26.05.2019 18:14
Gömul mynd frá Dalvík.
Frá Dalvík. Valur EA 110 til hægri. Ljósmyndari óþekktur.
4 menn hafa
farist og 7 saknað
eftir fárviðrið fyrir Norðurlandi
Flestir voru bátarnir út af Eyjafirði, og var rokið svo
mikið að innsiglingin til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar lokaðist og urðu allir
bátarnir að leita inn á Eyjafjörð. Þar var varðskipið Ægir þeim til aðstoðar.
Samkvæmt viðtali við Akureyri í morgun skall óveðrið yfir í gær eins og hendi
væri veifað og kom flestum mjög á óvart því veður var gott í gærmorgun og bátar
á sjó úr öllum Eyjafjarðarhöfnum. Verst urðu Dalvíkingar úti, en þaðan fórust
þrjár trillur í gær, þó björguðust mennirnir af þeim nema einni, bátnum Val,
sem á voru tveir bræður, Gunnar og Sigvaldi Stefánssynir. Þeir voru norður af
Gjögrum þegar veðrið brast á, höfðu seinna samband við m.s. Esju sem var á
vesturleið og báðu um að mega fylgjast með henni fyrir Gjögra. Allt í einu
hvolfdi bátnum og gátu skipverjar á m.s. Esju dregið annan manninn, Sigvalda,
meðvitundarlausan úr sjó, en Gunnar bróður hans sáu þeir aldrei. Fór Esja með
Sigvalda til Akureyrar, en hann komst aldrei til meðvitundar og þegar til
hafnar kom, úrskurðaði læknir hann látinn. Sigvaldi heitinn lætur eftir sig
konu og þrjú börn. Gunnar bróðir hans var ókvæntur. Þá er enn eins báts frá
Dalvík saknað, Hafþórs, sem á er 5 manna áhöfn. Það síðasta sem til hans er
vitað var það að hann sást norður af Gjögrum um kl. 4 í gærdag. Síðan hefur
ekki til hans sézt. Skip hafa leitað bátsins í alla nótt en árangurslaust.
Skipstjóri á Hafþóri er Tómas Pétursson. Áhöfnin er öll frá Dalvík. Alls voru
þrír þilfarsbátar og margar trillur á sjó frá Dalvík þegar óveðrið brast á, en
aðrir bátar en framangreindir fjórir björguðust.
Vísir. 10 apríl 1963.