27.06.2019 11:55

1393. Trausti ÍS 300. TFTY.

Skuttogarinn Trausti ÍS 300 var smíðaður hjá Sterkoder Mekaniks Verksted A/S í Kristiansund í Noregi árið 1968. Hét áður Nord Rollnes T-3-H og var gerður út frá Harstad í Noregi. 299 brl. 1.500 ha. Deutz vél, 1.100 Kw. Smíðanúmer 8. Eigandi var Útgerðarfélagið Freyja hf á Suðureyri við Súgandafjörð frá september árið 1974. Seldur 17 september 1977, Skildi hf á Patreksfirði, hét Guðmundur í Tungu BA 214. Seldur 15 desember 1981, Ísstöðinni hf í Garði, hét þá Sveinborg GK 70. Frá 27 júlí 1985 hét togarinn Sveinborg SI 70, sami eigandi. Seldur 10 nóvember 1987, Samherja hf á Akureyri, hét þá Þorsteinn EA 610. Togarinn skemmdist mikið í ís út í Reykjafjarðarál í apríl 1988 og var ekkert gerður út eftir það. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 28 október árið 1992. Þorsteinn EA sökk suðvestur af Færeyjum 11 desember árið 1992. Hvanneyri SI frá Siglufirði (áður Árvakur) var þá með hann og Þorlák helga EA í togi, en skipin höfðu verið seld í brotajárn til Belfast á Írlandi.


1393. Trausti ÍS 300 við bryggju á Suðureyri.                                         Ljósmyndari óþekktur,

        Skuttogarinn Trausti ÍS 300
        Tollarar í starfi á Súganda

Skuttogarinn Trausti ÍS 300 kom hingað á tímabilinu 4-6 aðfaranótt 29. september. Ferðin frá Noregi gekk vel, ganghraðinn 12,5 míla á klukkustund. Samkvæmt norskri mælingu er stærð Trausta 299 tonn. Í islenskri mælingu verður hann sennilega rúmlega 400 brúttólestir. Smíðaár togarans er 1968. Trausti er ekki útbúinn flottrolli, en kom með allan útbúnað til þess að stunda þannig veiðiskap. Óvist er hvenær hann byrjar veiðar. Tollskoðun var í allan gærdag, sunnudag, og er enn ekki lokið. Tveir tollverðir komu að sunnan og einn frá Ísafirði. Talið er að þeir hafi unnið fullkomlega fyrir kaupi sínu
Skipið lagðist að hafskipabryggjunni hér. Verður hún, bryggjan, sennilega opin allri umferð fyrst um sinn.

Þjóðviljinn. 1 október 1974.



Nord Rollnes T-3-H frá Harstad í Noregi.                                           (C) Sæmundur Þórðarson.


1393. Trausti ÍS 300.                                                                               (C) Sæmundur Þórðarson.

       SkuttogarinnTrausti ÍS 300

Súgfirðingar hafa eignast sinn fyrsta skuttogara með tilkomu Trausta ÍS 300, sem kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar 29. september á s.l. ári. Skuttogari þessi er eign Útgerðarfélagsins Freyju h.f. Súgandafirði. Skipið sem áður hét Nord Rollnes, var keypt frá Noregi og er smíðað hjá Sterkoder Mek. Verksted A/S Kristiansund árið 1968 og er nýbygging nr. 8 hjá stöðinni.
Skipið er byggt skv. reglum Det Norske Veritas og flokkað +1A1, Stern Trawler, Ice C, +MV. Skipið er skuttogari með tveimur þilförum stafna á milli og skutrennu upp á efra þilfar. Undir neðra þilfari eru fjögur vatnsþétt þil. Fremst í skipinu, er stafnhylki og geymar (sjókjölfesta), en þar fyrir aftan fiskilest, vélarúm og geymar fyrir ferskvatn aftast. Botngeymar fyrir brennsluolíu eru undir lest. Fremst á neðra þilfari eru keðjukassar en þar fyrir aftan íbúðir. Vinnuþilfar er aftan við íbúðir með fiskmóttöku aftast. Aftan við fiskmóttöku er stýrisvélarrúm, b.b.-megin við hana er netageymsla og s.b.-megin er klefi fyrir lifrarbræðslu. Á efra þilfari er fremst lokaður hvalbakur, en í hvalbak eru geymslur, íbúðir og klefi fyrir vindumótor. Aftan við hvalbak er togþilfarið. Aftast á hvalbaksþilfari er brú (stýrishús) skipsins.
Aðalvél skipsins er Deutz, gerð SBV 8 M 545, 1500 hö við 380 sn/mín, sem tengist skiptiskrúfubúnaði frá Liaaen, gerð CS 63. Skrúfa skipsins er 3ja blaða, þvermál 2100 mm. Framan á aðalvél er beintengdur 195 KW REM jafnstraumsrafall, sem er fyrir togvindumótor. Hjálparvélar eru tvær Deutz, gerð F6M-716, 150 hö við 1500 sn/mín. Við hvora vél er 125 KVA, 3x380 V, 50 Hz REM riðstraumsrafall. Fyrir smurolíu- og brennsluolíukerfið eru DeLaval skilvindur. Í skipinu er ferskvatnsframleiðslutæki frá Atlas, gerð AFGU 0.5, afköst 1-1 ½  tonn á sólarhring. Hydroforkerfi er frá Bryne Mek. Verksted. Kælikerfi er frá Peilo Teknikk. Stýrisvél er frá Tenfjord, gerð H-155 ESG. Vökvaknúin fiskilúga, framan við skutrennu, veitir aðgang að fiskmóttöku aftast á vinnuþilfari. Vinnuþilfar er búið blóðgunarkerjum, aðgerðarborðum, fiskþvottavél og færiböndum svo og búnaði til losunar á úrgangi. Lifrarbræðsluketill er í skipinu svo og lýsisgeymar. Fremsta hluta vinnuþilfars, ca. 140 m3 , er unnt að nýta sem fiskgeymslu, en það pláss er einkum notað við netaviðgerðir. Fiskilest undir neðra þilfari er einangruð fyrir frystingu, en útbúin kælikerfi frá Kværner Brug, sem miðast við að halda +1°C hitastigi í lest. Afköst kæliþjöppu eru 12800 kcal/klst við -10°/ -/ + 25°C, kælimiðill Freon 22. Lestin er gerð fyrir fiskkassa.
Íbúðir á neðra þilfari samanstanda af þremur 2ja manna klefum, matvælageymslum og þvottaklefa s.b.-megin, en b. b.-megin er borðsalur (fyrir áhöfn), eldhús, borðsalur fyrir yfirmenn og einn 2ja manna klefi. Á efra þilfari (í hvalbak) eru fjórir 2ja manna klefar, fjórir eins manns klefar og þvottaklefar. Kælikerfi fyrir matvælageymslu er frá Kværner Brug, afköst kæliþjöppu 1400 kcal/ klst. (-30°/-/ + 25°C). Upphitun í vistarverum er með rafmagnsofnum og loftræsting með rafdrifnum blásurum.
Skipstjóri á Trausta ÍS er Ólafur Ólafsson og 1. vélstjóri Einar Ingólfsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Einar Ólafsson.

Ægir. 5 tbl. 15 mars 1975.


1393. Guðmundur í Tungu BA 214 á toginu.                                               (C) Sæmundur Þórðarson.


1393. Sveinborg GK 70.                                                                (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

  Hvanneyri SI með tvö skip í togi
     Togarinn Þorsteinn EA-610
    sökk suðvestur af Færeyjum

Togarinn Þorsteinn EA-610 sökk á um 600 faðma dýpi suðvestur af Færeyjum um miðnætti síðastliðið föstudagskvöld. Hvanneyri SI frá Siglufirði var með Þorstein og Þorlák Helga í togi er atvikið átti sér stað, en verið var að flytja skipin í brotajárn til Belfast á Norður-Írlandi. Leiðangurinn hafði hreppt vonskuveður á leið sinni og er talið að Þorsteinn EA hafi ekki þolað veðrið, en hann skemmdist mikið er hann lenti í ís fyrir tæpum fimm árum. Þorsteinn og Þorlákur Helgi voru í eigu Samherja hf. á Akureyri. Jóhannes Lárusson framkvæmdastjóri Dráttarskipa sagði að vel hefði verið frá málum gengið áður en lagt var af stað út og voru skipin bundin með- stálvír um 600-700 metra löngum við Hvanneyrina. Ferð skipanna út hafði verið frestað sökum veðurs í um 10 daga, en útilitið verið sæmilegt þegar haldið var að stað, veður hafi hins vegar breyst og skipin hreppt leiðindaveður, en þau gengu á 4 mílum á klukkustund um tíma. "Ég var í sambandi við Hvanneyrina um tveimum tímum áður en skipið sökk og þá fannst mönnum sem farið væri að ganga betur, veðrið væri að lagast og ganghraðinn var kominn upp í 5,4 mílur.
Ljós voru á báðum skipunum, en þarna um miðnættið tóku menn eftir að aðeins logaði á einu ljósi og eitt skip sást í radarnum," sagði Jóhannes. Vírinn slitnaði við það að skipið sökk og biðum menn fram í birtingu á laugardagsmorgun til að ná Þorláki Helga og gekk vel að ná honum aftur. Eftir atvikið var farið til Færeyja og stjórnvöldum þar tilkynnt um það sem og stjórnvöldum á Íslandi. Skipið sökk á svæðinu við 61. gráðu norðlægrar breiddar og 9.-10. gráðu vestlægrar lengdar. Hvanneyri verður siglt frá Færeyjum í dag, þriðjudag, áleiðis til Belfast með Þorlák Helga. Jóhannes sagði að engin olía hefði verið í skipinu og því fylgdi engin mengum þó skipið hefði sokkið. Tjón væri heldur ekkert þar sem verið var að fara með skipið í brotajárn, sem lítið fæst greitt fyrir.
Þorsteinn EA lenti í ís í Reykjafjarðarál í apríl árið 1988 og skemmdist þá mjög mikið, m.a. var bolur skipsins illa farinn og kom gat á skut þess stjórnborðsmegin, skuthorn varð ónýtt að hluta og skemmdir urðu í vélarrúmi. Þorsteinn EA hefur frá því þetta gerðist legið við bryggju á Akureyri, en hann var úreldur upp í nýjan frystitogara Samherja, Þorstein Baldvinsson EA, sem nýlega kom til heimahafnar í fyrsta sinn.

Morgunblaðið. 15 desember 1992.


Flettingar í dag: 150
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074528
Samtals gestir: 77495
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 12:58:08