 8,5 sjómílur undan landi, vest-norðvestur af Öndverðarnesi.
Okkur gekk vel að komast í gúmbátinn og vorum í honum um það bil 2 klukkustundir,
en þegar Hamar kom og tók okkur upp, vorum við um 11 til 12 mílur dýpra og
hafði þá rekið þetta. Veður var gott, hægur andvari, en dálítil kvika. Eldurinn
kom upp um klukkan 4 um nóttina og klukkan 10.10 sökk báturinn." "Við
vorum á rækjutrolli og ætluðum að veiða í svokölluðum Kolluál. Vorum við
nýkomin út frá Ólafsvík, er eldsins varð vart. Það var mikið tap að missa
bátinn, en hann er í eigu Sæmundar Arelíussonar og Jónas Kr. Jónssonar á
Ísafirði. Höfðum við bundið miklar vonir við rækjuveiði á Húnaflóa. "Er ekki
óvanalegt, að hjón rói saman á bát eins og þið Brynhildur gerið?" "Ég
held, að það sé einsdæmi", sagði Eyþór. "Við höfum þó ekki alltaf verið á
sama bát.
Ég var á Ögurnesinu í vetur, en hún var á stærri bát, segist hafa
verið á skipi." "Og hvað er nú framundan?" "Ja, okkur langar í annan
bát. Draumur okkar hjónanna er að eignast lítinn bát, sem við getum róið á tvö
ein eftir rækju í Djúpinu. Við búum á bæ við Djupið, sem heitir Þernuvík og er
í Ögurhrepp. Þar langar okkur til þess að búa og róa svo eftir rækju, stunda
jafnframt búskap, og gerast eins konar útvegsbændur eins og svo mjög tíðkaðist
í Djúpinu í gamla daga". Þegar við spurðum Eyþór að lokum hvort þeim hafi
orðið meint af þessu óhappi, kvað hann þau ekki hafa svo mikið sem blotnað.
Eyþór minntist einnig á það að fyrir þremur árum hafi bát hvolft undan þeim
hjónum út af Þorlákshöfn. Fóru þau þá bæði í sjóinn og þurftu að synda um í
sjónum, unz þeim var bjargað. Þess má að lokum geta að kona Eyþórs og
vélstjórinn hans Brynhildur Björnsson er sonardóttir Sveins heitins Björnssonar
fyrsta forseta Íslands.
Morgunblaðið. 3 september 1974.