03.07.2019 11:42

1253. Karlsefni RE 24. TFHC.

Skuttogarinn Karlsefni RE 24 var smíðaður hjá Rickmers Werft í Bremerhaven í V-Þýskalandi árið 1966 fyrir Hochseefischerei Grundman & Groschel í Bremarhaven. Hét þá Jochen Homann BX 702. 731 brl. 2.140 ha. Deutz vél, 1.575 Kw. Selt 28 júlí 1972, Karlsefni hf. í Reykjavík, fékk nafnið Karlsefni RE 24. Kom fyrst til heimahafnar hinn 23 júlí sama ár. Selt 1987, Sjólastöðinni hf. í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Togarinn var seldur árið 1989, útgerðarfélaginu Friosur í Chacabuco í Chile, hét þar Friosur lV. Togarinn sökk í september 1994 við strendur Chile eftir að hafa fengið um 70 tonna hal. Þegar pokinn kom inn, lagðist skipið á stjórnborðssíðuna og sjór streymdi inn á millidekkið með þeim afleiðingum að togarinn sökk á um 15 mínútum. Áhöfnin, 24 menn komust í björgunarbáta og var fljótlega bjargað um borð í Friosur Vll, sem áður hét Elín Þorbjarnardóttir ÍS 700 og var gerð út frá Suðureyri.


1253. Karlsefni RE 24 að landa afla sínum við Grandagarð.       (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

     Hlakka til að reyna þetta skip

Skuttogarinn Karlsefni, sem kom til Reykjavíkur sl. sunnudag, er fyrsti skuttograrinn í flota Reykjavíkur. Karlsefni RE 24, er 1.047 tonn að stærð, en eigendur eru Karlsefni h.f. Tograrinn var byggður í Bremerhaven 1966. Mikill mannfjöldi tók á móti skipinu, þegrar það sigIdi til hafnar í Reykjavík fánum prýtt. Skipstjóri á Karlsefni er Ásgreir Gíslason. Gamla togaranum Karlsefni, var siglt til Bretlands fyrir skömmu þar sem skipið landaði afla úr síðustu ferð, en nýja Karlsefni var sigIt frá Cuxhaven í Þýzkalandi til Hull þar sem áhöfnin á gamla skipinu var tekin um borð í nýja skipið. Hefur gamla skipið verið selt í brotajárn. Framkvæmdastjóri Karlsefnis h.f. er Ragnar Thorsteinsson. "Þetta er allt algjörlega nýtt fyrir okkur," sagði Ásgeir Gíslason skipstjóri þegar við röbbuðum við hann um nýja skipið, "verktæknin, sem skipið býður upp á, gerir það að verkum að við verðum alveg að byggja upp fyrir okkur að nýju, þjálfa skipshöfnina í nýjum vinnubrögðum. Við erum allir nýliðar í þessu efni og ég býst við að það taki okkur 2-3 túra að komast upp á lagið, svo skikkanlegt sé.
Áhöfnin á skipinu verður 26 manns, en þó reiknum við með að geta fækkað niður í 24 þegar reynsla er komin á." Úr brúnni getur skipstjórinn stjórnað hífingu á trolli, en öll aðgerðaraðstaða er undir þiljum, þannig að vinnuaðstaða er ekki ósvipuð og í frystihúsi. Úr aðgerðarsal fer fiskurinn á færibandi fram í lestina, þar sem hann er Ísaður í stíurnar. Meðalganghraði skipsíns á heimleið var 13,5 milur, en skipið getur gengið 16 mílur. Ásgeir sagði, að Loftur Júliusson, skipstjóri, yrði með í fyrstu veiðiferðunum, en hann hefur talsverða reynsJu í stjórnun skuttogara. Sagði Ásgeir, að sú reynsla, sem hann byggi yfir myndi létta skipshöfninni mjög að komast fljótt og vel inn í þau nýju vinnubrögð, sem taka verður upp, en Ásgeir taldi að það myndi ganga fljótt með þeim góða mannskap, sem væri á Karlsefni. Karlsefni kostaði liðlega 90 millj. kr" en útgerðarfyrirtækið Karlsefni hf., sem á Karlsefni, er vaxið úr einu af elztu útgerðarfyrirtækjum í Reykjavík, Geir Thorsteinsson hf" sem á sínum tíma gerði út skútur frá Reykjavík. "Meiningin er að byrja nú á suðaustur miðunum", sagði Ásgeir, "skipið leggst vel í mig, þetta er gott skip, eitt af þeirri gerð, sem við gömlu skipstjórarnir höfum verið að einblína á í langan tíma.
Reynslan verður svo að skera úr um árangurinn. Stýrimaður á Karlsefni verður Einar Jónsson og vélstjóri verður Kristinn Gunnarsson. Ásgeir sagði að mikið byðist af góðum mannskap á togarana, sérstaklega yfir sumarmánuðina. Kvaðst hann halda út á miðin síðari hluta vikunnar. "Ég hlakka til að reyna þetta nýja skip", sagði Ásgeir þegar við kvöddum hann. "Annars" bætti hann við, "finnst mér að ungir og efnilegir menn ættu að fara að velta því fyrir sér hvort þeir hefðu ekki áhuga á að snúa sér meira að slíkum tækjum, eins og þessum. Vel búin skip hljóta að vera hvetjandi fyrir unga menn".

Morgunblaðið. 25 júlí 1972.


Þýski togarinn Jochen Homann BX 702.                                                                   (C) Barry Colby.


Karlsefni RE 24. Fyrirkomulagsteikning.                                                                      Úr safni mínu.


          Karlsefni RE 24

Á s.l. ári var skuttogarinn Karlsefni RE 24, sem áður hét Jochen Homann, keyptur til landsins. Eigandi skipsins er Karlsefni hf. Reykjavík. Skipið er smíðað í Bremerhaven 1966 og er byggt í flokki "Germanischer Lloyd". Skipið hefur tvö heil þilför stafna á milli, brú rétt framan við miðju. Undir neðra þilfari eru fremst geymar, asdicrúm og íbúðir fyrir 10 menn. Þar fyrir aftan er lestarúm, sem skipt er í tvær lestar, vélarúm og geymar. Á neðra þilfari eru fremst geymslur og keðjukassar, en þar fyrir aftan íbúðir fyrir 15 menn; þrír einsmanns klefar, þrír 2ja-manna og tveir 3ja-manna klefar. Langsþil sitt hvorum megin við lestaropin skipta vistarverum á neðra þilfari í tvo hluta með göngum sinn hvorum megin. Bakborðsmegin og framan við lestarlúgurnar eru klefar, salerni, bað og geymsla. en stjórnboðsmegin eldhús, -2 matsalir og kæld matvælageymsla. Aftan við íbúðir og lestarlúgur er vinnuþilfarið, fiskmóttaka, stýrisvélarúm og netageymslur, sin hvorum megin við skutrennuna. Á aðalþilfari undir brú er hús fyrir spilmótor og uppgangur í brú. Á bátaþilfari til hliðar og aftan við brú eru klefar, stjórnborðs- og bakborðsmegin fyrir skipstjóra og loftskeytamann.
Aðalvél skipsins er Deutz, gerð SBV8M358, 2140 hö við 320 sn/mín, sem knýr 3ja blaða skiptiskrúfu af Kamewa gerð og er snúningshraði á skrúfu 200 sn/mín. Inn á gírinn tengjast 2 AEG jafnstraumsrafalar. Annar þeirra sér rafmótor togvindunnar fyrir orku og er stærð hans 350 KW, 400 V, en hinn er fyrir rafkerfið og er 130 KW, 230 V. Auk þess er lítill riðstraumsrafall tengdur inn á gírinn, 35 KVA, 3 X 380 V, 50 Hz. Í skipinu er tvær Deutz hjálparvélar. Stærri vélin er 190 hö við 750 sn/mín. og knýr 120 KW, 230 V AEG jafnstraumsrafal, en hin er 50 hö við 1500 sn/mín. og knýr 32 KW 230 V AEG jafnstraumsrafal. Stærri hjálparvélasamstæðan er aðallega notuð sem varakerfi fyrir togvindu, en minni hjálparvélasamstæðan í höfn. Í stýrisvélarúmi er lítil neyðarljósavél fyrir 24 volta kerfi. Stýrisvélar rafstýrð, vökvaknúin af gerðinni Atlas. Sérstakur ferskvatnseimir til að eima ferskvatn úr sjó er í skipinu af Atlasgerð og afkastar hann 5 t/sólarhr.
Auk þess er olíuaustursskiljari, til að skilja olíu úr vélarúmsaustrinum, með 1 t/klst. afköst. Aðaltogvinda er af gerðinni Seebeck, knúin af 440 hö, 400 V AEG rafmótor. Fyrir utan tvær togtromlur, sem hvor um sig tekur 1800 faðma af 3% tommu vír, eru 4 hjálpartromlur, sem liggja framan við togtromlurnar. Endatromlurnar eru fyrir grandarana, en miðtromlurnar fyrir hífingar. Meðaltogkraftur vindunnar er 14.0 t. við 120 m/mín. vírahraða. Aftan við togvinduna er lítil hjálparvinda, af gerðinni Waco, með tveimur tromlum. Vinda þessi er til að hífa bobbingana fram. Framarlega á aðalþilfari er rafknúin akkerisvinda af Wacogerð. Aftarlega á bátaþilfari, bakborðsmegin er kapalvinda fyrir höfuðlínumæli, sem er frá Elac. Í litlum klefa aftur af brúnni eru stjórntæki fyrir vindur. Þaðan er hægt að stjórna öllum hífingum og er þetta eini skuttogarinn hér á landi, sem hefur fjarstýringu á öllum vindum, sem nota þarf við veiðarnar. Á vinnuþilfari er fiskþvottavél, sömu gerðar og í skuttogaranum Bjarna Benediktssyni RE 210. Þetta er svonefnd "roterandi" þvottavél, sem snýst með jöfnum hraða og skilar hún fiskinum eftir ákveðinn snúningafjölda inn í færiband, sem flytur fiskinn að lestarlúgum.
Í loftskeytaklefa, til hliðar við brú, eru fjarskiptatækin; senditæki og móttökutæki fyrir tal og morse og er kerfið í aðalatriðum frá Debeg. Af tækjum í brú eru þau helztu: Ratsjár: 2 Decca 64 sjóm., RM 426 og RM 429. Dýptarmælar: Kelvin Hughes MS 44 og Atlas með sjálfrita og fisksjá. Asdic: Elac, mittellodar. Höfuðlínumælir: Elac. Loran: Furuno LH 21 og Mieco 6805. Miðunarstöð: Telefunken. Örbylgjustöð: Debeg. Gýroáttaviti: Anschiitz. Sjálfstýring: Arkas RK 1.
Skipstjóri á Karlsefni er Ragnar Franzson og 1. vélstjóri er Kristinn M. Gunnarsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Ragnar Thorsteinsson.
Stærð skipsins (eldri mæl.regl.) 1.047 brl.
Mesta lengd 63.60 m.
Lengd milli lóðlína 55.20 m.
Breidd 10.80 m.
Dýpt frá efra þilfari 7.35 m.
Dýpt frá neðra þilfari 5.00 m.
Djúprista 5.00 m.
Dauðvigt 743 tonn.
Lestarými 650 m3.
Brennsluolíugeymar 323 m3.
Ferskvatnsgeymar 40 m3.
Lifrargeymar 17 m3.
Hraði í reynslusiglingu 15.35 sjómílur.

Ægir. 5 tbl. 15 mars 1973.


1253. Karlsefni RE 24 við bryggju í Reykjavík.                                              (C) Jón Páll Ásgeirsson.

  Togarinn Karlsefni sökk á fimmtán
       mínútum við strendur Chile

"Þegar pokinn skreið inn lagðist skipið á stjórnborðssíðuna. Við reyndum að hífa pokann yfir í hina síðuna en það gekk ekki. Það slitnaði allt undan átökunum enda voru um 70 tonn í halinu. Þetta gerðist allt á örskömmum tíma og það var ekkert hægt að gera. Ég reyndi að sigla í hringi til að rétta bátinn af en allt kom fyrir ekki," segir Albert Haraldsson, skipsrjóri á Friosur IV. sem sökk undan strönd Chile á þriðjudag. Togarinn Friosur IV. hét áður Karlsefni RE og er íslendingum að góðu kunnur. Skipið fékk risahal eða um sjötíu tonn sem fór út í aðra síðuna. Við það flæddi sjór inn á millidekk skipsins og það sökk á 15 mínútum. Áhöfninni, alls 24 mönnum, tókst að komast í björgunarbáta en áður hafði Albert skipstjóri náð að kalla í annað skip frá sama fyrirtæki, Friosur VII.,sem var að veiðum um 5 sjómílur frá hinu sökkvandi skipi. Það skip er einnig íslenskt og hét áður Elín Þorbjarnardóttir ÍS 700 og var gert út frá Suðureyri. Skipstjóri þar er einnig íslenskur og heitir Þór Einarsson. Skipverjarnir komust allir heilu og höldnu um borð í Friosur VII. Albert segir að skipið hafi sokkið á ótrúlega skömmum tíma. "Þegar við vorum komnir í bátana rerum við á fullu með höndunum til að sleppa við að fara niður með soginu. Skipið fór strax niður að aftan og eins og hendi væri veifað stóð bara stefnið upp úr. Það var ágætisveður þegar þetta gerðist og bara smáhreyfing," segir Albert. Albert segir að væntanlega verði keypt nýtt og öflugra skip. Í þeim tilgangi verði líklega úrelt annað skip til að framfylgja þeim reglum sem gilda um úreldingar á móti nýjum skipum.
Karlsefni, sem var 731 rúmlest að stærð, var einn af fyrstu íslensku skuttogurunum, gerður út á íslandi frá 1972 til 1987, allan tímann frá Reykjavík. Skipið var selt til Chile 1989 og fékk þá nafnið Friosur IV. Það var gert út af fyrirtækinu Friosur frá Chacabugo. Fyrirtækið er að hluta til í eigu Granda hf.

Dagblaðið-Vísir. 23 september 1994.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30