30.09.2019 21:21
Slippurinn í Reykjavík.
Freyja RE 38, ex Havörnen VE 290. Smíðaður í Kristiansand í Noregi árið 1902. 67 brl. 80 ha. 2 þennslu gufuvél. Talið ónýtt og tekið af skrá 1 júní árið 1948. (Heimild : Birgir Þórisson).
Næstur er Már RE 100, smíðaður í Noregi árið 1935. Hann sökk út af Selvogi 22 desember árið 1955. Hét þá Már VE 275. Áhöfnin, 4 menn og 3 farþegar, björguðust í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í björgunarskipið Maríu Júlíu.
Næst er Línuveiðarinn Málmey GK 10, smíðaður í Kristiansand í Noregi árið 1902, hét áður Gola SI 11 og þar áður Olga. 75 brl. 100 ha. 2 þennslu gufuvél. Var fyrst í eigu Edvin Jacobsen á Siglufirði frá árinu 1923. Selt 19 janúar 1929, Þórði Flygenring útgerðar og kaupmanni í Hafnarfirði, fékk þá Málmeyjar nafnið. Bar svo nöfnin Málmey VE 110, Víkingur NS 12 og Leó VE 94. Endaði hjá Björgun hf í Reykjavík árið 1964 sem sanddæluskip. Talið ónýtt og tekið af skrá 6 september árið 1971.
Yst til hægri er Svanur MB 35, ex Gola MB 35. Smíðaður í Þrándheimi í Noregi árið 1902. 70 brl. 120 ha 2 þennslu gufuvél. fyrstu eigendur hér á landi voru Kristófer Eggertsson, Sigurður Vigfússon og fl. á Akranesi frá árinu 1933. Selt 1935, hf Svani á Akranesi, fékk þá nafnið Svanur MB 35. Bar svo nöfnin Ísleifur MB 35, Elsa SH 5 og Elsa RE 130. Skipið sökk út af Malarrifi á Snæfellsnesi 26 apríl árið 1950. Áhöfnin, 5 menn og 1 farþegi björguðust um borð í Víði AK 95 frá Akranesi. Elsa var í vöruflutningum frá Reykjavík til hafna á Vestfjörðum þegar hún sökk.
Úr slippnum í Reykjavík um miðjan 4 áratuginn. (C) Ólafur Magnússon. Mynd úr safni mínu.
Slippfjelagið
Slippfjelagið í Reykjavík er stofnað 1902. Stofnendur voru
nokkrir áhugamenn í Reykjavík. Fyrstu stjórn fjelagsins skipuðu Tryggvi
Gunnarsson, Ásgeir Sigurðsson og Jes Zimsen og sat Tryggvi Gunnarsson í henni
sem formaður til dauðadags 1917, en hinir ásamt Guðmundi Ólafs til aðalfundar
1930. Fyrsti slippurinn var keyptur í Englandi og settur upp vorið 1904 eftir
fyrirsögn O. Ellingsen og var þegar farið að taka upp skip. Slippurinn reyndist
brátt hið þarfasta fyrirtæki, ekki síst fyrir skipaeigendur sjálfa. Aðallega
voru það þilskip sem notuðu slippinn, og hafði hann ærið nóg að starfa fyrstu
árin. En þegar fram leið og þilskipum fór að fækka, en togaraútgerðin að færast
í aukana, fór eðlilega að draga úr viðskiftum Slippfjelagsins, því engir
möguleikar voru til að taka upp skip af togarastærð. Á árunum fyrir stríðið óx
togaraflotinn mjög ört, og var stjórn Slippfjelagsins þá þegar ljóst, að hjer
var um mikilvægt atriði að ræða.
Á aðalfundi 1914 gat Tryggvi Gunnarsson þess, ,,að stjórnin hefði fullan hug á
að koma slippnum í það horf, að hann væri fær um að gera við
botnvörpunga". Mál þetta var rætt við og við á næstu árum, en ekkert varð
úr framkvæmdum, enda fjekk Slippfjelagið nokkur ágæt veltiár eftir að
heimsófriðnum lauk. En hugmyndin var vakandi og kom fram aftur og aftur,
sjerstaklega hafði Kirk verkfræðingur mikinn áhuga fyrir því að koma hjer upp
fullkomnum slipp. En eftir hið sviplega fráfall hans 1917 fjell málið niður í
bráð. Á síðustu 10 árum hafa viðskifti við Slippfjelagið farið minkandi,
jafnframt því, sem þörfin fyrir fullkominn slipp, er gæti tekið togara eða
jafnvel stærri skip, hefir farið sívaxandi. Loks á síðastliðnu vori tókst að
festa kaup á tveimur slippvögnum, er voru til sölu í Þýskalandi, og komu þeir
hingað skömmu síðar. Fengið var samkomulag við bæjarstjórn um lóð og rjettindi
til að setja upp og starfrækja tvo nýja slippa. Nýtt hlutafje var fengið.
Samningur fjekst við hafnarstjórn um lán og hluttöku í fyrirtækinu, og með
aðstoð ýmsra stofnana. sjerstaklega Útvegsbankans, og h.f. Hamars, tókst þrátt
fyrir ýmsa örðugleika að koma upp öðrum slippnum, og tók hann til starfa um
síðustu áramót. Á hann er hægt að taka alla togara íslenska. Þó þetta sje ekki
nema eitt skref í áttina má ætla, að þetta hafi mikla þýðingu fyrir útgerðina
og atvinnulíf Reykjavíkur. Eftir lauslegri áætlun hefir á undanförnum árum að
meðaltali árlega verið greitt fyrir aðgerðir á íslenskum fiskiskipum í
útlandinu allt að 200 þús. kr.
Nú getur flokkun og aðgerð á flestum íslenskum fiskiskipum farið fram hjer á
landi með íslenskum vinnukrafti. Við flestar viðgerðir er vinnan aðalatriðið,
en ekki efnið. Í sumar er í ráði, að byggja annan slipp nokkuð stærri er getur
tekið skip á stærð við "Esju". Slippurinn sem þegar er byrjaður hefir
kostað um 215 þús. kr. Hlutafje fjelagsins er nú 197 þús. kr. Þar af eru 100
þús. krónur almennir hlutir og 97 þús. kr. forgangshlutir. Stjórn fjelagsins
skipa nú Th. Krabbe, vitamálastjóri, formaður, Kristján Siggeirsson, kaupmaður
og Þórarinn Kristjánsson, hafnarstjóri. Framkvæmdastjóri fjelagsins er Sigurður
Jónsson, verkfræðingur.
Morgunblaðið. 30 apríl 1933.