06.02.2019 17:55
Ketill Hængur NS 312. TFCL.
Mótorbáturinn Ketill Hængur NS 312 við bryggju á Seyðisfirði. Ljósmyndari óþekktur.
Vertíðarbátar
Bátar héðan frá Seyðisfirði eru nú á förum til Hornafjarðar
og Djúpavogs. Munu bátar Jóns Björnssonar verða fyrstir. Óskar Austri þeim
öllum góðrar vertíðar.
Mótorbáturinn Bangsi ÍS 80 frá Bolungarvík. Ljósmyndari óþekktur.
M.b. Bangsi
ÍS 80 ferst
Tveir menn drukkna.
M.b. Bangsi, ÍS 80 fór á sjó þann 15. þ.m. kl. 3 um
morguninn. Línan var lögð um 16 sjómílur N til A frá Rit. Veður var gott framan
af degi norðaustan átt og lítilsháttar snjóél. Þegar leið á daginn tók veður að
versna. Allt gekk þó vel þar til kl. 17, en þá brotnaði skrúfublað og eftir það
lét báturinn ekki að stjórn. Var þá búið að draga 80 lóðir. Vindur var þá
orðinn allhvass af norðaustri með mikilli snjókomu. Þegar eftir bilunina var
kallað á Maríu Júlíu, og með aðstoð togarans Austfirðings tókst að ná sambandi
við Maríu og koma til hennar hjálparbeiðni. Þegar þetta skeði var staða
skipsins 15 sjómílur N til A frá Rit og voru segl dregin upp og reynt að komast
nær landi. Þá er María Júlía fékk hjálparbeiðnina var hún stödd á
Ísafjarðardjúpi og lagði þegar af stað til aðstoðar við m.b. Bangsa. Veður fór
hríðversnandi og um kl. 24,40, þegar María Júlía kom að m.b. Bangsa, voru komin
um 11 vindstig, brotsjór, stórhríð og náttmyrkur. Þá var staða m.b. Bangsa 7
sjómílur í N af Rit. Skömmu áður en María Júlía kom á staðinn, fékk m.b. Bangsi
á sig brotsjó sem skolaði öllu lauslegu fyrir borð, braut rúður og hurðir í
stýrishúsi, einnig öll skjólborð annars vegar og hálffyllti bátinn af sjó. Þá
kastaðist báturinn á hliðina, öll ljós slokknuðu, tvo menn tók út og sást
ekkert til þeirra eftir það. Mennirnir sem fórust voru þessir:
Magnús A. Jónsson, annar vélstjóri, 35 ára. Lætur eftir sig tvö munaðarlaus
börn og unnustu.
Ólafur P. Steinsson, háseti, 25 ára, ókvæntur. Lætur eftir sig aldraða
foreldra.
Meðan María Júlía var á leiðinni á slysstaðinn, hafði hún stöðugt talsamband
við Bangsa og tók miðanir meðan talstöð hans var í lagi. Vegna veðurs og
brotsjóa var ekki hægt að halda áfram með fullri ferð eftir að komið var út
fyrir Rit. Ljósin á Bangsa sáust ekki fyrr en skömmu áður en komið var að
honum, og sáu skipverjar á Maríu Júlíu þegar brotsjórinn reið yfir bátinn, og
hurfu þá ljósin eins og fyrr segir. Var Bangsa þá leitað með ljóskastara Maríu
Júlíu; fannst hann aftur svo að segja samstundis. Sást þá hvernig umhorfs var
um borð, og skipverjar á Bangsa tilkynntu að mikill sjór væri kominn í bátinn.
Nú var ekki um annað að ræða en að reyna að ná mönnnunum úr bátnum.
Skipstjórinn á Maríu Júlíu, Haraldur Björnsson, tók það ráð að leggja að bátnum
til hlés og dæla olíu í sjóinn meðan á því stóð. Voru bjarghringir, línubyssa
og annar björgunarútbúnaður hafður til taks meðan á þessu stóð, og áhöfn
björgunarskipsins stóð á þilfarinu reiðubúin til að aðstoða mennina af Bangsa.
Tók björgunin örstutta stund. Rétt á eftir hvarf Bangsi út í bylinn og
náttmyrkrið. Leitað var á slysstaðnum fram eftir kvöldinu, en ekki sást annað
en brak úr bátnum. Á leiðinni til lands var svo slæmt í sjóinn, að allt þar til
komið var inn fyrir Rit var dælt út olíu til öryggis skipinu. Legið var undir
Grænuhlíð þar til í birtingu næsta morgun, síðan haldið til Ísafjarðar, og
komið þangað kl. 10,30 f.h. Samkv. frásögn skipstjóranna á Maríu Júlíu og m.b.
Bangsa, hefði ekki mátt muna einni mínútu til þess að ekki hefði verið hægt að
finna bátinn. Þeir sem björguðust voru:
Ásgeir Guðbjartsson, skipstjóri.
Guðmundur Karlsson, I. vélstjóri og
Guðmundur Rósmundsson, stýrimaður.
Voru þeir allir ómeiddir nema Guðmundur Karlsson, sem meiddist nokkuð á fæti.
Skipstjórinn á m.b. Bangsa rómar mjög áræði og snarræði skipstjóra og skipverja
á Maríu Júlíu við þessa björgun.
Skutull. 18 janúar 1952.