03.05.2019 09:18

559. Helga TH 7. TFWE.

Vélbáturinn Helga TH 7 var smíðuð hjá Frederikssund Skibsverft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1956 fyrir Hreifa hf á Húsavík. Eik. 55 brl. 265 ha. Alpha vél. Seldur 26 janúar 1962, Útgerðarfélagi Höfðakaupstaðar hf, hét Helga Björg HU 7. Seldur 1 júní 1965, Páli Jónssyni sf í Reykjavík, hét Páll Jónasson HU 44. Seldur 22 júlí 1968, Guðjóni Björnssyni og Jóhanni Guðjónssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Þristur VE 6. Seldur 8 júní 1972, Birni Gústafssyni og Friðrik Kristjánssyni á Akranesi, hét Þristur AK 120. Seldur 30 ágúst 1973, Jóhanni Guðjónssyni og Guðjónssyni í Vestmannaeyjum, hét þá aftur Þristur VE 6. Ný vél (1976) 455 ha. Caterpillar vél. Seldur 11 febrúar 1980, Herði Jóhannssyni á Eyrarbakka, hét Sæbjörn ÁR 15. Báturinn fór í úreldingu og var brenndur í Helguvík 26 mars árið 1982.


559. Helga TH 7 á leið til hafnar.                                                                Ljósmyndari óþekktur.


Helgu TH 7 hleypt af stokkunum hjá Frederikssund Skibsverft.                     Ljósmyndari óþekktur.

   Nýr bátur til Húsavíkur á jóladag

Á jóladag kom hingað til Húsavíkur nýr bátur er smíðaður hefur verið í Fredrikssund í Danmörku . Eigendur bátsins, sem hlotið hefur nafnið Helga, TH-7, er hlutafélagið Hreyfi á Húsavík. Framkvæmdastjóri þess er Jón Héðinsson. Skipstjóri bátsins er Maríus Héðinsson og sigldi hann bátnum heim. Ferðin hingað frá Fredrikssund gekk mjög vel. Var báturinn 6 sólarhringa á leiðinni og þar með einum degi fljótari í ferðum en gert var ráð fyrir. Vélamaður var Sigurður Jónsson. Fékk Helga góðan meðvind frá Færeyjum. Báturinn er smíðaður úr eik. Teikningu gerði Egill Þorfinnsson í Keflavík, en gerðar voru smávegis breytingar á fyrirkomulagi ofan þilfars, að tilhlutan eigendanna . Er bátnum skipt í þrjú vatnsheld hólf. Er hann mjög vandaður að öllu leyti. Hann er útbúinn dýptarmæli með asticútfærslu, miðunarstöð og talstöð. Aðalvélin er Alfa-dieselvél 240/60 hestafla með tveim sjálfvirkum Boss-rafölum. Þá er 10 hestafla ljósavél í bátnum. Ganghraði er 10 sjómílur á klukkustund.

Morgunblaðið. 30 desember 1956.


Skipverjar að landa góðum síldarafla. Skipstjórinn, Maríus Héðinsson fylgist með.


Helga TH 7 í höfn á Húsavík ásamt mörgum öðrum síldarbátum.               Ljósmyndari óþekktur.


559. Sæbjörn ÁR 15 brenndur í Helguvík 26 mars árið 1982.                       (C) Heiðar Baldursson.

        Brenndu bátinn í Helguvík  

"Skipið var ekki ónýtt, en skipaskoðunin fór fram á svo kostnaðasama viðgerð að það borgaði sig heldur að láta skipið hverfa," sagði Hörður Jóhannsson, skipsstjóri á Eyrarbakka sem var eigandi að bátnum sem brenndur var í Helguvík á föstudaginn var. Þeir í dráttarbrautinni í Keflavik töldu Helguvíkina vera ágætan stað fyrir þessa athöfn. Þarna hefði verið farið illa með aura landsmanna, því báturinn hefði verið á ágætu ástandi og siglingahæfur í nokkur ár í viðbót. Báturinn hét Sæbjörn ÁR 15, en áður Þristur, og var þá gerður út frá Vestmannaeyjum. Var hann 55 tonna eikarbátur byggður í Danmörku árið 1956. Var hann með nýlega vél, en eigandinn fékk að taka hana úr ásamt siglingatækjum og öðrum verðmætum áður en báturinn var dreginn í Helguvíkina. "Skipaskoðunin krafðist þess að gert yrði við byrðinginn á bátnum, stýrishúsið á honum var talið ónýtt og mannaíbúðir mjög lélegar," sagði Hörður, sem gert hafði Sæbjörn út frá Þorlákshöfn í 2ár. "Þessi viðgerð hefði kostað mig um 3 milljónir króna en með því að Iáta bátinn hverfa fékk ég endurgreitt úr aldurslaga- og úreldingasjóði. Ég fékk ekki það út úr bátnum sem ég taldi mig eiga og hef tapað um einni milljón á þessu," sagði Hörður.
Sæbjörn er 66. skipið sem greitt er upp af úreldingasjóði á sl. þrem árum. Sjóður þessi fær 3% tekjur af útflutningsgjöldum sjávarafurða og má því segja að skipin sem komi hér með afla að landi leggi um leið inn á eigin útfararsjóð.

Dagblaðið  Vísir. 31 mars 1982.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30