19.08.2019 20:58

Hólmar GK 546. TFIT.

Vélskipið Hólmar GK 546 var smíðaður í Skipasmíðastöð Njarðvíkur í Innri Njarðvík árið 1963 fyrir Einar Gíslason útgerðarmann í Sandgerði. Eik. 48 brl. 235 ha. Rolls Royce vél. Báturinn fórst í róðri út af Alviðruhömrum í Alftaveri 29 nóvember árið 1963 með allri áhöfn, 5 mönnum. 

Hólmar GK 546 var smíðaður eftir sömu teikningu og Baldur KE 97 sem Eggert Þorfinnsson gerði á sínum tíma (1961) . En Baldur KE 97 var smíðaður í Djupvík í Svíþjóð sama ár. Það hefur sennilega verið meira lagt í Hólmar miðað við teikningu Eggert Þorfinssonar frá Djupvík í Svíþjóð.


Hólmar GK 546 í Reykjavíkurhöfn nýsmíðaður.                                      Ljósmyndari óþekktur.

               Hólmar GK 546

Í fyrradag kom hingað til Reykjavíkur nýr og glæsilegur bátur, sem smíðaður er í Skipasmíðastöð Njarðvíkur h.f. Báturinn hefur hlotið nafnið Hólmar GK 546 og er eigandi hans Einar Gíslason í Sandgerði. Fréttamaður Þjóðviljans skrapp snöggvast um borð í bátinn í gær, þar sem hann lá við verbúðarbryggjuna, og var áhöfnin önnum kafin við að búa hann á veiðar.
Um borð hittum við að máli skipstjórann, Helga Kristófersson, ásamt eigandanum og Bjarna Einarssyni skipasmíðameistara og fengum hjá þeim eitirfarandi upplýsingar:
"Hólmar" GK 546 hljóp af stokkunum í Skipasmíðastöð Njarðvíkur fyrir um það bil viku. Báturinn er 48 tonn að stærð, með 235 ha Rolls Royce vél og er ganghraði hans 9,5 mílur. Hann er búinn öllum nýjustu siglingatækjum. Eins og sjá má á meðfyJgjandi mynd er Hólmar frambyggður og er rúmgott vinnupláss á dekkinu fyrir aftan yfirbyggingu. Vistarverur eru fyrir 9 manna áhöfn. Egill Þorfinnsson teiknaði bátinn, verkstjóri við smíði hans var Óskar Guðmundsson. Vélaverkstæði Björns & Halldórs sá um niðursetningu á vél. Yfirbygging er úr léttmálmi, smíðuð af Vélsmiðju Björns Magnússonar í Keflavík.
Önnur járnsmíði er unnin af Vélsmiðju Olsens, Njarðvíkum. Allur frágangur skipsins og handbragð er hið fegursta, og lét eigandinn í ljós sérstaka ánægju með allan frágang hans. Bjarni Einarsson kvað þetta fjórða fiskiskipið, sem Skipasmíðastöð Njarðvíkur h.f. hefur smíðað, en hið fyrsta þeirra hljóp af stokkunum 1953. Annars væri viðhald og viðgerðir skipa aðalverkefni skipasmíðastöðvarinnar og tók hún t.d. á annað hundrað skipa til viðgerðar á sl. ári. Ekki er unnið að neinni nýsmíði í skipasmíðastöðinni sem stendur, og taldi Bjarni litlar líkur á aukinni nýsmíði skipa innanlands, þar sem mikil vöntun væri á skipasmiðum.
Á Hólmari er sex manna áhöfn, og verður báturinn gerður út á togveiðar frá Sandgerði. Skipstjórinn, Helgi Kristófersson, kvaðst mjög ánægður með bátinn eftir reynsluferðina. Þess má geta að Helgi var áður með vélbátinn Dux, og er áhöfnin á Hólmari öll hin sama og var á Dux.

Þjóðviljinn. 18 júlí 1963.


311. Baldur KE 97.                                                     (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

       Báts með 5 mönnum saknað
  Ekkert til hans heyrzt síðan kl. 9 á                  föstudagsmorgun
 og leit á fjörum og sjó árangurslaus

Vélbátsins Hólmars GK 546 frá Sandgerði er saknað. Síðast heyrðist til hans kl. 9.20 á föstudagsmorgun og var hann þá 10 sjómílur austur af Alviðruhömrum á Mýrdalssandi, á leið til Vestmannaeyja í 8-10 vindstigum, en skömmu seinna versnaði enn veðrið. Er skipstjóri á Guðmundi góða, sem var samferða Hólmari, en nokkuð á undan, ætlaði að hafa samband við skipið á umtöluðum tíma, kl. 12.30, fékkst ekkert svar. Á Hólmari eru 5 menn, allir milli tvítugs og þrítugs. Frá því í býtið í gærmorgun lét Slysavarnafélagið leita bátsins, bæði úr flugvélum og með björgunarsveitum, sem gengu sandana, en ekkert fannst, sem gæti verið úr bátnum. Björgunarsveitirnar voru þó ekki allar komnar til baka er blaðið fór í prentun í gærkvöldi. Frá því í gærmorgun og fram yfir hádegi flaug Lárus Þorsteinsson með Vorinu meðfram allri suðurströndinni og leitaði út á sjó. Var ágætt skyggni, en gekk á með éljum.
Einnig flugu yfir sandana herflugvél og áætlunarflugvél Flugfélagsins til Hornafjarðar, en úr þeim sást aðeins mikið af reknum síldartunnum, sem ekki geta komið þessum báti við. Menn úr Álftaveri gengu alla fjöruna frá Kúðafljóti að Blautukvísl í gærmorgun og fóru aftur síðdegis. Annar flokkur gekk Meðallandsfjöruna og sá þriðji þar fyrir austan.
Hólmar er 48 lesta nýr bátur, smíðaður í Skipasmiðastöð Njarðvíkur í sumar. Eigandi er Einar Gíslason í Sandgerði. Báturinn hefur verið á togveiðum og var það austur af Ingólfshöfða á fimmtudag, ásamt Guðmundi góða frá Reykjavík. Lagði hann af stað vegna veðurs til Vestmannaeyja á fimmtudagskvöld um hálfum öðrum tíma á eftir Guðmundi góða, þar eð skipverjar voru lengur að gera sjóklárt hjá sér og höfðu skipin samband öðru hverju. Hólmar hefur 235 ha. vél og radar.
Mbl. átti í gær símtal við Magnús Grímsson, skipstjóra á Guðmundi góða. Hann sagði að bæði skipin hefðu verið að veiðum fyrir austan Ingólfshöfða á fimmtudaginn. Var Hólmar búinn að fá 8-10. lestir af fiski, sem Magnús telur að sé rétt hæfileg ballest í bát af þessari stærð. Magnús sagði að Guðmundur góði hefði byrjað að keyra vestur kl. um 10.30 um kvöldið, en Hólmar kl. 12. Bilið á milli skipanna hefði því verið ca. 20 mílur, sem jókst í 30 mílur. - Við töluðum alltaf saman eftir veðurfregnirnar, síðast eftir veðurfregnirnar um morguninn kl. 9.20, sagði hann. Þá vorum við komnir vestur fyrir Portland. En eftir hádegisveðurfréttirnar svaraði Helgi aldrei. - Hvernig veðrið var? Það voru 8-10 vindstig um nóttina yfir Meðallandsbugtina, en lægði á milli. En eftir kl. 10 um morguninn versnaði veðrið að miklum mun. Varð hörkumikill sjór og vonzkuveður. Þegar ég talaði við Helga skipstjóra á Hólmari um morguninn spurði ég hann um sjólag og veður. Hann sagði að væri mikill sjór, en sjólag ekki slæmt, vindur væri 9-10 vindstig. Hann nefndi ekki annað en allt væri í ágætu lagi hjá honum. Eins hafði hann áður sagt mér að þetta væri ágætur bátur. - Við komum til Vestmannaeyja kl. 4 síðdegis. Hólmar hefði átt að koma um kl. 8.30-9. Um 12 leytið vorum við orðnir æði órólegir og fórum að svipast eftir honum og reyna að láta kalla hann upp. Og formaður á báti þarna talaði við Slysavarnafélagið. - Hvað heldurðu að hafi getað komið fyrir? - Ég veit það auðvitað ekkL Ef báturinn finnst ekki á sandinum, þá er ekki um annað að ræða en að hann hafi fengið á sig brotsjó.
Mbl. hringdi í gær til Júlíusar Jónssonar í Norðurhjáleigu, en faðir hans er formaður björgunarsveitarinnar þar austur frá, og var einmitt að leita á Mýrdalssandi.
Júlíus sagði að í býtið um morguninn hefðu tveir bílar farið með leitarmenn, sem gengu fjörurnar frá Kúðaósi að Blautukvísl, en fundu ekkert sem gat verið úr Hólmari. Eftir hádegi fóru leitarmenn aftur af stað á einum bíl að beiðni Slysavarnafélagsins. Júlíus sagði að á föstudaginn hefði verið sunnan veður, líklega 8-10 vindstig á tímanum frá kl. 10 um morguninn til kl 6, en þá lægði. Einnig var dimm viðri.

Morgunblaðið. 1 desember 1963.



311. Baldur KE 97.                                                                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa.

   Hólmar frá Sandgerði hefur farist                  með 5 manna áhöfn

Vélbáturinn Hólmar frá Sandgerði, GK 546 er nú talinn af en eins og skýrt var frá hér í blaðinu á sunnudag hefur hans verið saknað síðan sl. föstudag. Á Hólmari var fimm manna áhöfn. Víðtæk leit hefur verið gerð á sjó og úr lofti en hún hefur engan árangur borið. Þá hafa leitarflokkar gengið fjörur og fundust lestarfjalir og olíubrúsar skammt frá Alviðruhömrum og er talið líklegt að það sé úr Hólmari. Hefur leit nú verið hætt.
Þessir menn voru á Hólmari GK 346:
Helgi Kristófersson, skipstjóri frá Sandgerði. Hann var 27 ára gamall, kvæntur og átti 3 börn.
Sigfús Agnarsson, stýrimaður frá Heiði Gönguskörðum í Skagafirði. Hann var 21 árs gamall ókvæntur. Guðmundur Stefánsson, vélstjóri frá Gilhaga Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Hann var 27 ára gamall og ókvæntur.
Gunnlaugur Sigurðsson, matsveinn úr Njarðvíkum. Hann var 46 ára gamall ekkjumaður með 5 börn á framfæri.
Ingvar Gunnarsson, háseti. Hann var 21 árs gamall og ókvæntur. Heimili að Laufási 4 í Garðahreppi.
Báturinn var smíðaður í Skipasmíðastöð Njarðvíkur og hljóp af stokkunum síðastliðið vor. Hann var á humarveiðum í sumar og síðan á togveiðum til þess tíma er hann fórst. Báturinn var 48 tonn að stærð með 235 h.a. Rolls Roys vél og var ganghraði hans 9.5 sjómílur. Hann var búinn öllum nýtizku siglingatækjum.

Þjóðviljinn. 3 desember 1963.


Flettingar í dag: 326
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 276
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 1057972
Samtals gestir: 76542
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 17:27:57