1526. Ýmir HF 343. TFUG."/>

21.05.2019 10:16

1526. Ýmir HF 343. TFUG.

Skuttogarinn Ýmir HF 343 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1971 fyrir Richard Irvin & Sons Ltd í Aberdeen, hét fyrst Ben Lui A 166. 449 brl. 1.650 ha. British Polar vél, 1.214 Kw. 48,80 x 10,09 x 6,71 m. Smíðanúmer 364. Skipinu var hleypt af stokkunum hinn 30 desember árið 1970. Seldur 20 nóvember 1978, Stálskip hf í Hafnarfirði, fékk nafnið Ýmir HF 343. Togarinn var seldur til Spánar árið 1988 og var síðan gerður út frá Úrúgvæ, sama nafn. Mikill eldur kom upp í togaranum 10 apríl árið 1990. Var þá á veiðum um 37 sjómílur út af San Bernando við Buenos Aires í Argentínu. Togarinn var tekinn í tog til Montevideo í Úrúgvæ. Var gerður upp og seldur, óvíst hverjum. Togarinn sökk 13 júní árið 1992. Óvíst hvar og afdrif skipverja ókunn.


1526. Ýmir HF 343 við öldubrjótinn á Siglufirði.                                                 (C) Einar Sturluson.
 

     Nýr skuttogari til Hafnarfjarðar

Hlutafélagið Stálskip h/f, Hafnarfirði, hefir keypt 469 rúmlesta skuttogara frá Aberdeen í Skotlandi. Hið nýja skip ber nafnið Ýmir með einkennisbókstöfum HF 343. Skip þetta er 7 ára gamalt byggt í Aberdeen í Skotlandi eftir kröfum Lloyds-flokkunarfélagsins og er mesta lengd þess 48.7 m og breidd 10.0 m. Skip þetta hefir reynzt mjög gott sjóskip og var stærsta skip Richard Irvin & sons, sem gert var út frá Aberdeen. Engin lán fengust til kaupana úr opinberum sjóðum hér vegna ákvæða ríkisstjórnarinnar, samkvæmt upplýsingum frá Stálskip h.f.
Skipstjóri á Ými verður Sverrir Erlendsson, 1. vélstjóri Pétur Vatnar Hafsteinsson. Ýmir er væntanlegur til Hafnarfjarðar í dag. Stálskip h/f átti áður síðutogarann Rán GK 42.

Morgunblaðið. 21 nóvember 1978.


Skuttogarinn Ben Lui A 166 frá Aberdeen.                                                      Ljósmyndari óþekktur.
 

          Skozkur togari reyndi að                                sigla á Fylki NK

Rétt fyrir hádegi á þriðjudag reyndi skoski togarinn Ben Lui A 166 tvívegis að sigla á togbátinn Fylki NK 102, þegar báturinn var staddur 14 sjómílur suðaustur af Langanesi. Ben Lui er nýr skuttogari, 700-800 tonn og er fyrsti stóri skuttogarinn, sem Aberdeen menn eignast. Skipstjórinn á Fylki, Trausti Magnússon, Seyðisfirði, lýsti þessum atburði svo í viðtali við Þjóðviljann: "Var vont skyggni og þokuslæðingur á þessum slóðum, er brezki togarinn kom allt í einu að norðan og sigldi aðeins 40-50 metra fyrir framan stefnið á báti okkar. Áttum við réttinn, enda var togarinn á öfugum bógi við okkur. Við stöðvuðum bátinn til þess að forða árekstri og settum síðan á hæga ferð áfram og keyrði togarinn á undan okkur smástund. Allt í einu snarsnýr togarinn í bakborða og stefndi beint á síðu bátsins. Beygðum við þá undan honum á 10-11 mílna ferð og tilbúnir að setja á fulla ferð. Sneri togarinn þá frá okkur. Það var heldur óhuggulegt að verða fyrir þessum tilraunum togarans til þess að keyra okkur niður.
Maður veit aldrei hvað mikil alvara er á bak við svona tilraunir." Það atferli skipstjórans á Ben Lui, sem hér hefur verið lýst, er mjög hættulegt og vítavert. Við trúum því ógjarnan, að brezkir togaraskipstjórar séu glæpamenn, sem gera sér leik að því að sigla niður íslenzka fiskibtáa og drepa íslenzka sjómenn. Væri þá íslendingum illa launuð björgun fjölda brezkra sjómanna úr sjávarháska, en oft hafa íslendingar stofnað lífi sínu í bráðan voða við slík björgunarstörf. En eins og skipstjórinn á Fylki sagði: "Maður veit aldrei hvað mikil alvara er á bak við svona tilraunir," og er því nauðsynlegt að hafa góðar gætur á ferðum og atferli brezku togaranna. Jafnvel þó skipstjórinn á Ben Lui hafi ekki ætlað að sökkva Fylki, heldur aðeins að skjóta áhöfninni skelk í bringu og glettast við hana, er athæfi hans stór vítavert og hættulegt. Þegar skip sigla á fullri ferð í mjög lítilli fjarlægð hvort frá öðru, og virða siglingareglur að vettugi, 'þarf ekki mikið út af að bera til þess að stórslys hljótist af.

Austurland. 22 september 1972.


Togarinn Ýmir HF 343 í Hafnarfjarðarhöfn.                                 (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.
 

    Ýmir komst til hafnar í Njarðvík
    eftir mikinn barning í óveðrinu

Togarinn Ýmir sem strandaði á Geirfuglaskeri í fyrrinótt var dreginn til hafnar í Njarðvík um fimmleytið í gærdag. Mikill sjór var í skipinu og maraði stefni þess í hálfu kafi. Öll áhöfnin var þá komin um borð í skipið Heimi frá Keflavík, sem fylgdi skipunum eftir. Vigri frá Reykjavík dró Ými til hafnar en hann var fyrstur á vettvang. Rok og rigning var fram eftir degi og tafði það björgun. Voru menn milli vonar og ótta hvort takast myndi að koma togaranum til hafnar. Í fyrstu voru þrír af fjórtán manna áhöfn skipsins um borð. Vegna slæms útlits voru þeir síðan einnig teknir um borð í Heimi, sem er 190 tonna skip, gert út frá Keflavík. Það var ævintýri likast að fylgjast með Ými þar sem hann hékk stjórnlaus aftan í Vigra og rásaði til og frá. Þykir mikil mildi að ekki fór verr. Stefnt var að því að taka togarann í slipp í Njarðvík. Átti að dæla sjónum úr skipinu og draga hann á þurrt í nótt. Áhöfnin var við góða heilsu og varð engum meint af volkinu. Mikill viðbúnaður var í Keflavík og Njarðvík þegar skipin komu til hafnar. Fjöldi fólks fylgdist með drættinum eftir því sem mögulegt var. Skipin voru fyrst sjáanleg um eittleytið og voru þá stödd út af Garðskaga. Mikill mannsafnaður var síðan saman komin á bryggjunni þegar skipin komu að landi. Ýmir eru í eigu hjónanna Agústs Sigurðssonar og Guðrúnar Lárusdóttur. Þau keyptu skipið árið 1978 frá Bretlandi. Það er gert út frá Hafnarfirði.

DV. 17 júlí 1982.


Ýmir dreginn til hafnar í Njarðvík af togaranum Vigra RE 71. Eins og sést kom mikill leki að Ými. Það er Heimir KE sem er á milli þeirra. Áhöfnin er um borð í honum.     (C) Dagblaðið-Vísir.
 

            Ýmir HF 343   

21. nóvember s.l. bættist nýr skuttogari í flota landsmanna, en þá kom skuttogarinn Ýmir HF í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar. Skuttogari þessi, sem áður hét Ben Lui, er keyptur notaður frá Skotlandi, og er byggður þar árið 1971 hjá skipasmíðastöðinni John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen, smíðanúmer 364. Ýmir HF er í eigu Stálskips hf. í Hafnarfirði, sem á fyrir síðutogarann Rán GK. Skipstjóri á Ými er Sverrir Erlendsson og 1. vélstjóri Pétur Vatnar Hafsteinsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Guðrún Lárusdóttir.
Skipið er tveggja þilfara skuttogari með skutrennu upp á efra þilfar og er byggt samkvæmt reglum og undir eftirliti Lloyd's Register of Shipping í flokki +100AI Stern Trawler,+LMC. Báðum þilförum er lyft um 6I cm í framskipi, en tilgreind dýpt hér á eftir er miðuð við afturskip. Undir neðra þilfari er skipinu skipt með fjórum vatnsþéttum þverskipsþilum í eftirtalin rúm, talið framan frá: Stafnhylki (þurrgeymir); keðjukassar, og ferskvatnsgeymir; fiskilest með botngeymum fyrir ferskvatn og sjókjölfestu; vélarúm með botn- og hágeymum fyrir brennsluolíu og skutgeymar aftast fyrir sjókjölfestu, Fremst á neðra þilfari er geymsla, en þar fyrir aftan á fremri hluta neðra þilfars, er vinnuþilfar (aðgerðarrými) og aftur úr því, b.b.-megin við miðlínu, er gangur aftur að fiskmóttöku, sem er fyrir flutning á fiski. Sitt hvoru megin við ganginn eru íbúðarými sem tengjast saman með íbúðagangi þverskips, aftan við vinnuþilfar, en fiskurinn er fluttur með færibandakerfi yfir umræddan íbúðagang upp á efra þilfar og síðan aftur niður á vinnuþilfar. Fiskmóttaka er aftarlega á neðra þilfari, fyrir miðju, en þar fyrir aftan er stýrisvélarrúm undir skutrennu og veiðarfærageymslur aftast í báðum síðum. Yfirbygging skipsins er miðskips og er tvær hæðir auk brúar (stýrishúss), en enginn hvalbakur er á skipinu. Neðst er þilfarshús, inngangur, geymslur, klefi fyrir hafnarljósavél o.fl. en til hliðar við það eru gangar fyrir grandara- og bobbingavindur, sem eru opnir að aftan. Yfir þessu þilfarshúsi er íbúðarhæð en aftan við hana er togvindan staðsett á palli, og klefi fyrir togvindumótor er aftast í íbúðarhæð. í brú, s.b.-megin, er kortaklefi og loftskeytaklefi. Togþilfarið afmarkast að framan af þilfarshúsi og þili sem tengist framhlið þilfarshúss. Í framhaldi af skutrennu að aftan kemur vörpurenna sem greinist í tvær bobbingarennur, sem ná fram í ganga, þar sem grandara- og bobbingavindur eru. Yfir afturbrún skutrennu er toggálgi, en yfir frambrún skutrennu er bipodmastur. Aftarlega á togþilfari eru síðuhús, fyrir vélabúnað o.fl.
Aðalvél skipsins er British Polar, gerð SF 112 VS-C, 12 strokka fjórgengisvél með forþjöppu og eftirkælingu. sem skilar 1.650 hö við 759 sn/mín.
Mesta lengd, 48.77 m.
Lengd milli lóðlina 42.67 m.
Breidd 10.06 m.
Dýpt að efra þilfari 6.10 m.
Dýpt að neðra þilfari 3.96 m.
Lestarrými 370. M3.
Brennsluolíugeymar 141. M3.
Ferskvatnsgeymar 40. M3.
Sjókjölfestugeymar 60. M3.
Rúmlestatala 469 brl.
Skipaskrárnúmer 1526.

Ægir. 1 tbl. 1 janúar 1979.

 
 
Flettingar í dag: 277
Gestir í dag: 88
Flettingar í gær: 2672
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 973460
Samtals gestir: 69393
Tölur uppfærðar: 8.9.2024 05:00:49