07.04.2019 10:06
V. b. Aðalbjörg MB 30. TFKO.
Nýr bátur
Laugardaginn 20. apríl kom til Akraness nýr bátur Aðalbjörg
M.B. 30. Bátur þessi er einn hinna svonefndu Svíþjóðarbáta, og festi
bæjarstjórnin upphaflega kaup á tveim þessara báta, sem síðar voru látnir af
hendi við einstaklinga í bænum. M.b. Aðalbjörg er eign Þorvaldar Ellerts
Ásmundssonar, skipstjóra. Báturinn er byggður hjá Bröðr. Jóhansson í Djupvik,
og er mældur þar 55 tonn. Vélin er 170 H.K. Atlas-Polar díeselvél, en
ljósavélin er 10 Hk. Bolinder. Í bátnum er ágætt rúm fyrir skipverja, bæði
framí og afturí. Stýrishúsið er stórt, með áföstu herbergi fyrir skipstjórann.
Vélin er snarvent, sett í gang í stýrishúsinu og stjórnað þaðan. Hún hvað vera
auðveld í allri meðferð. Báturinn gengur 9 mílur. Hann er búinn öllum nýtízku
tækjum, svo sem: djúpmæli, talstöð, miðunarstöð, einnig óvenjulega sterkum
ljóskastara. Í honum er og fullkomin olíudrifinn stýrisútbúnaður. Rafmagn er
fullkomið, og eru íbúðir aftur í, hitaðar með rafmagni. Vinna öll virðist vera
sérlega vönduð og lagleg. Elías Benediktsson sigldi bátnum heim með Ellert og
fleiri mönnum, en þeim fannst hann fara mjög vel í sjó. Bátnum fylgir og
fullkominn togútbúnaður, og fer hann nú fljótlega á þær veiðar. Ellert sagði að
ólíku væri saman að jafna um verðlag hér eða í Svíþjóð um þessar mundir. Á
þessari áminnstu skipasmíðastöð, þar sem þessi bátur var byggður, vinna nú 35
manns. 5 af þessum mönnum höfðu 1,60 um tímann, hinir frá 1,50 og allt niður í
0,80 um tímann. Fæði og húsnæði fyrir þá, meðan þeir stóðu við, var 7 kr. á dag
fyrir hvern þeirra.
Akranes. 4 tbl. apríl 1946.
Aðalbjörg AK 30 að landa síld hjá Sunnu á Siglufirði. Ljósmyndari óþekktur.
Hrefna EA 33. (C) Lúðvík Karlsson.
Hrefna RE 81. (C) Snorri Snorrason ?
Bátur
með sex manna áhöfn sekkur undan Stapa
Mannbjörg
varð
Í gærkvöldi kl. 22.45 sökk vélbáturinn Hrefna RE 81, 19-20 sjómílur undan Stapa, suður af Hellnanesi. Sex manna áhöfn var á bátnum og bjargaðist hún öll um borð í v b. Höfrung AK 91, sem væntanlegur var til Akraness kl. 2 í nótt. Hrefna RE 81 var áður Hrefna EA 33 (þar áður Aðalbjörg). Þetta er einn af Svíþjóðarbátunum, smíðaður úr eik árið 1946, 51 tonn að stærð. Morgunblaðið náði í gærkvöldi tali af Guðmundi Sveinssyni, skipstjóra á Höfrungi. Sagði hann Hrefnu hafa beðið um aðstoð kl. 20.30, því að báturinn væri að sökkva. Höfrungur var nærstaddur ásamt Gylfa ÍS og Bárði Snæfellsási, og héldu þeir allir á staðinn. Þegar Hrefna sendi aðstoðarbeiðnina út, streymdi sjór inn í bátinn, og sáu skipverjar, að ekki yrði við ráðið. Skipstjóri á Hrefnu var Einar Guðjónsson, og auk hans fimm menn á bátnum. Þegar Höfrungur kom á staðinn, var áhöfnin komin í tvo gúmmíbáta. Var þeim öllum bjargað um borð í Höfrung, en Hrefna sökk rétt á eftir. Sökk hún mjög hratt síðustu mínúturnar. Gott var í sjóinn, en alda hafði verið fyrr um daginn. Gúmmíbátarnir reyndust báðir í góðu lagi. Bæði skipin voru þarna á humarveiðum.
Morgunblaðið. 28 júlí 1964.