23.09.2019 20:00
Landað úr togaranum Marz RE 261.
Landað úr togaranum Marz RE 261, sennilega í Reykjavíkurhöfn. Veit ekki hvenær. Sennilega hafa lestar togarans verið fullar upp í lúgur og dekkið fullt. Ljósmyndari óþekktur.
Nýsköpunartogarinn Marz RE 261 á leið úr Reykjavíkurhöfn í veiðiför. Marz var mikið aflaskip alla tíð. B.v. Marz RE 261 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1948 fyrir samnefnt hlutafélag í Reykjavík, (Tryggvi Ófeigsson). 684 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Togarinn var seldur til Spánar í brotajárn og tekinn af skrá 20 maí árið 1974. (C) Guðlaugur Óskarsson.
Togarinn
Marz setur sölumet á brezka markaðinum
Togarinn Marz frá Reykjavík seldi afla sinn í Hull á
miðvikudag og fimmtudag. Var Marz með 3.776 kitt, eða tæp 240 tonn, sem seldust
fyrir 23.856 sterlingspund, eða kr. 2.867.491.20. Er þetta hæsta verð, sem
nokkur togari hefur fengið á brezkum markaði. Skipstjóri á Marz er Ásgeir
Gíslason, en eigandinn er Marz h.f. Afli togarans var mestmegnis flatfiskur og
ýsa, sem veiddist á heimamiðum á 13 dögum. Fyrra sölumetið í Bretlandi átti
togarinn Víkingur, sem sett var 12. og 13. maí 1965. Þá seldi Víkingur 276 tonn
í Grimsby fyrir 22.575 sterlingspund. Afli Víkings var eingöngu þorskur af
Vestur Grænlandsmiðum. Skipstjóri á togaranum er Hans Sigurjónsson.
Morgunblaðið hafði tal af Ingimar Einarssyni, fulltrúa hjá Félagi Íslenskra
botvörpuskipaeigenda í gær og spurðist fyrir um ástandið á brezka
fiskmarkaðinum. Ingimar sagði, að lengi hefði verið mikið framboð á þorski en
hins vegar verið skortur þar á flatfiski, en þó einkum ýsu. Hann sagði að auk
Marz hefðu tveir aðrir togarar selt í Englandi í þessari viku.
Hafnarfjarðartogarinn Surprise hefði selt í Grimsby sl. þriðjudag 175 tonn fyrir 17.213 sterlingspund og hefðu um 70
tonn verið þorskur og ufsi en hitt ýsa og flatfiskur. Þá hefði togarinn
Víkingur selt rúm 260 tonn af þorski af Vestur-Grænlandsmiðum í Grimsby s.l.
miðvikudag og fimmtudag og hefði hann fengið 15.851 sterlingpund fyrir aflann.
Loks gat Ingimar þess, að togarinn Þorkell máni myndi selja í Englandi n.k.
mánudag.
Morgunblaðið. 4 júní 1966.