09.02.2019 06:39

438. Frigg VE 316. TFGU.

Vélbáturinn Frigg VE 316 var smíðaður hjá A.K. Work í Esbjerg í Danmörku árið 1948. Hét áður Anna Nissen E 242. Eik og fura. 49 brl. 150 ha. Hundested vél. Eigendur voru Sveinbjörn Hjartarson skipstjóri og bróðir hans, Alfreð Hjörtur Hjartarson frá ágúst 1952. Ný vél (1958) 280 ha. MWM vél. Bátinn rak upp í Krísuvíkurbjarg 29 mars árið 1973 og brotnaði í spón þar. Sjór hafði komist í olíugeymi eftir að báturinn fékk á sig brotsjó með þeim afleyðingum að vélin stoppaði. Var hann þá í um mílu fjarlægð frá bjarginu. Áhöfnin, 5 menn, komust í björgunarbát og var bjargað um borð í vélskipið Sigurð Gísla VE 127 frá Vestmannaeyjum.


Frigg VE 316 tilbúin til heimferðar frá Esbjerg í ágúst árið 1952.              Mynd úr safni mínu.

              Nýr bátur til Eyja

Vestmannaeyjum, 11. Ágúst. Nýlega bættist Vestmannaeyjaflotanum nýr bátur. Er það annað skipið, sem Eyjaflotanum bætist á skömmum tíma. Bátur þessi heitir Frigg VE 316, og eru eigendur hans bræðurnir Sveinbjörn og Alfreð Hjartarsynir frá Geithálsi hér í Eyjum. Bát þennan keyptu þeir bræður í Esbjerg í Danmörku. Hann er byggður í Danmörku árið 1948, og er 50 smálestir að stærð með 150 hestafla Hundested mótor. Virðist bátur þessi hið vandaðasta skip. Hann er búinn öllum helztu siglingatækjum. Bræðurnir Alfreð og Sveinbjörn hófu útgerð 1947, þá á 21 smálesta bát, en í vor seldu þeir hann vestur á Bíldudal og keyptu í staðinn bát þann, er fyrr greinir.

Morgunblaðið. 12 ágúst 1952.


Anna Nissen E 242 á siglingu í Esbjerg nýsmíðuð árið 1948.                   Mynd úr safni mínu.

  Frigg VE stjórnlaus undan brotsjó
Sigurður Gísli VE bjargaði áhöfninni

Vélbáturinn Sigurður Gísli kom hingað í dag með 5 manna áhöfn af Vestmannaeyjabátnum Frigg VE 316, sem fékk á sig brotsjó út af Grindavík í gær. Vél bátsins drap fljótlega á sér þegar sjór komst í olíuna og rak bátinn stjórnlaust að landi. Var báturinn aðeins um 1 mílu frá landi. Skipverjar fóru í gúmmíbát þegar vb. Sigurður Gísli VE 127 kom á vettvang og var báturinn dreginn á milli. Gekk það vel og hélt Sigurður Gísli með mannskapinn til lands. Varðskip reyndi síðar um daginn að ná til Friggs, en það tókst ekki og síðast þegar vitað var um bátinn, var hann á reki skammt utan við Krísuvíkurbjarg. Frigg er um 60 lestir að stærð og var hann á trolli. Skipshöfnin hélt frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur og Grindavíkur.
Skipstjóri á Sigurði Gísla er Friðrik Ásmundsson frá Vestmannaeyjum, en skipstjóri á Frigg var Sveinbjörn Hjartarson, einnig frá Eyjum.

Morgunblaðið. 30 mars 1973.

        Brotnaði í Krísuvíkurbjargi

Landhelgisgæzlan taldi í gær líklegt að vélbáturinn Frigg hefði sogast upp í Krísuvíkurbjarg og brotnað þar. Síðast þegar til bátsins spurðist var hann á reki undan bjarginu en loks hafði Gæzlan ekki lengur tök á að fylgjast með honum og ekki var unntt að koma tógi á milli. Mönnunum af Frigg hafði áður verið bjargað um borð í annan bát, en Frigg fékk upphaflega á sig brotsjó.

Morgunblaðið. 31 mars 1973.


Flettingar í dag: 159
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074537
Samtals gestir: 77497
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 13:24:15