16.01.2019 18:06
240. Gjafar VE 300. TFNI.
240. Gjafar VE 300 á leið inn til Vestmannaeyja. Ljósmyndari: Óskar. Mynd úr safni mínu.
Tvö ný skip
til Vestmannaeyja
Fyrir skömmu bættust tvö glæsileg fiskiskip í flota
Vestmannaeyinga. Þau eru: ísleifur IV. VE 463 og Gjafar VE 300. Ísleifur IV er
byggður í Örens Værsted í Noregi og er systurskip Bergs og Hugins II. Eigandi
er Ársæll Sveinsson, útgerðarmaður. Skipstjóri verður Guðmar Tómasson.
Gjafar var byggður í Sandam í Hollandi. Hann er 248 tonn og hefur 595 hestafla
Kromhaut aðalvél. Vistarverur eru sérstaklega góðar, allt tveggja manna klefar.
Skipstjóri á Gjafari er hinn kunni aflamaður Rafn Kristjánsson. Báturinn fer á
síldveiðar um næstu helgi. Framsóknarblaðið óskar eigendum hinna nýju báta til
hamingju og skipverjum góðs gengis á komandi vertíð.
Framsóknarblaðið. 10 júní 1964.
Gjafar VE 300 á strandstað í innsiglingunni til Grindavíkur. (C) Morgunblaðið. / H. Stígsson.
Tólf
manns bjargað
Miklar
skemmdir á kili Gjafars VE 300,
þar
sem hann liggur á strandstað í Grindavík
Vélskipið Gjafar VE 300 strandaði við innsiglinguna í
Grindavíkurhöfn í fyrrinótt rétt fyrir klukkan 3. Fór skipið á sker í Hópsnesi,
er það var á leið út úr höfninni, en nesið er austanvert í
Járngerðarstaðasundi. Tólf manna áhöfn var á skipinu og var henni bjargað í
land í björgunarstól af björgunarsveit Slysavarnadeildarinnar Þorbjörns í
Grindavík. Allir mennirnir urðu mjög sjóblautir er þeim var bjargað, en þeir
jöfnuðu sig fljótt, er í land kom og varð engum meint af volkinu. Áhöfnin var skipuð
Vestmannaeyingum, og misstu þeir nú atvinnutæki sitt aðeins mánuði eftir að
þeir urðu að flýja heimabyggðina. Skipið er álitið mjög mikið skemmt á kili og
hefur Björgun h.f. tekið að sér að ná skipinu á flot.
Formanni Björgunarsveitarinnar Þorbjörns, Tómasi Þorvaldssyni, var tilkynnt um
strandið rétt um klukkan 3 og kallaði hann sveitina strax út, þar sem
skipstjóri Gjafars óskaði eftir að áhöfninni yrði bjargað í land. Hélt sveitin
þegar á strandstað og var hún komin þangað um 3.30. Erfitt var að komast út
fjöruna og bera tækin á strandstaðinn, þar sem á gekk með útsynningshryðjum.
Gekk sjór yfir björgunarmennina á leið þeirra, en skipið hafði strandað á
fjöru, en tekið var að falla að. Á meðan á björgunarstarfinu stóð, gekk sjór
yfir mennina i fjörunni og töluvert brimsog var. Sjór gekk stöðugt yfir skipið,
en það lá alltaf upp í brimið og hefur því að líkindum lent á skernibbu. Lega
skipsins og hallinn frá landi gerði starfið mun erfiðara. Í öðru skoti hittu
björgunarmenn skipið, en línan kom þá á skipið þar sem áhöfnin treysti sér ekki
að ná í hana vegna brimsins. Í þriðja skoti fór línan þannig að skipverjar gátu
náð henni og eftir að samband var komið milli lands og skips, gekk greiðlega að
koma tækjunum upp, en erfitt var þó að halda línunum uppi, svo að þær færu ekki
í botn, en þarna er misdýpi og skerjótt mjög. Urðu björgunarmenn að svamla í
sjó töluvert út til að losa línuna úr botninum. Því fylgdi nokkur áhætta, en
allt tókst samt giftusamlega. Þegar búið var að koma björgunartækjunum fyrir
voru skipverjar dregnir einn af öðrum í land. Að meira eða minna leyti drógust
þeir nær alla leiðina í sjó. Voru menn að vonum kaldir og blautir er í land
kom, en þegar skipbrotsmenn fengu hlý föt og komust í hús, hresstust þeir
fljótt og urðu brátt sprækir. Voru þeir allir fluttir í verbúðir, en margir eru
þessir menn heimilislausir og eru fjölskyldur þeirra á tvist og bast. Tveir
áttu fjölskyldur í Grindavík, tveir vissu ekki hvar fjölskyldur þeirra voru
staddar, en aðrir höfðu ekki símanúmer á verustað fjölskyldna sinna.
Gjafar hafði komið inn til Grindavíkur til þess að landa loðnu og hafði skipið
gert það og var á leið út til veiða á ný, þegar það strandaði. Strandstaðurinn
er svo til sá hinn sami og Arnfirðingur strandaði á fyrir nokkrum misserum, en
honum tókst að bjarga. Að því stóð Bjöngun h.f., sem flutti bátinn upp á
fjörukambinn, bjó síðan til rennu og hleypti honum á flot eftir henni um leið
og skipið hafði verið þétt. Augsýnilega er Gjafar mjög mikið skemmdur á kili,
því að á flóðinu flaut skipið ekki upp í gær, heldur lá alveg kyrrt. Töluverð
olía rann úr skipinu í gær um gat á skrokki þess. Björgun h.f., sem þegar í gær
hafði hafið undirbúming björgunar Gjafars ætlaði að fara eins að með hann og
farið var með Arnfirðing, þegar honum var bjargað, flytja skipið fyrst upp á
fjörukambinn, þétta það þar og hleypa síðan niður sömu rennuna og Arnfirðingi.
Um borð í Gjafar var í fyrradag sett ný loðnunót í Grindavík. Nótin var hálf
komin úr bátnum í gær og slettist til í brimrótinu. Skipverjar Gjafars sögðu
eftir björgunina í gær að sögn Guðfinns Bergssonar, fréttaritara Mbl. í Grindavík,
að skipið hefðd tekið niður í rennunni rétt áður en það strandaði. Engin vissa
er enn fengin fyrir því, hvað olli strandinu, em líklegt er að beygt hafi verið
of snemma á bakborða og áður en komið er að miðmerkinu á innsiglingunni. Þess
má geta að þau tæplega 25 ár, sem Tómas Þorvaldsson hefur verið formaður
björgunarsveitarinnar í Grindavík, hefur sveitin bjargað 191 mannslífi.
Morgunblaðið. 23 febrúar 1973..