09.05.2019 08:33

1002. Gísli Árni RE 375. TFEH.

Vélskipið Gísli Árni RE 375 var smíðaður hjá Kaarbös Mekanik Verksted í Harstad í Noregi árið 1966 fyrir Sjóla hf (Einar Árnason útgerðarmann og Eggert Gíslason skipstjóra) í Reykjavík. 355 brl. 700 ha. Wichmann vél. Skipið var endurmælt í janúar 1970 og mældist þá 296 brl. Skipið var lengt og yfirbyggt í Noregi 1973 og mældist þá 336 brl. Ný vél (1977) 1.500 ha. Wichmann vél. Skipið var selt 23 febrúar 1988, Fiskimjöli & Lýsi hf í Grindavík, hét þá Sunnuberg GK 199. Sama ár stofna Þorbjörn hf og Fiskimjöl & lýsi í Grindavík, nýtt útgerðarfélag, Sigluberg hf í Grindavík um útgerð loðnuveiðiskipanna Hrafns GK 12, Hrafns Sveinbjarnarsonar lll GK 11 og Sunnubergs GK 199. Skipið var lengt árið 1990 og mældist þá 385 brl. Selt 11 ágúst 1997, Tanga hf á Vopnafirði, hét þá Sunnuberg NS 199. Árið 1999 er nafni skipsins breytt, hét þá Arnarnúpur ÞH 272. Seldur árið 2000, S.R. Mjöli hf í Reykjavík. Arnarnúpur ÞH kemst í eigu Síldarvinnslunnar hf í Neskaupstað árið 2003, þegar þeir kaupa S.R. Mjöl hf. Skipið var selt til Nýfundnalands 10 febrúar árið 2004 og fékk nafnið Sikuk hjá hinum nýju eigendum.


1002. Gísli Árni RE 375.                                            (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

        Stærsti síldarbátur flotans
           kom til landsins í gær 

Stærsti síldarbátur hér á landi, Gísli Árni RE 375, kom hingað í fyrrinótt frá Harstad í Norður-Noregi, en þar var hann smíðaður í Kaarbös Mek. Verksted. Báturinn lá við bryggju á Grandagarði í gær, allur klakaborinn, því að mikil ísing hafði setzt á hann síðasta sólarhringinn. Þetta er hið tignarlegasta skip og vakti forvitni manna í glampandi síðdegissólinni. Eigandi hins nýja báts er  Sjóli h.f., þ. e. Einar Árnason útgerðarmaður og Eggert Gíslason, skipstjóri á Gísla Árna. Vísir ræddi við Eggert skipstjóra í tilefni af komu bátsins. Gísli Árni er 355 lestir, 39 m. að lengd og 8 m. að breidd. Vélin í bátnum er Vickmann, 700 hestöfl, þekkt og góð vél, og gengur báturinn 11 sjómílur á klukkustund. Ýmsar nýjungar eru í bátnum, sem ekki er enn almennt farið að taka í notkun í flotanum, svo sem eins og yfirbyggt þilfar bakborðsmegin. Er það vinnupláss til að salta síld og þorsk. Þá er ennfremur síldarvél, sem haussker og slógdregur síld og afkastar 40 tunnur á klst. Það er alger nýjung hér á Íslandi. Ennfremur er nótapláss fyrir vara nót niðri á aðaldekki og jafnvel hægt að kasta nótinni þaðan. Þetta er til mikils hagræðis: "Ekki eins mikil yfirvigt", sagði Eggert skipstjóri. Tvö asdic-tæki af nýjustu og stærstu gerð eru í bátnum, talstöð og dýptarmælir, allt af Simradgerð.
Gísli Árni kostaði tæpar 18 milljónir króna, en eins og áður er sagt, er hann stærsti sfldarbátur flotans fram að þessu, en gerðir hafa verið samningar um nokkra stærri báta fyrir íslenzka flotann. Eggert sagði, að þeir hefðu látið úr höfn í Noregi sl. sunnudagskvöld og verið rúma fjóra sólarhringa á leiðinni. "Við fengum storm og kulda síðasta sólarhringinn og settist mikil ísing á bátinn, og urðum við að berja ísana með sérstökum járnstöngum, sem ég lét smíða fyrir bátinn". "Hvernig fór báturinn í sjó?" "Það var ekkert athugavert við hann, hvað það snerti. Hann fór vel í sjó". "Hvenær prófið þið bátinn í alvöru?" "Við hugsum okkur að fara á morgun, bara að reyna græjurnar og vita hvernig þetta allt virkar. Við förum náttúrlega út með þorskanót, en það er allt dautt eins og er". Eggert Gíslason hefur, sem kunnugt er, verið aflakóngur æ ofan í æ. "Nokkur skipti", sagði hann að vísu, þegar hann var spurður að því, og vildi helzt eyða því tali. Áhöfnin á Gísla Árna er 14 manns. Stýrimaður er Árni Guðmundsson. Fyrsti vélstjóri er Hjalti Þorvarðarson. Umboðsmaður bátsins er Eggert Kristjánsson, stórkaupmaður.

Vísir. 26 mars 1966.


Gísli Árni RE 375 við bryggju í Neskaupstað.                              Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Gísli Árni RE 375 á leið til hafnar með fullfermi.                                        (C) Magnús Þorvaldsson.

  Tvö aflaskip keypt til Grindavíkur

Fiskimjöl og Lýsi h.f. í Grindavík hefur keypt og tekið við hinu mikla aflaskipi Gísla Árna RE 375. Þá er vitað um aðila í Grindavík sem hafa sýnt áhuga á að kaupa loðnuskipið Magnús frá Neskaupstað. Gísli Árni, sem er eitthvert aflasælasta skipið í eigu íslendinga, er byggður úr stáli í Noregi 1966 og hefur síðan verið bæði lengdur og yfirbyggður og mælist nú 336 tonn. Aðaleigandi skipsins og fyrrum skipstjóri þess er hin frækna aflakló úr Garðinum, Eggert Gíslason. Magnús NK er 252 tonna skip, byggt 1967, og hefur einnig bæði verið lengt og yfirbyggt. Er vitað um nokkra aðila af Suðurnesjum sem sýnt hafa áhuga á að kaupa það skip, þ.á.m. Þorbjörn h.f. í Grindavík.

Víkurfréttir. 8 tbl. 25 febrúar 1988.


1002. Sunnuberg GK 199 með nótina á síðunni.                                     (C) Sigurður Bergþórsson.


1002. Arnarnúpur ÞH 272 við bryggju á Akureyri.                   (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

               Arnarnúpur farinn

Arnarnúpur ÞH-272, sem var í eigu Síldarvinnslunnar, hefur verið seldur til Nýfundnalands. Skipið, sem upphaflega hét Gísli Árni RE-375, hélt frá Reyðarfirði til St John í fyrradag. Skipið mun hér eftir bera nafnið Sikuk sem þýðir ís.

Fréttablaðið. 12 febrúar 2004.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30