12.01.2019 08:09
211. Sæúlfur BA 75. TFEQ.
Vélskipið Sæúlfur BA 75 var smíðaður
í Brandenburg í Austur Þýskalandi árið 1962 fyrir Hraðfrystihús Tálknafjarðar
hf á Tálknafirði. 155 brl. 495 ha. Lister díesel vél. Skipið var lengt hjá
Bolsönes Verft í Molde í Noregi í desember 1965, mældist þá 179 brl. Skipið
sökk um 23 sjómílur SA af Dalatanga 25 nóvember árið 1966. Áhöfnin, 11 menn,
komust í gúmmíbjörgunarbát. Skipverjum var svo bjargað um borð í Vonina KE 2
frá Keflavík sem fór svo með þá til Seyðisfjarðar.
ATH: Það er einhver bilun í gangi hér á 123.is sem lýsir sér í því að myndir detta út af síðunni minni. Það eru óþægindi sem fylgja þessu. Ekkert sem ég get gert til að laga þetta. Vefstjóri 123.is veit af þessu og ekkert annað að gera en bíða eftir því að síðan verði lagfærð. Bestu kveðjur.
Vélskipið Sæúlfur BA 75 á siglingu á sundunum við Reykjavík. (C) Snorri Snorrason.
Nýr
stálbátur til Tálknafjarðar frá Austur-Þýskalandi
Nýr stálbátur, smíðaður í Austur-Þýzkalandi, kom til
heimahafnar, Sveinseyrar við Tálknafjörð, s.l. mánudag. Báturinn heitir
Sæúlfur, BA 75, eign Hraðfrystihúss Tálknafjarðar, en framkvæmdastjóri þess er
Albert Guðmundsson kaupfélagsstjóri. Sæúlfur er 155 brúttólestir að stærð,
smíðaður úr stáli í skipasmíðastöð í Strælu (Stralsund) í Þýzka
alþýðulýðveldinu. Aðalvél bátsins er af gerðinni Lister en um borð eru
aðsjálfsögðu öll nýjustu siglinga og fiskileitartæki. Benedikt A. Guðbjartsson
skipstjóri sigldi bátnum heim frá Þýzkalandi. Þjóðviljinn. 23 ágúst 1962. Vélskipið Sæúlfur frá Tálknafirði, sökk í gær 23 sjómílur
austur af Dalatanga. Skipið var þá á leið til lands með síldarfarm. Skipið
sendi út neyðarkall og skömmu síðar voru mörg síldveiðiskip komin þar á
vettvang og svo fór að vélskipið Vonin bjargaði áhöfn Sæúlfs og flutti hana til
Seyðisfjarðar. Blaðið hafði samiband við síldarradíóið á Dalatanga laust eftir
klukkan 9 í gærkvöldi, og sagði það þá 7 vindstig og ekkert veiðiveður.
Veiðisvæðið var og hafði verið um 60 mílur úti í hafi austur af suðri og ASA
frá Dalatanga og þar hafði Sæúlfur verið að veiðum.
Skipstjóri á vb. Sæúlfi verður Ársæll Egilsson í Tunguþorpi.
211. Sæúlfur BA 75 á síldveiðum. (C) Hafsteinn Jóhannsson.
Sæúlfur
sekkur á síldarmiðunum fyrir austan
Skipstjóri á Sæúlfi var
Ársæll Egilsson frá Bíldudal. Skip hans var upphaflega 155 lestir að stærð, en
hafði verið stækkað í Noregi í desember 1965, upp í 179 brl að stærð. Blaðið
náði í gær í Ársæl skipstjóra og sagði hann að á leiðinni til lands hefði
skipið farið á hliðina á siglingunni, en þá var 6 vindstiga stormur af SSV.
Ársæll sagði að hann hefði ekki vitað betur en að lestin hefði verið full svo
sem sjá mátti eftir að búið var að háfa. Hann taldi að þeir hefðu verið með um
170-180 tonn síldar og allt í lestum, en ekkert á dekki. Er skipið kastaðist á
hliðina hjá okkur sendum við út neyðarkall og var þá Vonin rétt hjá okkur,
einnig mörg önnur skip skammt undan. Fórum við skipsmenn í gúmmbátana og
komumst fljótt um borð í Vonina. Ársæll skipstjóri biður um sérstakt þakklæti
fyrir góðar móttökur þar um borð. Við nánari eftirgrennslan um slysið sagði
Ársæll að skipið hefði kastast í stjór. Enginn um um borð hefði náð neinu
markverðu af eignum sínum og sumir yfirgefið skipið á sokkaleistunum einum. Þá
gat Ársæll skipstjóri þess, að afli sá, er skipið var með hefði fengizt í 4
köstum og hefðu þau verið tekin frá því kl. 8 í fyrrakvöld og þar til kl. 8 í
gærmorgun. Loks gat hann þess að skipsmenn hefðu misst fyrsta björgunarbátinn,
og hefði línan slitnað, en þeir farið í næstu tvo báta. Við náðum í gær í
skipstjórann á Voninni, Gunnlaug Karlsson úr Keflavík. Hann sagði að þeir hefðu
verið á landleið með síld, 120 tonn og hefðu þeir ætlað til Fáskrúðsfjarðar,
sem væri hálfgerð heimahöfn þeirra fyrir austan. Sigldu þeir fyrst upp undir
land og ætluðu síðan suður með. Voru þeir því rétt hjá Sæúlfi er slysið bar að.
Gunnlaugur sagði: Það er mikil ánægja að fá að bjarga félögum sínum svona. Það
er oft að skaparinn gefur okkur góðan afla, en aldrei hef ég lent í því að fá
tvo fulla skipsbáta af góðum félögum! Við spurðum Gunnlaug hvernig það hefði
verið hjá honum að sjá er Sæúlfur sökk. "Við sáum hann síga niður að aftan og
hverfa í ölduna, hallandi á stjórnborða".
Morgunblaðið. 26 nóvember 1966.