12.06.2019 16:30

Stafnes á Reykjanesi.

Ég var á ferðalagi um Reykjanesið um Hvítasunnuhelgina og kom við á Stafnesi sem er gömul verstöð allt frá 12-13 öld. Ætlunin var að skoða strandstað togarans Jóns forseta RE 108, en hann strandaði á skerinu Kolaflúð skammt frá landi. 15 skipverjar fórust í þessu sjóslysi en 10 mönnum var bjargað við hinar verstu aðstæður. Ég ætla ekki að rekja þessa sorgarsögu frekar hér. Hún er nú flestum kunn. En þetta slys varð til þess að Slysavarnafélag Íslands var stofnað sama ár.


Minnisvarði um skipverjana 15 sem fórust með togaranum Jóni forseta RE á Stafnesi. Fyrir nokkrum árum var skipinu stolið af steininum, en er nú komið aftur.  (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Skerið Kolaflúð skammt frá landi fram af vitanum.


Stafnesviti.


Sérkennilegt bergið þarna á Stafnesi.


Á Stafnesi.


B.v. Jón forseti RE 108. Líkan í Sjóminjasafninu Víkinni.     (C) Þórhallur S Gjöveraa.


B.v. Jón forseti RE 108. Smíðaður hjá Scott & Sons (Bowling) Ltd í Glasgow í Skotlandi árið 1906 fyrir útgerðarfélagið Alliance í Reykjavík. 233 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. Fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga.    Ljósmynd úr safni mínu.

            Stafnes á Reykjanesi

Stafnes (Starnes, Sternes, Stapnes, Stafsnes) er lítið nes á Reykjanesskaga, nánar tiltekið vestast á Miðnesi, nálægt Hvalsnesi . Þar er samnefnd jörð sem tilheyrði Rosmhvalanesi  en í dag Sandgerði. Upphaflega hefur nesið heitið Starnes (líklega eftir melgresi sem vex þar í fjörunni) og kemur fyrir undir því nafni í heimildum frá því um 1270 og síðar. Nafnið Stafnes kemur fyrst fyrir í jarðabókum undir lok 17 aldar. Jörðin Stafnes hefur verið stórbýli frá upphafi með margar hjáleigur og útgerð, þótt höfuðbólið Hvalsnes hafi verið stærra, en varð fyrir miklum skemmdum vegna stórflóða og sandblásturs á 17 og 18 öld. Stafnes var keypt af Magnúsi Einarssyni biskup fyrir Skálholt kringum árið 1140, en hefur síðan gengið til Viðeyjarklausturs, hugsanlega við stofnun þess. Við siðaskiptin varð Stafnes konungsjörð. Jörðin var boðin upp í Reykjavík 27. júní 1792 ásamt 24 öðrum konungsjörðum á Miðnesi, en boðin sem fengust voru svo lág að stjórnin féllst ekki á neitt þeirra. 10 september 1805 var jörðin svo loks seld á kaupþingi í Keflavík og komst í bændaeigu.
Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16 öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara, talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við. Útgerð frá Stafnesi hélst töluverð fram undir miðja tuttugustu öld, en eftir það sáralítil.
Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Á síðustu öld má nefna strand togarans Jóns forseta árið 1928, en þá fórust 15 menn og 10 björguðust. Þetta sjóslys mun hafa valdið miklu um stofnun Slysavarnarfélags Íslands og fyrstu björgunarsveitar þess, sem er Sigurvon í Sandgerði. Á Stafnesi var reistur viti árið 1925.

Wikipedia. Frjálsa alfræðiritið.




Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30