03.02.2019 08:17

531. Hafrún NK 80. TFDK.

Vélbáturinn Hafrún NK 80 var smíðaður hjá Dráttarbrautinni hf í Neskaupstað árið 1957 fyrir Neista hf (Kristinn Marteinsson útgerðarmann í Dagsbrún og fl.) í Neskaupstað. Eik. 61 brl. 280 ha. MWM vél. Seldur 30 nóvember 1968, Hraðfrystistöð Eyrarbakka hf á Eyrarbakka, hét þá Hafrún ÁR 28. Ný vél (1970) 346 ha. Cummins vél. Seldur 25 apríl 1972, Valdimar Eiðssyni skipstjóra og Ragnari Jónssyni á Eyrarbakka, sama nafn og númer. Mikill eldur kom upp í bátnum 12 september árið 1974 þegar hann var að veiðum um 10 sjómílur austur af Vestmanneyjum. Áhöfnin, 6 menn, björguðust í gúmmíbjörgunarbát og var þeim síðan bjargað um borð í vélskipið Hafbjörgu VE. Hafrún var dregin af Lóðsinum í Vestmannaeyjum upp undir Landeyjasand alelda, þar sem hún síðan sökk.


Hafrún NK 80 í kappsiglingu á Sjómannadag í Neskaupstað.         Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.

                 Hafrún NK 80

Rétt upp úr miðnætti 27. þ. m. var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð Dráttarbrautarinnar nýjum fiskibáti. Báturinn var skírður með virðulegri athöfn. Jóhannes Stefánsson hélt stutta ræðu, þá gaf Elsa Kristinsdóttir Marteinssonar skipstjóra bátnum nafn með því að brjóta kampavínsflösku á stefni hans og nefna hann Hafrún. Óskaði Elsa bátnum gæfu og gengis. Þá voru borðar, sem huldu nafn skipsins fjarlægðir og báturinn látinn síga hægt í sjóinn. Var hann fánum prýddur. Nokkuð var af fólki við athöfn þessa, en fáir munu hafa vitað um að sjósetning bátsins ætti að fara fram á þessum tíma. Jóhannes gat þess að nú ættu Norðfirðingar 12 fiskibáta stærri en 55 lestir og um 20 dekkbáta innan við 55 lestir auk margra opinna vélbáta. Kvað hann stækkun bátaflotans hafa verið svo öra á fáum árum, að ýmislegt annað sem útgerðinni væri brýn nauðsyn til aðstöðu í landi, hefði orðið á eftir. Væri því aðkallandi að bæta aðstöðu bátaútvegsins með byggingu bátahafnar, byggingu verbúða og geymslu fyrir síldarnætur. Einnig þyrfti að stækka eða byggja nýja fiskimjöls- og síldarbræðslu. Eigandi bátsins er nýstofnað hlutafjelag er Neisti heitir.
Aðaleigendur eru þeir Kristinn Marteinsson, skipstjóri og Páll Þorsteinsson, útgerðarmaður. Hafrún er 61 brúttósmálestir að stærð með 280 hestafla Mannheim vél. Ganghraði hefur enn ekki verið mældur. Báturinn er búinn öllum venjulegum öryggis og siglingartækjum, þar á meðal fisksjá. Einkennisstafir eru N. K. 80. Hafrún er smíðuð eftir teikningu, sem Sverrir Gunnarsson gerði og var hann einnig yfirsmiður. Niðursetningu vélar og aðra slíka vinnu annaðist vélsmiðja Dráttarbrautarinnar undir stjórn Reynis Zoega, vélsmíðameistara, raflagnir annaðist Kristján Lundberg, rafvirkjameistari og málningu Bjarni Lúðvíksson, málarameistari. Skipstjóri á Hafrúnu verður Kristinn Marteinsson og 1. vélstjóri Guðmundur Sigurðsson. Báturinn mun fara á síld innan fárra daga.
Austurland áskar eigendunum til hamingju með þennan glæsilega bát. Skipasmíðastöðin hér er langt komin með smíði á öðrum báti. Er sá rúmlega 20 tonn. Þá verður bráðlega lagður kjölur að um 70 lesta báti og er efni þegar komið á staðinn. Sá bátur verður smíðaður fyrir reikning fyrirtækisins sjálfs og ekki seldur fyrr en hann er fullsmíðaður.

Austurland. 28 júní 1957. 


Hafrún NK 80 sennilega nýsmíðuð.                                                       (C) Þorsteinn Jóhannsson.


Bátar í smíðum og viðhaldi hjá Dráttarbrautinni hf í Neskaupstað 1957.  (C) Höskuldur Stefánsson.

         Eldur í Hafrúnu úti á rúmsjó

  Sex mönnum bjargað en báturinn
    látinn reka upp í Landeyjafjöru

Eldur kom upp í v.b. Hafrúnu ÁR-28 frá Eyrarbakka í fyrrinótt. Skipti engum togum, að eldurinn breiddist út á örskammri stund, en skipverjunum, sex að tölu, tókst að komast í gúmbát. Síðan tókst að koma dráttartaug fyrst yfir í Hafbjörgu VE og síðan yfir í Lóðsinn, sem dró bátinn upp að Landeyjasandi, þar sem hann var látinn reka upp í fjöru. Þá var báturinn þó brunninn að mestu. Skipverjum var hins vegar bjargað um borð í Hafbjörgu, sem fór með mennina til Eyja, en til Eyrarbakka komu þeir um hádegisbil í gær með Sæfara frá Eyrarbakka. "Það var um kl. 2.30 í fyrrinótt, sem við urðum varir við eld í vélarrúminu, og skipti það engum togum, eldurinn breiddist fljótt út og ekki varð við neitt ráðið," sagði Ragnar Jónsson, fyrsti vélstjóri á Hafrúnu, þegar við ræddum við hann, skömmu eftir að hann kom til Eyrarbakka í gær. Hafrún var að leggja af stað til Eyrarbakka, þegar eldurinn brauzt út, en báturinn var búinn að vera á togveiðum frá því á laugardagskvöld. Þegar vart varð við eldinn, var báturinn staddur um 10 mílur austur af Vestmannaeyjum á vesturleið. Skipverjar reyndu að slökkva eldinn, en ekkert gekk. "Þegar ljóst var, að ekki yrði unnt að slökkva eldinn, sem allur var í vélarrúminu, hafði skipstjórinn, Valdimar Eiðsson, samband við Vestmannaeyjaradíó og Hafbjörgu VE (áður Breki), sem þarna var skammt frá á togveiðum." sagði Ragnar enn fremur. "Eftir því sem ég bezt veit, þá hjuggu skipverjar Hafbjargar trollið frá og héldu þegar til móts við okkur. Var báturinn kominn að Hafrúnu u.þ.b. einni klukkustund eftir að eldurinn brauzt út. Við náðum strax í gúmbátana, sem voru á þaki stýrishússins, og fórum við fljótlega yfir í annan bátinn, en bundum bátana saman. Enn fremur létum við dráttartaug síga út fyrir borðstokk Hafrúnar." Þá sagði Ragnar, að þegar Hafbjörg hefði komið, hefðu þeir verið búnir að vera á reki í 10 mínútur.
Gekk skipverjum vel að komast úr gúmbátnum yfir í Hafbjörgu, og er þeir voru komnir um borð, var Hafrún tekin í tog. Var ætlunin að draga bátinn upp á hraunið austur af Eyjum, til þess að hann sykki ekki á togveiðisvæði bátanna. Þegar Hafbjörg var búin að vera með Hafrúnu í togi í eina og hálfa klukkustund, kom Lóðsinn frá Vestmannaeyjum á vettvang, en um borð í honum voru menn frá slökkviliðinu í Eyjum með fullkomnar slökkvidælur. Sáu þeir strax að eldurinn yrði ekki slökktur og tóku því Hafrúnu í tog og drógu áleiðis að landi. Var báturinn síðan dreginn upp á Landseyjasand og látinn reka þar upp í fjöru, en hann var þá að mestur brunninn, eins og áður segir. Hafbjörg hélt aftur á móti með skipverjanna sex til Eyja, en þangað sótti svo einn Eyrarbakkabátanna þá, eins og fyrr getur. Þórarinn Öfjörð Markússon háseti á Hafrúnu, sagði í samtali við blaðamann Morgunblaðsins, að skipverjar hefðu átt í nokkrum erfiðleikum með að losa gúmbátanna vegna gífurlegs hita og reykjarsvælu. Sagði hann, að skipverjar teldu einkennilegt, að báðir bátarnir skyldu vera settir á sama stað í skipinu, t.d. hefði verið betra að hafa annan fram undan hvalbak.
Hafrún var röskar 60 lestir að stærð, smíðuð í Neskaupstað fyrir Kristinn Marteinsson og fleiri. Báturinn var síðan seldur til Eyrarbakka fyrir fáeinum árum, og var fyrst í eigu Hraðfrystistöðvarinnar, en frá 1971 var hann í eigu þeirra Ragnars Jónssonar, vélstjóra, og Valdimars Eiðssonar, skipstjóra. Við spurðum Ragnar, hvort þeir félagar hygðu á kaup á nýju skipi, en hann svaraði því til, að enginn vissi, hvað nú tæki við, en kaup á nýju skipi væri ekkert fráleitara en hvað annað. Fyrst í stað mundu þeir þó athuga málið nánar.

Morgunblaðið. 13 september 1974.


Flettingar í dag: 150
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074528
Samtals gestir: 77495
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 12:58:08