27.04.2019 08:10

Helgi Flóventsson ÞH 77. TFJX.

Vélskipið Helgi Flóventsson ÞH 77 var smíðaður hjá Ottesen Skibsbyggeri í Saagvag í Noregi árið 1960 fyrir útgerðarfélagið Svan á Húsavík. Eik. 109 brl. 300 ha. Wichmann vél. Skipið fórst um 4,5 sjómílur norðvestur af Langanesi 4 ágúst árið 1961. Áhöfnin, 11 skipverjar, björguðust í gúmmíbjörgunarbát. Það var síðan vélbáturinn Stígandi ÓF 25 frá Ólafsfirði sem bjargaði mönnunum til lands. Helgi var á síldveiðum og var á landleið með fullfermi þegar mikil slagsíða kom að honum með fyrrgreindum afleiðingum.


Helgi Flóventsson ÞH 77 á siglingu.                                                                   (C) Snorri Snorrason.

           Nýr bátur til Húsavíkur

Húsavík í gær:
Um helgina kom hingað nýr bátur, Helgi Flóventsson ÞH 77, en nafni hans, sem var hér fyrir, hefir verið seldur suður og hlotið nýtt nafn og númer. Eigandi hins nýja báts er Svanur h.f. Er hann 112 smálestir, byggður hjá Ottesen Skibsbyggeri í Saagvág á eynni Stord skammt frá Bergen. Skipið er byggt samkvæmt reglum "Norsk Veritas" (klassa A 1 for havfiske) og Skipaskoðunar ríkisins. Vélin er af Wichmann-gerð, 400 hestöfl, og var ganghraði skipsins 11 sjómílur í reynsluferð, en til jafnaðar á heimleið 10.4 sjómílur. Í skipinu eru öll nýjustu og fullkomnustu fiskileitar- og öryggistæki, svo sem Simrad fiski- og síldarleitartæki, dýptarmælir, talstöð, ratsjá með 50 mílna sjónvídd og sérstöku stækkunargleri, "Koden" miðunarstöð, sjálfvirk. Stýrisútbúnaður allur sjálfvirkur. Olíudrifin spil, knúin með dælum. Í skipinu eru 4 klefar fyrir skipverja og íbúð fyrir skipstjóra. Í öllum íbúðum vaskar með heitu og köldu vatni, útvarpi og síma. Í dekkshúsi er matsalur og eldhús með ísklefa. Einnig snyrtiklefar. Skipið er allt mjög vandað að frágangi og hið stærsta, sem hingað til hefir verið í eigu Húsvíkinga. Hreiðar Bjarnason sigldi skipinu til Íslands og verður skipstjóri. I. vélstjóri er Sigþór Sigurðsson. Stýrimaður Kristbjörn Árnason. Eftirlitsmaður við byggingu skipsins var Helgi Bjarnason útgerðarmaður. Helgi Flóventsson er nú farinn til veiða við Suðurland og leggur afla sinn upp í Keflavík.

Íslendingur. 10 tbl. 11 mars 1960.


Helgi Flóventsson ÞH 77. Líkan Gríms Karlssonar.                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa.

    Báturinn á hliðina á 4 mínútum
       segir skipstjórinn á Helga Flóventssyni
           sem sökk út af Langanesi í gær
   
  
"Ekki liðu nema 4-5 mínútur frá því við urðum fyrst varir við, að báturinn var farinn að hallast þar til hann var kominn alveg á hliðina og möstrin námu við sjó", sagði Hreiðar Bjarnason skipstjóri á Helga Flóventssyni ÞH 77, í símtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. Eins og kunnugt er sökk Helgi Flóventsson um 4,5 sjómílur norðaustur af Langanesi kl. rúmlega 4,30 í gærdag. Áhöfnin, 11 manns, bjargaðist öll í gúmmíbát skipsins og síðan yfir í vélbátinn Stíganda frá Ólafsfirði, sem flutti mennina til Raufarhafnar, en þangað komu þeir um kl. 9 í gærkvöldi.- Hvað haldið þið, að komið hafi fyrir? spurði blaðamaðurinn skipstjórann. - Þetta bar allt svo skjótt að, að maður gat naumast gert sér grein fyrir, hvað var að gerast. Hið eina, sem við getum ímyndað okkur, að gerzt hafi, er, að skilrúmið fram í lúkarinn hafi sprungið. Annars er maður eiginlega ekki búinn að átta sig á þessu. - Þú sagðir, að þetta hafi allt ,gerzt í mjög skjótri svipan. Á hve löngum tíma heldurðu? - Það liðu ekki nema 4-5 mínútur frá því við urðurn fyrst varir við, að báturinn var farinn að hallast, þar til hann var kominn alveg á hliðina og möstrin námu við sjó.
Honum hvolfdi alveg nokkru eftir að við vorum komnir yfir í björgunarbátinn. Og sokkinn var hann eftir 15-20 mínútur, en þá vorum við komnir yfir í Stíganda. - Fór nokkur í sjóinn? - Já, 1 maður fór í sjóinn, en honum var fljótlega bjargað uppí gúmmíbátinn til okkar hinna. - Líður ekki öllum vel? - Jú, þakka þér fyrir. - Hvernig var veðrið? - Það var hálf slæmt, norðaustan 6. - Þið voruð með talsverðan afla? -Já, við voruim með 7-800 mál, þar af 200-300 mál á dekki.
Einar Jónsson, hreppstjóri á Raufarhöfn, yfirheyrði skipstjórann á Stíganda, þegar báturinn kom þangað í gærkvöldi. Hafði Stígandi verið á leið frá Ólafsfirði austur fyrir land. En þegar hann var staddur 4-5 sjómílur norðaustur af Langanesi um kl. 4.30 mætti hann Helga Flóventssyni. Sáu skipverjar á Stíganda, að hann hallaðist óeðlilega mikið á stjórnborða, en var að beygja upp á bakborða til þess að reyna að rétta sig af. Örskömmu síðar féll Helgi alveg á síðuna, en þá var Stígandi kominn að honum. Þegar hér var komið, setti skipshöfnin á Helga Flóventssyni út gúmmíbjörgunarbát sinn og gátu allir skipverjar stokkið niður í hann, nema einn, sem lenti í sjónum, en náðist þó fljótlega upp í bátinn, sem fyrr segir. Stígandi fór svo nærri Helga sem hann taldi ráðlegt, en ekki vildi skipstjórinn leggja alveg upp að honum af ótta við að nótin, sem var á floti, lenti í skrúfu Stíganda. Gekk síðan mjög greiðlega að ná mönnunum upp úr bátnum. Var haldið rakleiðis til Raufarhafnar, en þegar þangað kom um kl. 9 var mikill mannsöfnuður saman kominn á bryggjunni til þess að taka á móti skipbrotsmönnunum. Skipverjar á Helga Flóventssyni fóru til Húsavíkur í gærkvöldi, og munu sjópróf hefjast þar í dag.
Helgi Flóventsson var nýr bátur, smíðaður í Noregi í fyrra, 109 lestir brúttó. Var hann talinn mjög traustbyggður. Eigandi er Svanur hf. á Húsavík. Báturinn hefur verið á síldveiðum í sumar og mun hafa fengið um 9.000 mál og tunnur. Skipstjórinn, Hreiðar Bjarnason, er alþekktur dugnaðarmaður. 

Morgunblaðið. 5 ágúst 1961.


Flettingar í dag: 965
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1194740
Samtals gestir: 83790
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:53:57