08.04.2019 14:17

371. Draupnir ÍS 485. TFLW.

Vélbáturinn Draupnir ÍS 485 var smíðaður hjá William H Jansens Badebyggeri í Bröns Odde í Vejle í Danmörku árið 1958 fyrir útgerðarfélagið Hring hf. á Suðureyri við Súgandafjörð. Eik. 71 brl. 310 ha. Alpha vél. Seldur 5 júní 1969, Meitlinum hf. í Þorlákshöfn, hét Klængur ÁR 2. Ný vél (1971) 400 ha. Lister vél. Seldur 26 febrúar 1974, Sveini Stefánssyni í Kópavogi, hét þá Erlingur RE 65. Seldur 10 febrúar 1977, Halldóri Halldórssyni á Seltjarnarnesi og Magnúsi Jónssyni í Keflavík, hét Einir RE 177. Seldur 16 nóvember 1978, Hermanni Haraldssyni og Tryggva Gunnlaugssyni á Djúpavogi, hét Einir SU 18. Hét Einir SU 181 frá 30 júlí 1980. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 2 desember árið 1980.


371. Draupnir ÍS 485 á Siglufirði.                                                        (C) Hannes J Baldvinnsson.

                Draupnir ÍS 485

Vélbáturinn Draupnir er smíðaður í Vejle í Danmörku, kom til Suðureyrar fyrir jólin. Báturinn er 70 rúmlestir að stærð, búinn öllum fullkomnustu nútímatækjum. Eigandi er hlutafélagið Hringur, framkvæmdastjóri Jóhannes Þ. Jónsson kaupfélagsstjóri, formaður stjórnar hlutafélagsins er Sturla Jónsson, og skipstjóri er Samúel Guðnason.

Ægir. 3 tbl. 15 febrúar 1959.


Draupni ÍS hleypt af stokkunum hjá William Jansen í Vejle 1958.   (C) Handel & Söfartmuseet.dk


Draupnir ÍS 485 á siglingu.                                                                           Ljósmyndari óþekktur.

       Suðureyri við Súgandafjörð

Fólksfækkun á Suðureyri hefir verið stöðvuð með hafnarframkvæmdum og aukinni útgerð. Nú flytur fólkið til Suðureyrar en ekki burt þaðan. Og hér er urmull af börnum. Það gerir steinbítsátið á veturna. Sturla Jónsson, formaður Kaupfélags Súgfirðinga og fyrrum oddviti, rabbaði við fréttamann um daginn og veginn á Suðureyri. - Þið lifið á kjarnafæðu . . . ? - Hér er sitt af hverju betra en annars staðar. Ef þú herðir fisk í Reykjavík, þá verður hann hundaskítur þar, en hunangsmatur hér, og eins og þetta geti ekki verkað á mannskepnurnar? - Þú minntist á börnin. Hvað um barnaskólann nýja? - Hann var vígður 25. október við mjög hátíðlega athöfn. Skólinn er talinn kosta 16-17 hundruð þúsund. Húsið er 229 fermetrar, tvílyft með þrem skólastofum, kennaraherbergi o. fl. Þeir ætluðu að hengja mig út af þessari fjárfestingu, en nú er þetta um garð gengið. - Og skólastjóri er ? - Jón Kristinsson. Læknirinn og presturinn kenna, og von er á kennslukonu úr Reykjavík. Súgandafjörður var nýlega gerður að sérstöku læknishéraði. Við gerum ráð fyrir að byggja Iæknisbústað að vori. - Og þorpsbúum fjölgar ört?  -Já , mannfjöldinn var tæp 400 fyrir áramótin 1956--'57. Síðan hafa flutzt hingað nokkrar fjölskyldur um 20-30 manns.
- Þið eruð að bæta við skipastólinn ? - Við fengum tvo í vetur, Friðbert Guðmundsson og Draupni. Það er 70 tonna skip, heitir eftir Draupni, sem ég átti í 25 ár.
Friðbert Guðmundsson er 66 tonna eins og Freyja, sem kom hingað í vor. Allir þessir bátar eru smíðaðir í Danmörku, Draupnir í Vejle, hinir í Frederikssund. Eldri bátarnir eru síðan 1954-'55. Draupnir er sá sjöundi í röðinni. Auk þess höfum við leigt bát til flutninga. - Þið sláið ekki slöku við skipakaupin. - Við lifum á sjósókn og getum ekki verið bátlausir. - Og hafið getuna til að borga? Sturla brosir. Svarar ekki spurningunni, enda gerist þess ekki þörf. Þeir á Suðureyri kaupa ekki báta til að horfa á þá, en afla verðmæta, sem gefa fé í aðra hönd. Með dugnaði hefir þeim tekizt að afla sér fleiri skipa en gerist í öðrum verstöðvum á skömmum tíma. - Hver er eigandi Draupnis? - Það er Hrignur h.f., nýstofnað hlutafélag. Kaupfélagið er stærsti hluthafinn. Félagið nytjar aflann sjálft. Það keypti frystihús af mér; þar var gamla rækjuverksmiðjan. - Verður þá hætt við rækjuvinnsluna? - Það er mér ómögulegt að segja um. Geri ráð fyrir, að rækjuvinnsla hefjist þar aftur engu síður þótt þetta félag eigi hlut að máli. - Og hver er framkvæmdastjóri ? - Kaupfélagsstjórinn, Jóhannes Jónsson. - Hvað er þetta stórt frystihús? - Það er minnsta frystihús á Íslandi. Ég frysti einu sinni 96 kassa yfir daginn. Geymsluplássið var stækkað um helming í sumar. Má reikna með, að 10-11 manns vinni þar í framtíðinni. Fiskherzla og söltun eru í sambandi við húsið. Hjallar fyrir 10-100 tonn miðað við blautfisk. -
Hvað um hinar fiskvinnslustöðvarnar ? - Fiskiðjan Freyja hefir tekið afla af einum bát í söltun og herzlu á vertíðinni. Þeir hafa síldarsöltun og söltuðu á fimmta þúsund tunnur í sumar að mér er sagt. Annan sinn afla hafa þeir selt frystihúsinu Ísveri, sem er rekið af samnefndu hlutafélagi. Þrír til fjórir bátar hafa lagt upp hjá Ísveri á vertíð. Vinnslugeta er milli 30-40 tonn á dag. Ísver hefir gert út bát, og Hermann Guðmundsson og Óskar Kristjánsson gera út nótabátinn Frey, nýlegan bát, smíðaðan í Svíþjóð, 51 tonn. -Hvað um hafskipabryggjuna ? -Henni var lokið á árinu 1956. En hér eru óleyst vandamál. Til dæmis er legan of grunn fyrir þessa stóru báta. Þyrfti helzt bátakví. - Og aðrar opinberar framkvæmdir? - Það er félagsheimilið. Nú vantar aðeins herzlumuninn til að það sé fullgert. Hreppurinn hefir lagt þessu húsi að einum þriðja; aðrir eigendur eru verkalýðsfélagið, íþróttafélagið, kvenfélagið, skátafélagið og stúkan Dagrún. - Hvað um vegamálin, Sturla? - Vestfirðingar telja sér það eiginlega til skammar, að enn þá skuli vera sýslur á Vestfjörðum, sem ekki hafa verið tengdar vegakerfi landsins. Það ætti að vera nægileg vísbending um áslandið í vegamálunum. Annar Súgfirðingur, sem fréttamaður hafði tal af, var Þórður Þórðarson, fyrrum símstöðvarstjóri. Þórður lýsti ánægju sinni yfir öllum þeim framförum, sem orðið hafa á Suðureyri, einkum nýju skipunum. - Ég held það sé dálítil lyftistöng í þessu öllu saman, sagði Þórður. Þórður hefir stundað sjó sem aðrir Súgfirðingar. Byrjaði á 16. árinu og hélt það út í 30-40 ár. Hann var í hákarlalegum og býst við að þau vinnubrögð mundu þykja harkaleg nú á dögum. - Ekki að tala um annað en liggja úti og mæta hverju veðri. - Hann þótti góður hákarlinn, en nú er hann að hverfa. Nú geta þeir lagt 150 lóðir yfir sólarhringinn og sést ekki hákarl, en um aldamótin mátti ekki leggja 30 lóðir svo hákarlinn eyðilegði þær ekki og biti allt í sundur. Ég hef ekki heyrt þá leggja það fyrir sig, fiskifræðingana, hvað er orðið af honum. Hvað höfðuð þið í hákarlabeitu ? --- Hérna var beitt sel og hestaketi meikuðu í rommi. Þeir helltu svona potti af rommi ofan í sel og súrruðu fyrir báða enda, kjaftinn og rassinn. Svo var hann geymdur og skorinn niður í beitu og það var sterk sæt lykt af honum. Þetta var brúkað. Að lokum spurði undirritaður Pétur um álit hans á togveiðum Breta í landhelgi úti fyrir Vestfjörðum, en þá voru þær enn í fullum gangi. - Ég skil ekki, að þeir haldi það út, sagði Pétur. - Norðaustanbyljirnir. Togurum þótti alls ekki við vært hér út af Djúpál í slíkum veðrum. - Já, það er margt, sem kemur fyrir þá, sem bágt er. Og ekki eftirsóknarvert að standa í þessu fyrir skipsmennina. Hann hefir nú verið vanur að koma norðangarðurinn, sérstaklega þegar kemur fram á vetur. Það var óskaplegt, þegar þeir fórust hérna norður af Horninu, það var óhemju þá.

Tíminn. 14 janúar 1959.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30