27.01.2019 04:30

B. v. Hafliði SI 2. TFDE.

Nýsköpunartogarinn Hafliði SI 2 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Útgerðarfélagið Hrímfaxa og Sviða h/f í Hafnarfirði, hét fyrst Garðar Þorsteinsson GK 3. 677 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 55,58 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 790. Skipið var sjósett 28 janúar 1948. Kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar 21 júní sama ár. 15 mars árið 1951 var Ríkissjóður Íslands skráður eigandi. Skipið var selt 24 júlí 1951, Bæjarsjóði Siglufjarðarkaupstaðar, hét Hafliði SI 2. Selt 2 maí árið 1969, Útgerðarfélagi Siglufjarðar h/f. Togarinn var seldur til Englands og tekinn af skrá 7 júní árið 1973.


75. Hafliði SI 2 við bryggju á Siglufirði.                                                       Ljósmyndari óþekktur.

 

     Nýr togari keyptur til bæjarins

Nýsköpunartogarinn "Garðar Þorsteinsson" lagðist að bryggju hér kl. 8,50 í gærkvöldi. Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Bjarnason, bæjarfógeti, bauð skipið velkomið með snjallri ræðu, en bæjarstjóri, Jón Kjartansson, sem kom með skipinu, talaði af skipsfjöl. Þá talaði og bæjarfulltrúi, G. Jóhannsson. "Canton kvartetinn" söng á milli ræðanna. Undanfarið hefur verið unnið að því, í sambandi við lausn á hinu erfiða atvinnuástandi í bænum, að fá hingað nýsköpunartogara. Fóru þeir Bjarni Bjarnason, forseti bæjarstjórnar, Jón Kjartansson, bæjarstjóri, og í þeirra fylgd Þóroddur Guðmundsson, til Reykjavíkur á sínum tíma til að vinna að þessu máli. Bæjarstjóri hefur og að staðaldri, dvalið fyrir sunnan til að koma máli þessu áleiðis. Nú eru þau góðu tíðindi að segja, að fest hafa verið kaup á nýsköpunartogaranum "Garðari Þorsteinssyni" og er hann væntanlegur til bæjarins, í dag. Nýsköpunartogarinn "Garðar Þorsteinsson" er af stærri gerð eldri nýsköpunartogaranna, af Neptúnus-stærð, og er því nokkru stærri en bæjartogarinn "Elliði". Hann hefur það og fram yfir "Elliða", að hann hefur fullkomin kælitæki í lest. Kaupverð skipsins er kr. 5.400. 000, eða nokkuð á fjórðu milljón lægra en þeirra togara, sem nú er verið að smíða í Englandi. Með í kaupunum fylgja öll veiðarfæri skipsins og annað það stórt og smátt sem skipinu tilheyrir. Skipstjórinn á "Elliða", sem staddur var í Reykjavík, sagði skip, vélar og veiðarfæri í góðu ásigkomulagi. Togarinn er nýkominn úr "slipp" þar sem fram fór ketilhreinsun, botnhreinsun og málning skipsins. Togarinn getur því þegar hafið veiðar og atvinnusköpun hér í bæ.
Ríkisstjórnin kaupir skipið af fyrri eigendum þess og selur það síðan hingað með mjög hagstæðum og aðgengilegum kjörum. Sýna þessar aðgerðir ríkisstjórnar Sjálfstæðisfl. og Framsóknarfl. fullkominn skilning á hinu erfiða atvinnuástandi Siglfirðinga. Án aðstoðar hennar hefðu Siglfirðingar hvorki getað keypt togarann né önnur atvinnutæki. Siglfirðingar hafa því ríka ástæðu til að vera ríkisstjórninni þakklátir fyrir aðgerðir hennar í þessu máli. Gengið var frá kaupum á togaranum og samningar undirskrifaðir miðvikudaginn 14. marz s. l. Samningana undirskrifuðu fyrir hönd bæjarstjórnar: Jón Kjartansson, bæjarstjóri, Ólafur Ragnars og Áki Jakobsson. Má það að vísu undarlegt heita, að Áki skuli fenginn til þess verks, þar sem hann hefur ekki svo vitað sé, komið nálægt útvegun togarans, enda ríkisstjórnin þannig skipuð og málum þann veg háttað, að ásjónir kommúnista eyðilögðu frekar fyrir málinu en hitt. Út af fyrir sig er það máske aukaatriði, þótt þessi brátt fráfarandi þingmaður okkar Siglfirðinga seti nafn sitt á kaupsamningana. Aðalatriðið er auðvitað hitt, að fyrir velvilja núverandi ríkisstjórnar og dugnað og harðfylgi flokksmanna ríkisstjórnarflokkanna hér, hefur tekizt að fá nýjan togara í bæinn með kostakjörum. Togara, sem skapa mun mikla atvinnu hér og verður væntanlega til að bjarga mörgu heimilinu hér í bæ frá bölvun atvinnuleysisins. Bæjarbúar fagna allir komu hins nýja togara og þakka þeim öllum, sem að komu hans hafa unnið. Jafnframt þakka bæjarbúar núverandi ríkisstjórn fyrir velvilja hennar og skilning í garð Siglfirðinga í þessu máli. Bæjarbúar bjóða hið nýja skip velkomið til Siglufjarðar, svo og skipstjóra þess og aðra yfirmenn, sem koma með skipinu. Og hugheilustu óskir bæjarbúa um giftu og velfarnað fylgja skipinu og áhöfn þess í höfnum og á höfum úti.

Siglfirðingur. 20 mars 1951.



B.v. Hafliði SI 2. Ólafsfjarðarmúli í baksýn.                                                       (C) Auður Ingólfsdóttir.

 

           Velkominn Hafliði SI 2

Bæjarstjórnin hefur ákveðið að hið nýja skip beri framvegis nafnið Hafliði. Munu allir vel una þeirri nafnagift. Togarinn fór á veiðar 21. f.m. Frézt hefur, að í gær hafi hann þurft að fara til Reykjavíkur til að taka salt. Ekki er óvarlegt að ætla, að afli hans hafi verið ca. 100 tonn. Fyrir hönd allra þeirra mörgu sem fagna komu togarans, vill Einherji bjóða nýja siglfirzka togarann velkominn til hinna nýju heimahafnar. Öllum er ljóst að mikið er í ráðizt, og happ og hending kann að hafa áhrif á rekstur og afkomu þessa skips, en það er von Siglfirðinga að hamingjan hossi Hafliða til hags og heilla fyrir okkur öll sem þennan bæ byggjum. Þeim, sem hlut eiga að því, að þessi togari er hingað kominn, skulu hér með færðar beztu þakkir.

Einherji. 3 apríl 1951.


B.v. Hafliði SI 2. Líkan á Síldarminjasafninu á Siglufirði.       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 17 júlí 2016.

 

  Togarinn Hafliði SI 2 bjargaði áhöfn Fylkis RE 161


Meðal togaranna sem voru að veiðum nær landi voru b.v. Hafliði SI 2 frá Siglufirði. Loftskeytamaðurinn á varðskipinu Þór heyrði einnig neyðarkallið, en þó aðeins einu sinni. Þór var þá staddur við Vesturlandið. Fleiri togarar en Hafliði heyrðu SOS- merki Fylkismanna og settu þeir allir á fulla ferð í áttina þangað. Um hálftíma eftir að Fylkir sökk kom togarinn Hafliði að. Var þá byrjað að birta að degi, sem vitaskuld hjálpaði mikið til við að finna björgunarbátinn með áhöfnina í. Auðunn Auðunsson kallaði til Alfreðs Finnbogasonar skipstjóra á Hafliða og bað hann að koma kulmegin við bátinn. Togarinn stansaði og rak að bátnum.
Um borð í Hafliða voru margar hendur á lofti til þess að aðstoða Fylkismenn um borð. Eftir að björgun var lokið, var stefna sett til Ísafjarðar. Stuttu síðar var skeyti sent til Sæmundar Auðunssonar, framkvæmdarstjóra Fylkisútgerðarinnar. Ennfremur til Ísafjarðar, þar sem beðið var um að læknir kæmi út með lóðsbátnum vegna hinna meiddu. Fregnin um að Fylkir hefði farist á tundurdufli barst eins og eldur í sinu um Ísafjörð. Og er svo Hafliði kom að bryggju með skipbrotsmennina beið þar fjöldi manns. Undireins og upp að var komið var farið með mennina sem meiddust upp á spítala og gert að meiðslum þeirra.

Sporisandi.is
Konráð Rúnar Friðfinnsson.
27 nóvember 2014.


Smíðateikning af Garðari Þorsteinssyni GK 3 / Hafliða SI 2.                     (C) Óttar Guðmundsson.



B.v. Garðar Þorsteinsson GK 3 við komuna til Hafnarfjarðar 21 júní 1948.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

   Garðar Þorsteinsson kom í gær

Nýsköpunartogarinn , Garðar Þorsteinsson GK 3 frá Hafnarfirði lagðist að bryggju þar suður frá fánum skreyttur laust fyrir hádegi í gær. Mannfjöldi var á bryggjunni til að fagna skipi og skipverjum, en bryggjan hafði verið fánum skreytt. Kristján Bergsson framkvstj. útgerðarinnar, Hrímfaxi og Sviði h/f, bauð gestum að skoða skipið og lýsti byggingu þess. Garðar Þorsteinsson er af næst stærstu gerð nýsköpunartogaranna, Röðul-gerðin, 180 feta langur. Hann er byggður í Beverley. Togarinn er nefndur eftir Garðari Þorsteinssyni alþingismanni, er Ijest á s.l. ári. Skipstjóri á Garðar Þorsteinssyni er Guðmundur Þorleifsson og fyrsti vjelstjóri Jón Björnsson. Togarinn er 26. nýsköpunartogarinn sem til landsins kemur. Hann fer væntanlega á veiðar annað kvöld.

 

Morgunblaðið. 22 júní 1948.




 

Flettingar í dag: 129
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074507
Samtals gestir: 77493
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 11:04:43