03.10.2019 12:17
189. Skarðsvík SH 205. TFSO.
189. Skarðsvík SH 205. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.
Ný Skarðsvík
komin
Hellissandi, 27. ágúst.
Nýlega kom annar bátur til Hellissands fyrir Skarðsvíkina, sem fórst í vetur.
Er það stálbátur, 155 lestir að stærð og eigendur sömu og áður. Þetta er
glæsilegt skip með öllum nýtizku tækjum. Skarðsvík er smíðuð í Austur-Þýzkalandi.
Skipstjóri er Sigurður Kristjónsson, sami og var á gömlu Skarðsvík. Skipið fór
strax á síldveiðar. Þrír bátar héðan eru á síldveiðum, og tveir á humarveiðum.
Morgunblaðið. 1 september 1962.
Arnþór EA 16 að sökkva út af Hvalsnesi 12 október 1989. (C) Morgunblaðið. / RAX.
Arnþór
EA 16 sökk austur af Hvalsnesi
Áhöfnin
hafði yfirgefið skipið
nokkrum klukkustundum áður
Síldveiðiskipið Arnþór frá Árskógsströnd sökk 4,5 mílur
austur af Hvalsnesi um klukkan 13.00 í gær. Áhöfnin var þá komin um borð í
annan síldarbát, Sigurfara frá Ólafsfirði, og var hún ekki í hættu. Arnþór fékk
á sig mikla slagsíðu um klukkan eitt í fyrrinótt er verið var að dæla síld um
borð úr nótinni. Við tilraun til að keyra bátinn upp, lenti nótin í skrúfunni
og aðalvélin stöðvaðist. Sigurfari kom til aðstoðar, en vegna mikillar kviku
reyndist ekki unnt fyrir hann að leggjast upp að Arnþóri til að dæla úr bátnum
með síldardælunni. Var því brugðið á það ráð að taka Arnþór í tog í birtingu og
ætlunin var að draga hann upp að landi, jafnvel inn á Berufjörð, þar sem
auðveldara yrði að athafna sig. Það tókst ekki og sökk Arnþór eins og fyrr
segir upp úr hádeginu í gær.
Sigurfari kom með áhöfnina af Arnþóri til Reyðarfjarðar í gærkvöldi. Skipverjar
af báðum bátunum vildu sem minnst tjá sig um atburðinn fyrr en að loknum
sjóprófum, en þau hafa ekki verið haldin enn. Talið er að óhappið hafi vilja
til með þeim hætti að skilrúm í lest hafi gefið sig, þegar verið var að dæla
síldinni um borð. Við það hafi slagsíðan svo komið á skipið stjórnborðsmegin og
nótin þyngt það að auki. Því brugðu skipverjar á það ráð að skera pokann frá
til að auðveldara yrði að keyra skipið upp. Nótin lenti þá í skrúfunni og
aðalvélin drap á sér. Vegna mikillar kviku ákvað áhöfnin á Arnþóri þá að
yfirgefa skipið og fór um borð í Sigurfara. Ekki var talið á það hættandi að
Sigurfari legðist að Anrþóri til að dæla úr honum og reyna að halda honum uppi.
Það hefði getað valdið miklum skemmdum á Sigurfara og stefnt bæði skipverjum og
skipinu í verulega hættu. Vír var settur á milli skipanna og stefnan sett á
land. Drátturinn sóttist seint enda lá Arnþór nær alveg á stjórnborðssíðunni.
Ljósavélin í honum gekk lengi vel og báturinn lensaði því, en um hádegið var
hallinn orðinn það mikill að drapst á ljósavélinni og þá hættu lensidælurnar að
virka. Við það jókst sjórinn mjög hratt og skipið seig ört að framan unz það
stóð á endann og sökk snögglega um eitt leytið. Björgunarbátnum og ýmsu öðru
lauslegu skaut upp skömmu síðar. Skipverjar á Varðskipinu Ægi fóru á gúmmíbátum
á staðinn þar, sem báturinn sökk og tíndu saman dótið og settu það um borð í
Sigurfara. Þá fór kafari af varðskipinu niður að nótinni af Arnþóri, sem náði
upp á 10 metra dýpi, til að skera af henni korkateininn. Það var gert til að
koma í veg fyrir að nótin færi í skrúfu annarra skipa, sem ættu leið þarna um.
Nákvæm staðsetning á flakinu er 64 gráður, 24 mínútur og 72 sekúndur norðlægrar
breiddar og 14 gráður, 22 mínútur og 03 sekúndur vestlægrar lengdar. Varðskipið
Ægir var á Bakkaflóa, þegar því baðst beiðni um aðstoð um klukkan fjögur í fyrri
nótt. Það var komið á staðinn um. klukkan 11.30 um morguninn, en þá var orðið
ljóst að Arnþóri yrði varla bjargað. Skipherra á Ægi var Höskuldur
Skarphéðinsson.
Arnþór var 155 tonna stálbátur, smíðaður í Austur-Þýzkalandi 1962 og lengdur
1966. Hann hét áður Valdimar Sveínsson VE.
Morgunblaðið. 13 október 1989.