02.05.2019 06:41

Ármann SH 165. TFES.

Vélbáturinn Ármann SH 165 var smíðaður í Skipasmíðastöð Nóa Kristjánssonar á Akureyri árið 1947 fyrir Ríkissjóð Íslands. Hét fyrst Ægir GK 350. Eik. 37 brl. 140 ha. Mirrlees vél. Seldur 9 apríl 1948, Útgerðarfélagi Grindavíkur hf. Seldur 8 nóvember 1954, Ægi hf á Hellissandi, hét þá Ármann SH 165. Ný vél (1956) 200 ha. Alpha vél. Mikill eldur kom upp í bátnum 1 september árið 1961. Var hann þá á leið til Stykkishólms. Réðu skipverjar ekkert við eldinn og var þá ákveðið að sigla bátnum upp á grynningar við Hnífsey á Breiðafirði. Áhöfnin, 3 menn, komust í gúmmíbát og þaðan upp í eyna, þar sem þeir biðu björgunar. Ármann SH gereyðilagðist í brunanum.


Ármann SH 165.                                                                                            Ljósmyndari óþekktur.

   Fjórir bátar í smíðum á Akureyri

Frá frjettaritara vorum á Akureyri.
Til viðbótar frjett í blaðinu í gær, um skipabyggingar, sem nú er verið að vinna að, barst blaðinu í gærmorgun skeyti frá frjettaritara blaðsins á Akureyri. Þar eru fjórir bátar í smíðum í skipasmíðastöð Kr. Nóa Kristjánssonar. Bátar þessir eru smíðaðir á vegum ríkisstjórnarinnar. Einn þeirra er nær því fullsmíðaður. Tveir svo langt komnir að hægt er að setja í þá vjel. Fjórða bátinn er búið að bandreisa. Allir eru þeir 36 rúmlestir að stærð.

Morgunblaðið. 31 ágúst 1946.


"Nýsköpunarbátarnir" á fjörukambi á Oddeyri á Akureyri.                                  Mynd úr Degi.

      "Nýsköpunin" á Tanganum

Myndin er af "nýsköpunarbátunum" sem nú hafa senn staðið í full tvö ár fullsmíðaðir á Oddeyrartanga. Bátar þessir eru í hópi þeirra 35 tonna báta, sem Áki Jakobsson ákvað að láta smíða fyrir reikning ríkisins í tíð ,,nýsköpunar"-stjórnarinnar. Erfiðlega hefur gengið með sölu á þeim og mun ríkið verða fyrir stórkostlegu tjóni á þeim framkvæmdum öllum. Bátarnir á myndinni eru smíðaðir á skipasmíðastöð Kr. Nóa Kristjánssonar. Mun einn þeirra nú vera seldur til Grindavíkur, en hinir fá sjálfsagt að rifna í sólinni enn um hríð. Það er nú upplýst, að smíðakostnaður á bátum, sem smíðaðir vöru í skipasmíðastöð þeirri er Áki kom á fót í sambandi við Landssmiðjuna, varð rösklega 70% hærri en á öðrum bátum. Má af því sjá hvert happ það hefur verið fyrir ríkið, að Áki neitaði skipasmíðastöð KEA um að smíða slíka báta, en fól allt verkið Landssmiðjunni. Ríkissjóður og útvegsmenn bera kostnaðinn af þessum ráðleysisaðgerðum.

Dagur. 1 apríl 1948.


Ægir GK 350. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Ægir GK 350. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Ármann SH 165 alelda í Hnífsey á Breiðafirði.                   (C) Alþýðublaðið.

   Brennandi bát siglt á grynningar
          við Hnífsey á Breiðafirði

Laust fyrir hádegi í gær kom upp eldur í vélarrúmi á mb. Ármanni SH 165 frá Hellissandi, þar sem báturinn var staddur á Breiðafirði. Varð ekkert við eldinn ráðið, og tók skipstjórinn, Eggert Sigurmundsson, það til bragðs að loka hlerum að vélarrúmi og sigla upp í fjöru í Hnífsey. Bjargaðist skipstjórinn og tveggja manna áhöfn upp í eyna, en er þangað kom var hitinn orðinn óbærilegur í brúnni. Brann báturinn á grynningum við Hnífsey, og var enn eldur í honum um áttaleytið í gærkvöldi, en siglur stóðu þó enn. Er báturinn talinn gjörónýtur. Er eldsins varð vart, kallaði skipstjóri í talstöðina og skýrði frá hversu komið væri. Heyrðist kallið á Brú í Hrútafirði, og var talið að bátur væri í nauðum staddur á Húnaflóa. Leitaði gæzluflugvélin Rán þar í gærdag, en varð að sjálfsögðu einskis vísari. - Maður hefur enga hugmynd um út frá hverju kviknaði, sagði Eggert Sigurmundsson, skipstjóri, er Mbl. náði tali af honum í gærkvöldi. - Við höfðum ágætan gúmmíbát, sem við notuðum síðasta spölinn, og reyndist vel. Við hefðum bjargazt um borð í gúmmíbátinn, þótt kviknað hefði í lengra frá landi, en hinsvegar er ekki að vita hvernig hefði gengið að finna gúmmíbátinn. - Var hitinn ekki orðinn mikill í brúnni? - Það var orðinn mikill hiti þar og reykur. Það var rétt svo að ég hélzt þar við á meðan við vorum að komast í land.
Nánari atvik voru þau, að Eggert varð var við smábresti er báturinn var staddur skammt frá Tveggjalampahólma á Breiðafirði. Var Eggert við stýri í brúnni en Alfreð Lárusson, vélstjóri var í káetu fyrir aftan vélarúm og hásetinn, Jón Þorleifsson var frammi í lúkar.
Er Eggert skipstjóri opnaði hlera yfir vélarrúminu, gaus þar upp mikill hiti og reykur. Kallaði hann þá til vélstjóra og háseta, en vélstjórinn mun hafa orðið eldsins var í sama mund. Réðust skipverjar að eldinum með tveimur slökkvitækjum, en hann virtist magnaðastur undir káetugólfi og upp með skilrúmi milli vélarrúms og káetu. Slökkvitækin megnuðu ekki að vinna á eldinum, og ekki heldur sjóaustur. Tók Eggert skipstjóri þá til bragðs að loka hlerunum og káetu og vélarrúmi, og sömuleiðis voru loftventlar að vélarrúmi byrgðir. Ákvað skipstjóri að reyna að komast þannig áleiðis, og jafnvel til Stykkishólms, áður en eldurinn læsti sig um allan bátinn. Ekki hafði lengi verið siglt er skipstjóri sá fram á að hann mundi ekki komast langt, og ákvað hann því að setja bátinn á land í Hnífsey. Á meðan þessu fór fram höfðu vélstjórinn og hásetinn blásið út sex manna gúmmíbát, og undirbúið að þurfa að yfirgefa skipið í flýti. Um það leyti að báturinn kenndi grunns við Hnífsey var hitinn og reykjarsvælan orðin óbærileg í stýrishúsi. Var þá gúmmíbátnum skotið út, og farangri skipsmanna fleygt þar í. Fóru mennirnir þrír í bátinn, en vindur stóð á eyna og rak þá til lands. Um mínútu eftir að mennirnir tóku land á eynni, sprungu rúðurnar í stýrishúsinu af hitanum.
Reykurinn frá hinum brennandi bát á grynningunum við Hnífsey sást frá Staðarbakka og var hringt þaðan í hafnsögumanninn í Stykkishólmi, Bergsvein Jónsson, og sótti hann skipverja út í Hnífsey á trillubát um eittleytið. Sjópróf fóru fram í Stykkishólmi í gær. Skýrði Haraldur Jónasson fulltrúi Morgunblaðinu svo frá í gærkvöldi, að eldsupptök væru enn ókunn, en málið væri ekki að fullu rannsakað enn. Í ljós kom að skipstjóri kallaði upp í talstöðina skömmu eftir að hann varð eldsins var, og skýrði frá ástandinu um borð. Hætti hann að kalla þegar ekki var svarað, en hinsvegar mun kallið hafa heyrst að Brú í Hrútafirði, sem gerði Slysavarnafélaginu aðvart. Var talið að bátur væri í nauðum staddur á Húnaflóa, og hélt gæzluflugvélin Rán þangað frá Reykjavík og leitaði lengi dags, en varð einskis vísari.
M.b. Ármann var rúmlega 37 brúttótonn, eign Ægis h.f. Báturinn var byggður á Akureyri 1947 af Nóa Kristjánssyni, úr eik og furu. Talið er að báturinn hafi brunnið ofan í kjöl, því flóð var er hann tók niðri, en síðan fjaraði út. M.b. Ármann var tryggður fyrir 1,3 milljón, sem er um helmingur þess, sem nýr bátur af sömu gerð mundi kosta.

Morgunblaðið. 2 september 1961.




Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30