05.04.2019 07:26

2182. Baldvin Njálsson GK 400. TFTF.

Skuttogarinn Baldvin Njálsson GK 400 var smíðaður hjá Construcciones Navales Santodomingo S.A. í Vigo á Spáni árið 1991. 736 brl. 2.992 ha. Wartsiila vél, 2.200 Kw. Smíðanúmer 636. Skipið hét Grinnöy T 52 T fyrst og var gert út frá Noregi. Selt 7 ágúst 1992, Ottó Wathne hf. á Seyðisfirði, hét Ottó Wathne NS 90 og gerður út þaðan sem frystitogari. Selt 29 mars 1994, Stálskipum hf. í Hafnarfirði, hét Rán HF 42. Skipið var selt 28 júní 2005, Nesfiski hf. í Garði, heitir Baldvin Njálsson GK 400 og er gerður út þaðan í dag.


Baldvin Njálsson GK 400 við Bótarbryggjuna ný málaður.          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 júlí 2014.

     Ottó Wathne til heimahafnar

Nýr frystitogari lagðist að bryggju á Seyðifirði í gærdag. Togarinn heitir Ottó Wathne NS 90 og er í eigu samnefnds útgerðarfélags. Kemur hann í stað ísfisktogarans Ottó Wathne NS. Margir bæjarbúar voru á bryggjunni til að fagna komu skipsins. Móttökuathöfn fór fram um borð og voru eigendum og fjölskyldum þeirra færð blóm og árnaðaróskir í tilefni dagsins. Ottó Wathne er keyptur frá Noregi. Skipið var smíðað á Spáni árið 1991. Er það 720 brúttórúmlestir að stærð, 51,5 metrar á lengd og 12 metra breitt. Frystigeta um borð er rúm 50 tonn á sólarhring og frystirými fyrir um 550 tonn. 3.000 hestafla vél er í skipinu. Að sögn Trausta Magnússonar annars eiganda skipsins er ætlunin að Ottó Wathne farið á veiðar einhvern næstu daga. Verður byrjað á karfa og verður hann heilfrystur.

Morgunblaðið. 26 ágúst 1992.


Baldvin Njálsson GK 400 ný kominn úr slipp. 1578. Ottó N Þorláksson RE 203 hinu megin við Bótarbriggjuna við Grandagarðinn.   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 júlí 2014.

Otto Wathne seldur til Hafnarfjarðar

Frystitogarinn Otto Wathne hefur verið seldur til Stálskipa í Hafnarfirði, fyrirtækis þeirra Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar. Að sögn Trausta Magnússonar hjá Ottó Wathne hf. Var söluverðið viðunandi en óvíst er um framhald á útgerð hjá fyrirtækinu. Báðir togarar þess hafa verið seldir, Ottó Wathne hefur verið að veiðum á Flæmska hattinum svokallaða undanfarna 5 sólarhringa. Veiði hefur verið heldur dræm, skipið aðeins fengið um 30 tonn af frystum fiski.

Dagblaðið Vísir. 15 febrúar 1994.


Frystitogarinn Rán HF 42.                                                  (C) Hafþór Hreiðarsson. skipamyndir.com


Frystitogarinn Rán HF 42 á Viðeyjarsundi.                          (C) Hafþór Hreiðarson. skipamyndir.com

           Rán kveður Fjörðinn

Útgerðarfyrirtækið Stálskip hf. Í Hafharfirði hefur selt Nesfiski hf. Í Garði frystitogarinn Rán HF 42. Rán mun vera síðasti frystitogarinn í eigu Hafnfirðinga og telja margir eftirsjá að Ráninni. Aflaheimildir skipsins eru um 2.000 þorskígildistonn, en ekki er ljóst hversu mikið af aflaheimildum fylgir með í kaupunum. Nesfiskur á fyrir tvo togara og nokkra minni báta. Forsvarsmenn Nesfisks segjast styrkja rekstur og afkomumöguleika fyrirtækisins með kaupunum.

Dagblaðið Vísir. 30 júní 2005.


Frystitogarinn Ottó Wathne NS 90 á leið inn Seyðisfjörðinn í fyrsta sinn, 25 ágúst árið 1992.
(C) Jón Magnússon.


Fyrirkomulagsteikning af Ottó Wathne NS 90.                                                   Mynd úr Ægi.


            Ottó Wathne NS 90

25. ágúst sl. kom skuttogarinn Ottó Wathne NS 90 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Seyðisfjarðar. Skuttogari þessi, sem áður hét Grinnöy, er keyptur notaður frá Noregi, en er smíðaður árið 1991 (afhentur í apríl) hjá skipasmíðastöðinni Construcciones Navales Santodomingo S.A. í Vigo á Spáni, smíðanúmer 636 hjá stöðinni. Skipið er hannað af Nordvestconsult A/S í ÁIesund í samvinnu við Cramaco A/S í Tromsö. Skipið er með búnað til heilfrystingar á afla og kemur í stað eldri skuttogara útgerðar, sem bar sama nafn, Ottó Wathne NS 90 (1474), 299 rúmlesta skuttogara, smíðaður árið 1977. Jafnframt gengur endurnýjunarréttur Erlings KE 45 (1361) upp í nýja skipið, 328 rúmlesta nótaveiðiskip, smíðað árið 1969 (sökk árið 1990). Áður en skipið kom til landsins voru gerðar ákveðnar breytingar á því af núverandi eigendum, m.a. fjölgað hvílum í eins manns klefum, sett í skipið flotvörpuvinda og bakstroffuvindur og bætt við tækjum í brú. Hinn nýi Ottó Wathne er smíðaður í EO-klassa, þ.e. vaktfrítt vélarúm.
Ottó Wathne NS er í eigu samnefnds hlutafélags á Seyðisfirði. Skipstjóri á skipinu er Páll Ágústsson og yfirvélstjóri Víglundur Þórðarson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Trausti Magnússon.
Mesta lengd 51.45 m.
Lengd milli lóðlína (HVL) 46.90 m.
Lengd milli lóðlína (perukverk) 45.10 m.
Breidd (mótuð) 11.90 m.
Dýpt að efra þilfari 7.23 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.83 m.
Eigin þyngd 1.273 tonn.
Særými (djúprista 4.83 m) 1.741 tonn.
Burðargeta (djúprista 4.83 m) 468 tonn.
Lestarrými 600 m 3.
Brennsluolíugeymar 305.3 m 3.
Ferskvatnsgeymir 19.7 m 3.
Sjókjölfestugeymir 32.0 m 3.
Andveltigeymir
(brennsluolía/sjór) 36.7 m 3.
Brúttótonnatala 1.199 BT.
Rúmlestatala 598 Brl.
Skipaskrámúmer 2182.

Ægir. 10 tbl. 1 október 1992.





Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30