14.10.2019 11:10

Söguleg veiðiför á togaranum Skallagrími RE 145.

Það mun hafa verið hinn 4 desember árið 1926 að Kveldúlfstogarinn Skallagrímur RE 145 hélt í veiðiferð og var stefnan sett á Vestfjarðamið, á Halann eins og svo oft áður. Þessi fengsælu fiskimið út af Ísafjarðardjúpi uppgötvuðust á öðrum áratug síðustu aldar og á árunum upp úr 1920 voru flestir togaraskipstjórarnir komnir upp á lag með að toga á þessari góðu veiðislóð. Sjálfsagt hafa skipverjar haldið að þessi ferð yrði ekkert öðruvísi en aðrar á undan. En það fór á annan veg og litlu mátti muna að enginn yrði til frásagnar um örlög skips og áhafnar. Skipstjórinn, Guðmundur Jónsson í Tungu ákvað að kasta í Flóanum á leið sinni vestur. En þá skall á hið versta veður um sunnan og vestanvert landið. Það þykir ótrúlegt lán að togarinn hafi ekki farist í veðri þessu, eins og máltækið segir,"Ekki verður ófeigum í hel komið"

Þessi frásögn hér að neðar skrifar Guðmundur Jónsson skipstjóri á Skallagrími í Sjómannablaðið Víking í febrúar árið 1946, eða 19 árum eftir þennan örlagaríka atburð. Guðmundur lést nokkrum mánuðum síðar, eða hinn 5 september 1946, aðeins 56 ára að aldri.


B.v. Skallagrímur RE 145 á siglingu.                                                     (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

         Söguleg veiðiför á togaranum                                    Skallagrími
Árið 1926, í byrjun desembermánaðar, eða fyrir réttum 19 árum, er haldið í veiðiför úr Reykjavíkurhöfn seinni hluta dags. Og eins og sjálfsagt var um þetta leyti árs, var ákveðið að fara á miðin fyrir Vestfjörðum norðan Ísafjarðardjúps, eða Halann. Þegar komið var út og norður af Gróttu, lét ég kalla á stýrimanninn, sem var Sigurður Jónsson frá Bakka á Seltjarnarnesi. Sigurður kom að vörmu spori, og ég segi við hann: "Taktu hér við stjórninni, ég ætla að leggja mig. Stefnan er N. N.V., og hafðu svo góðar gætur á öllu". Ég bjóst ekki við að sofa lengi. Ég fór niður í herbergi mitt, og er að líta í kortið af Faxaflóa. Dettur mér í hug að gaman væri að reyna vestur Hvalfellið eitt "hal" um leið og farið er þar framhjá. Veðri var svo háttað, að stinningskaldi var á af austri, úrkomulaust en skýjað. Útlit var ekki sem bezt. Þetta mið er ágætt fiskimið; er þá komið vestur og norður fyrir vestara hraun. Gengur oft fiskur þarna um, um áramótin, nýskriðinn vestan úr Jökuldjúpi. Ég kalla til Sigurðar upp á stjórnpallinn, og segi við hann: "Við skulum reyna eitt "hal" þarna á áðurnefndu miði, eða þegar komið er um 19 mílur á loggið frá Akureyjarbauju. Þú getur kastað og togað í einn klukkutíma". Sigurður þessi var þaulkunnugur á flestum slóðum flóans, eins og þeir Seltirningar aðrir. Eftir þetta líður ekki á löngu þar til ég er fallinn í væran svefn. Eftir fjóra tíma vakna ég, og skynja undir eins að skipið er enn á fullri ferð. Ég fer því upp á stjórnpallinn, og held að þar hafi ekki verið kastað, eða að það hafi orðið lítið vart við fisk, og Sigurður hafi haldið af stað vestur af þeim sökum, því það hafði ég sagt honum að gjöra ef honum litist ekki á veiðina. Hafði verið sett vakt og var Sigurður stýrimaður farinn niður. Ég spyr nú vökuformann um veiðina. Sagði hann að það hafi verið sæmilegur poki í drættinum af laglegum þorski, og ýsu hafði orðið vart í því.


Pokinn tekinn innfyrir en nokkrir eftir enn í belgnum.                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
En með því að veðurútlit fór versnandi, og ég bjóst við verra veðri í vændum vestra, lét ég snúa skipinu inn um aftur og hugði að reyna betur á þessu miði. Þegar þangað er komið, læt ég vörpuna út, og fer eftir dýpi, því að engin merki sáust vegna náttmyrkurs. Dreg ég nú í einn og hálfan tíma. Þegar varpan kemur upp, eru í henni tveir dágóðir pokar af þorski og stórýsu. Þykir mér nú vænkast útlitið, því að sannfærður var ég um það að ekki væri kastandi fyrir vestan. Læt ég nú út dufl á því dýpi sem mér fannst ráðlegast. Held ég síðan áfram veiðinni og fæ 2-3 poka í drætti meðan dimman er. Þegar birti af degi, örfaðist veiðin allt upp í 5-6 poka í drætti meðan birtunnar naut, meðfram af því að nú sá ég til miðanna. Um hádegisbil kom til mín enskur togari. Virtist mér hann gjöra sér lítið gagn, líklega vegna lélegra veiðarfæra. Var hann ávallt að sprengja belginn, því að aldrei fékk hann meira en poka í drætti, og gat það stafað af belgrifrildi. Þegar dimma tók, tregaðist veiðin aftur, en var þó sæmileg alla nóttina. Jafnframt versnaði veður, og gjörði þunga undiröldu. Var nú auðséð að uppgangs illviðri var í vændum af vestri eða norðri, og loftþyngdarmælir mjög lágur. Haldið var samt áfram við veiðina þótt aðstaða öll versnaði til muna. Reittist vel meðan verið var að, en undir dimmumótin versnaði svo að ekki þótti mér fýsilegt framhaldið. Tók ég upp duflið og hugsaði mér að reyna á Bollasviði og Leirukletti, en þau mið eru í suðurflóanum, eins og kunnugt er. Hafði vindur gengið um daginn í vestrið, og þá þyngt undirsjóinn svo að minnstu munaði að hryggjaði á hraununum. Ég hélt nú suður í flóann og var vont að ferðast suðureftir. Kom ég þar undir kvöldið, leist ekki á að kasta vegna dimmviðris og drungaútlits.
Varð það úr að ég fór inn undir Keflavík og lagðist þar. Einnig fannst mér réttast að hvíla skipverja, sem höfðu haft undanfarið langa vinnustund og erfiða. Það er skemmst frá að segja, að við lágum þarna í tvo daga og eina nótt. Illviðri var á, mestan tímann.


Fiskur flattur um borð í togara.                                                           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Undir birtuna annars dags hægði lítið eitt. Fór ég því út að athuga hvernig umhorfs væri. Var slarkfært togveður fyrst og fór batnandi. Þó var útlit afar illt. Þegar bjart var orðið, varð ég var við tvö skip fyrir norðan hraun. Vegna þess að lítið var að hafa þar sem ég var, kippti ég norður að þessum skipum sem ég sá þar. Voru það Hannes ráðherra og útlendingurinn, sem hafði verið með mér áður. Þarna varð vel vart um daginn og héldum við okkur norðarlega í Akurnesingaforum. Stórt og öflugt dufl var þarna, sem Englendingur átti, og á því gott gasljós. Vindur var hægur þennan dag, en biksvartur sorti í suðvestrinu og allt upp í norðvestrið. Undan þessum sorta ýfðist undiraldan ótrúlega, svo að öðru hvoru braut úr toppnum á stærstu öldunum, sem sýndi það að þær kenndu grunns. Þegar svona stendur á, og veðurútlit þannig, að augljóst er hvað er í vændum, er öruggast að hafa tímann fyrir sér og forða sér meðan má og komast í var, sérstaklega þar sem staðurinn er stórhættulegur, eins og hér var um að ræða. En það fer svo fyrir flestum fiskimönnum, að ef vel er vart fiskjar, er þeim um og ó að hætta veiðum meðan stætt er, og því fer stundum sem fer, að slysin verða. Eins fór fyrir mér í þetta sinn. Eftir að dimma tók skellti hann á stórviðri af suðvestri og kl. um 10 e. h. er komið ofsarok. Við höfðum tekið inn vörpuna undir eins og byrjaði að hvessa, bundum hana vel og gengum frá öllum lúkugötum eins og bezt varð. Við héldum okkur við duflið, sem stóð á 30 faðma dýpi. Vonaði ég að duflið stæði af sér veðrið og sjóinn, en svo varð ekki, því að um lágnættið hverfur ljósið, og var nú ekki að treysta á annað en lóðið, sem var handlóð, og því ekki vel nákvæmt. Um kvöldið, áður en fullhvessti, hafði Hannes ráðherra, skipstjóri Guðmundur Markússon, farið innar í Flóann og komst hann inn á Reykjavíkurhöfn. Ég stóð á stjórnpalli og lét lóða öðru hvoru, dýpið ávallt um og yfir 30 faðmar. Nú er eitt að nefna. Reynslan hefur sýnt, að í slíkum ofveðrum getur verið stýrt óaðfinnanlega í veður og sjó, og því gæti virtzt að skipið fari áfram, en svo hefur orðið sú staðreynd, að skipið hefur farið aftur á bak. Þar sem við vorum staddir, hagar svo dýpi, að áll eða dýpi er, sem kallast Forir. Dýpi þetta gengur inn fyrir Akranes, beygir til suðurs fyrir utan Gróttu og er þar kallað Djúp. Nær þessi áll allt suður á móts við Vatnsleysur.


Áhöfnin á Skallagrími RE 145 árið 1924.                                          Ljósmyndari óþekktur.

Utan við og út í Flóanum er mikið grynnra, svo að þar sem grynnst er, eru 8-9 faðmar á Vestrahrauni, en um 5-6 faðmar á Syðrahrauni, eins og kunnugt er sjófarendum. Ég vissi það, að ekki mátti mikið grynna dýpið, því að þá væri voðinn vís. Samt var nú farið að grynna þegar leið á nóttina, upp í 25 faðma. Nú var spurningin: "Hefur skipið farið aftur á bak í þessu voðaveðri, og er því að nálgast Mýraskerin, eða hefur það tekið áfram og erum við að nálgast grunnbrotin úti í Flóanum? Það var ekki auðvelt að ákveða það með vissu, en ég þóttist viss um, að öllu væri óhætt meðan við værum á yfir 20 faðma dýpi. Klukkan 4 um nóttina lægði mesta ofsann. Það skal nefnt hér, að eftir að duflið hvarf, var Englendingurinn ávallt kippkorn fyrir aftan skip okkar, og reyndi hann auðsjáanlega að vera sem næst okkur og tapa okkur ekki úr augsýn. Var það okkur ekki til baga. Eins og áður er sagt, var farið að hægja kl. um 4, og kl. tæpt 5 var stöðvað og lóðað. Reyndist dýpi um 19 faðmar. Kalla ég nú á Sigurð stýrimann, því að nú ætlaði ég niður að hvíla mig, vegna þess hve veður fór batnandi. Lét ég reka undan vindi meðan við töluðumst við. Vorum við báðir staddir í herbergi mínu. Um þetta leyti var á verði á stjórnpalli vaktarformaður, sem var Þórður Þorsteinsson, síðar skipstjóri á botnvörpungnum Baldur. Hann fórst með mótorskipinu Þormóði í því stóra slysi. Þeir, sem með honum voru á verðinum, voru Aðalsteinn Jónsson, nú lögregluþjónn í Reykjavík, frændi minn, og Ólafur Jónasson, giftur systur konu minnar. Hann dó seinna af slysi um borð í Skallagrími á síldveiðum (hryggbrotnaði). Klukkan 5 voru vaktaskipti. Fór Ólafur þá fram í híbýli háseta til að kalla út næstu vakt. Ég kalla til Þórðar og segi honum að andæfa í vindinn, vélin var að byrja gang og skipið var komið skáhalt í vindinn.


B.v. Skallagrímur til hægri. Myndin er tekin frá Garðari GK 25.             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Kallar þá Þórður að það sé að koma brotsjór yfir skipið. Er ekki að sökum að spyrja. Sjórinn kom yfir stjórnborðskinnung og aftur yfir. Skipið kastast á bakborðshlið og á hvolf, þó þannig að það fór ekki hringinn yfir, heldur réttist aftur og lá síðan alveg á hliðinni með möstrin í sjó. Streymdi nú sjór í skipið þar sem op voru á, einnig ofan um uppgönguna í herbergi mínu, en þar stóðum við niðri, eins og áður er sagt, ég og stýrimaðurinn. Loftskeytamaðurinn, Einar Benediktsson, lá á þverbekk í herbergi mínu. Í kastinu, sem kom á skipið, tókst hann upp af bekknum og barst með loftinu inn í hvílurúm mitt, en það var bakborðsmegin. Þar mættumst við og rákumst saman, því ég hafði einnig komizt upp í loft og inn í "kojuna". Á meðan hafði Sigurður stýrimaður skorðast við stigann. Uppi í stjórnpalli hafði allt brotnað, sem brotnað gat, svo sem timburbygging kringum gluggana, hurðir og gólfflekar. Þórður hafði fleygt sér á gólfið og hélt sér um fót vélsímans. Aðalsteinn hafði verið við stýrishjólið. Krækti hann báðum höndum í gegnum hjólið og hélt fast, en fætur hans voru einhversstaðar utan við stýrishúsið, því að maðurinn er allra manna lengstur, röskir 2 metrar á hæð. Niðri hjá okkur leit ekki vel út. Við reyndum að komast á fætur, og stóðum þá að brjósti og hálsi í sjó, eftir hæð hvers og eins. "Þetta dugar ekki" segi ég við Sigurð, sem enn stóð í stiganum. "Við verðum að komast upp, annars köfnum við hér eins og kettlingar". Enn streymdi sjór niður, og þó minna, svo að við komumst allir upp. Þegar þangað kom," urðum við að standa á þilinu,. því að gólfið var lóðrétt. Þegar ég komst upp, og fór að virða fyrir mér ástandið, gat ég ekki séð annað en að skipið væri að sökkva. Ég áleit það óhjákvæmilegt sökum þess, að þegar skipið fór á hvolf, heyrðist brak og brestir ógurlegir, sem ég hélt að stöfuðu af því að skipið væri að springa og rifna.
Skipið lá alveg á bakborðshlið. Formastrið var heilt, en stöngin í toppnum af. Barðist mastrið í bárutoppana.


Með gott hal á síðunni. Myndin er tekin um borð í Ver GK 3.                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.  

Skipsskrokkurinn var að hálfu upp úr sjó, sjómálið um lúgugötin. Einstaka bára skall upp undir hástokkana á stjórnborða. Mér varð það fyrst fyrir að miða við þetta hvort skipið lækkaði í sjónum og væri því að sökkva. Bað ég þá menn, er voru þarna með mér, að grennslast eftir hvort nokkuð væri til sem hugsanlegt væri að nota sem flot fyrir fólkið ef til kæmi. Ég vissi það að bátarnir voru horfnir. Mér var einnig ljóst, að ég yrði að koma skipinu úr stórbrotunum, sem voru skammt frá. Klifraði ég því upp að vélsímanum, sem í þessu tilfelli mátti segja að væri uppi í loftinu. Hringdi ég niður í vélarúmið á ferð áfram, og það undarlega skeði, að vélamaðurinn svaraði - og vélin fór í gang.. Og það sem mér þótti einnig undarlegt; Skipið lét að stjórn, þótt það lægi svona. Þegar ég fór að virða fyrir mér sjólagið, var til kuls að sjá brimskafl slíkan sem skriðjökull væri; bar hann undarlega hátt við loft að sjá. Þaðan heyrðist voðalegt brimhljóð, hærra en svo að ég geti líkt því við neitt, sem ég þekki. Þarna úti voru aðalbrotin. Þetta, sem við fengum á okkur, var aðeins afleiðing þaðan, enda var skipið á ca. 20 faðma dýpi. Fyrir það að vélin fór í gang, komumst við svo langt frá brotunum, að ekki var hætta á að við fengjum annað. Gufuþrýstingurinn minnkaði ört á katlinum, og var því ekki hægt að halda vélinni í gangi nema stutta stund, en þetta bjargaði þó því að nú var öruggt fyrir brotunum. Veðrið var nú orðið dágott og bjart í lofti, vindur genginn meir til vesturs. Sá ég nú Reykjavíkurljósin, og virtumst við vera staddir um Melakrikann eða Kambsleiru.


B.v. Skallagrímur RE 145 á toginu.                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Nú er að lýsa því hvernig umhorfs var í skipinu. Frammi í hásetabyrginu, sem er neðan þilfars, var ástandið svo að það meira en hálffylltist af sjó. Kom það af því, að niðurgangur í það er bakborðsmegin út við byrðinginn undir hvalbak og streymdi þar sjórinn viðstöðulaust niður. Þar voru staddir allir hásetar, sem þar bjuggu, nema þeir sem voru uppi á verði. Ólafur, sem áður er nefndur, var nýsloppinn niður þegar áfallið varð. Allir þeir er lágu í rúmum sínum í stjórnborðssíðu, hentust fram úr. Hinir komust úr rúmum sínum með erfiðismunum. Auðséð var að ekki varð komizt upp um aðaluppgönguna, því að þar kom blár fossinn niður. Þó varð einn hásetanna til að freista uppgöngunnar. Stakk hann sér þrisvar í fossinn, eins og lax, en kom jafnharðan niður aftur. Sagðist hann líklega hafa komizt upp ef ekki hefðu vírar og annað rusl verið þar fyrir og hálflokað hurðunum. Þessi harðgerði piltur var Benedikt R. Steindórsson, vestan úr Hnífsdal, og hefur nú verið mörg ár heppnisformaður á vélbátum þar vestra. Þá varð að reyna aðra útkomu. Svo er háttað á enskbyggðum togurum, að uppi yfir miðju byrgi er hreyfanlegur gluggi, sem er hafður svo stór að maður getur smogið upp í gegnum hann ef þörf krefur. Þverslá úr greiðum og traustum viði er höfð í hæfilegri hæð, svo að menn geti með góðu móti komizt þar upp og út um gluggann. Þessi útbúnaður er mjög nauðsynlegur, bæði þegar svona stendur á, og eins í árekstri við önnur skip, sem gæti ef til vill Iokað fyrir uppgönguna.Þarna var nú ekki um annað að ræða en að nota þennan glugga, og var það gjört. Að vísu sögðust sumir ekkert fara upp, það væri sama hvort þeir dræpust þarna niðri eða uppi, skipið væri auðsjáanlega sokkið eða það sykki bráðlega. Samt komu nú allir upp. Ég benti þeim að koma til mín. Það varð ekki gengið eftir þilfarinu eins og venjulega, heldur komu þeir utan á byrðing skipsins, sumir skríðandi, aðrir gangandi, hver eftir sínum geðþótta og hæfni. Enginn sýndi minnsta vott um ótta, heldur jafnvel hið gagnstæða. Í þann sama mund eru allir komnir til mín úr káetunni, sem eru híbýli manna aftast í skipinu, eins og kunnugt er.


Togarar við bryggju á Hesteyri í Jökulfjörðum. Þarna eru 3 Kveldúlfstogarar. Togarinn næstur í mynd er Hafnarfjarðartogarinn Ver GK 3.            (C) Guðmundur Ásgeirsson.

Þeir lýstu því fyrir mér, að þar væri mikill sjór, og sérstaklega væri orðið mikið af sjó í véiarúminu. Ég spurðist fyrir um hvort nokkur hefði orðið var við bilun á skipinu sjálfu, þannig, að hætta væri á að það sykki. Þess sögðust þeir ekki hafa orðið varir, við fljóta athugun. Ég var nú orðinn viss um að skipið héldist á floti. Skipt var nú liði og skyldu vera tveir hópar, annar hópurinn ætti að ausa vélarúmið, hinn átti að brjótast fram í fisklest og fleygja fiskinum úr bakborðshlið upp í stjórnborðssíðu. Í þessa hópa skipaði ég mönnum þannig að ég ávarpaði hvern með nafni, og sagði um leið í hvorum hópnum hver skyldi vera, ásamt smáuppörvun, sem þó þurfti ekki. Fyrir liðunum voru: Ólafur Teitsson bátsmaður, frægur dugnaðarmaður, skyldi hann sjá um verkið í fiskilestinni, en Jónas Ólafsson fyrsti vélstjóri skyldi sjá um austurinn úr vélarúmi. Sigurður stýrimaður átti að vera milligöngumaður milli mín og flokkanna. Sjálfur ætlaði ég að hafa gát á öllu frá stjórnpalli. Verkið var nú hafið umsvifalaust og orðalaust, og var þá klukkan orðin rúmlega hálf sjö. Þeir, sem í lestina fóru, urðu að brjóta tréhlera mjög öflugan, sem lokaði göngum aftur í ketilrúmið, en göng þessi eru notuð þegar kol eru geymd í lestinni, annars er þeim lokað með þessum hlera. Það, sem margir hafa dáðst að, bæði útlendir og innlendir menn, sem eru dómbærir á þetta ástand sem skipið var í, var, að hver maður skyldi hlýða orðalaust skipun undir þessum kringumstæðum, þar sem enginn vissi með vissu hvort skipið sykki eða ekki, og jafnvel meiri líkur á að það mundi ekki fljóta, vegna þess að enn rann sjór í hásetabyrgið fremst í skipinu. En einmitt af þessari ástæðu var okkur lífsnauðsyn að rétta skipið við, svo mikið, að uppgangan kæmi úr sjó, og það sem fyrst. Unnið var af miklu kappi niðri í skipinu. Var af miklu að taka. Til dæmis voru öll eldholin á gufukatlinum (þau eru 4) í kafi, og segir sig sjálft hvaða óhemju vinna var að ausa þetta allt með venjulegum vatnsfötum. Mikið lán var það, að veður og sjór lægði mikið þegar leið á morguninn, og gjörði það okkur kleift að hamast við verkið, einkanlega við austurinn. Klukkan milli 11 og 12 á hádegi er búið að ausa svo að hugsanlegt var að lifað gæti í eldholnnum og var þá kveikt upp.


B.v. Hannes ráðherra RE 268 var á sömu slóðum þegar óveðrið gekk yfir. Togarinn náði til hafnar í Reykjavík.             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Skömmu áður var búið að kasta hverjum fiski úr bakborðshlið upp til stjórnborðs. Var skipið orðið hálfreist, eða möstrin mynduðu ca. 45° horn. Meira var ekki hægt að rétta, vegna þess að ógjörlegt var að kasta til kolum, en þau fóru öll úr stjórnborðs- yfir í bakborðshólf. Það gekk illa að láta lifa í eldunum undir katlinum, sökum þess að ekki "trekkti", en það kom af því að sjór hafði komizt í sótrör öll, en sótið varð að þéttri klessu, sem hleypti ekki vindgusti í gegn. Samt varð komið upp smáþrýsting það miklum, að hægt var að hreyfa vélina með hægri ferð. Það mátti ekki tæpara standa, því að nú hafði rekið allan tímann undan vindi og var skipið komið í mynni Hvalfjarðar, átti skammt í land við Andriðsey. En alltaf leggst eitthvað til, og hefðum við líklega rekið í land ef ekki hefði viljað svo til, að þegar skipið fékk áfallið, hafði fremri vörpuhlerinn á bakborða farið fyrir borð og rutt með sér allri vörpunni með rúllum og öðru, og hékk þetta við afturhlerann, sem fastur var inni í afturgálga. Dró þetta drifakkari úr ferð skipsins, og varð líklega til þess að ekki strandaði, ofan á allt annað. Merkilegt má það heita, að engin teljandi meiðsli urðu á neinum manni við þetta ógnaráfall. Þó urðu tveir af skipshöfninni illa staddir um tíma. Annar var matsveinninn, Hillaríus Guðmundsson, mjög harðgerður og duglegur maður. Hann var staddur uppi í eldhúsi, sem er bakborðsmegin í yfirbyggingu á þilfari, en vegna þess að það var þeim megin, fylltist það og munaði minnstu að Hillaríus drukknaði þar. Með harðfengi kraflaði hann sig úr kafinu og komst út úr húsinu. Hinn var Tryggvi Tómasson kyndari. Þegar sjórinn kom yfir skipið, stóð svo á fyrir honum, að hann var að snúa loftrörinu, en loftrör eru, eins og allir vita, nokkuð hátt sett, hærri en stjórnpallurinn. Þegar Tryggvi sér sjóinn gínandi himinhátt yfir sér, verður honum það til lífs að í einhverju ofboði eða samkvæmt hárréttri ákvörðun, stingur hann sér inn í loftrörið; verður þar fastur og losnaði ekki þaðan fyrr en eftir þó nokkuð langan tíma. Hafði hann misst meðvitund og legið í því ástandi nokkuð lengi, en fór svo að umla og kalla á hjálp.


Skipverjar vinna við trollið.                                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Náðist í hann eftir nokkra fyrirhöfn. Hann var lengi að jafna sig eftir þetta. Eins og fyrr var frá sagt, var vélin komin í gang. Var lónað í áttina til Reykjavíkur, látin upp þau segl sem tiltækileg þóttu, og gekk nú hægt í áttina. Vindur hjálpaði til, því nú var hann genginn í norðvestrið, en hægur. Þegar tók að nálgast, höfðu menn tekið eftir því að ekki mundi allt með feldu á þessu skipi. Sendur var á móti okkur mótorbátur, tilheyrandi höfninni í Reykjavík. Lagðist hann við síðuna og létti undir, svo að allt gekk vel inn á höfn. Margt manna var viðstatt þegar komið var að bryggju. Undruðust menn yfir hvað skipið var illa komið, ekki tannstöngulsefni til laust ofan þilja. Allt fór, sem losnað gat: kistur, tunnur og margt sem geymt var á bátapalli, báðir lífbátarnir með bátauglurnar með sér. Það af því, sem ekki fór af járni, var kengbeygt. Gátu menn varla skilið, þótt skýrt væri fyrir þeim, hvernig slíkt mætti ske. Allir vorum við skipsmenn orðnir slæptir og þreyttir, ekki þurr þráður á neinum og enginn hafði fengið í sig neitt, utan kaldan vatnssopa öðru hvoru, síðan daginn áður. Urðu allir að fara í land og heim, því að öll föt, sem áttu að vera til skipta, voru auðvitað blaut. Svona er nú sagan af því hvernig farið getur úti í Flóanum ef ekki er öll varúð viðhöfð til að forðast grunnin, í vestan- eða suðvestan illviðrum, einkanlega ef ólga er í hafinu. Það er ótalið, hvað margir hafa orðið fyrir barðinu á brimbrotum þeim. Frá því að ég fór að stunda sjó, í rúm 40 ár, man ég eftir nokkrum skipum sem áttu leið hér inn í Flóann og ekki komu fram, bæði þýzk og ensk fiskiskip, ásamt innlendum fleytum. Og ekki munaði miklu í þetta sinn að við kæmum ekki í land, aðeins því að skipið lagðist á bakborðshliðina en ekki á stjórnborðshlið. Niðurganga í vélarúm og káetu er stjórnborðsmegin í þilfarsbyggingunni, og var því ofan sjómáls meðan skipið lá á hliðinni. Það hlífði því að ekki fylltist allur afturhluti skipsins, en það hefði skipið ekki afborið og orðið að hverfa í djúpið með allri áhöfn, eins og svo mörg önnur. Þótt illviðri þessu tækist ekki að fyrirfara Skallagrími þessa nótt, þá varð annað skip fyrir því. Skip, sem var mörgum sinnum stærra.


Saltfiski landað úr Skallagrími í Reykjavíkurhöfn.                              (C) Magnús Ólafsson.
  
Hér norður í Flóanum var stórt flutningaskip, norskt, Balholm að nafni, sem ekki réði við neitt í slíku ofviðri og varð að hrökkiast undan veðri og sjó ósjálfbjarga, án vonar um hjálp, því að strönd sú, sem stefnt var á, skilar engu með lífi. Fórust þar 20-30 menn, þar á meðal ung kona skipstjórans, í brúðkaupsferð, og nokkrir Íslendingar. Skallagrímur lá lengi í höfn til viðgerðar, eins og að líkum lætur. Fiskinum var komið á markað í Englandi, með aðstoð annars skips, sem átti leið út um þetta leyti. Aflinn var óvenju mikill, sem hafði komið þennan stutta tíma sem veiðiveður var, ca. 36 tíma. Leit fiskurinn furðu vel út eftir allt þetta hnjask, sem hann hafði orðið fyrir, og var í óaðfinnanlegu ástandi þegar á markaðinn kom. Ekki man ég nú hvað hann seldist fyrir, enda skiptir það minnstu máli. Ég hef oft hugsað um það, og fyrir löngu, að láta koma lýsingu af slysi þessu fyrir almenningssjónir. Vakti það eingöngu fyrir mér að það gæti orðið til aðvörunar öðrum sjófarendum. Að frásögn þessi kemur ekki fyrr, kemur til af því, að mörg ár eftir þennan atburð var hann mönnum í fersku minni. En nú fer þetta að falla í gleymsku og fyrnast, eins og annað, og finnst mér því rétt að birta frásögn þessa um þennan einstæða atburð. Mætti það kannske verða einhverjum í huga þegar hann á leið inn eða út Faxaflóa í vestanrokum með stórsjóum, að víkja skipi sínu framhjá hraununum, sem mér er ekki grunlaust um að sé að grynna á, á seinni árum, svo að ekki fari fyrir þeim eins og fór fyrir mér í þetta sinn, en sem af einskærri heppni, - eins og frásögnin ber með sér - varð ekki afdrifaríkara. Viti sá, er settur hefur verið á Þormóðssker, verður ómetanleg stoð öllum sjófarendum sem eiga leið um Flóann norðan hrauna, og hefði vitinn átt að vera þar löngu fyrr. Æskilegt væri að ljós hans gæti lýst sem fyrst, en það hefur dregizt að koma því á sinn stað af óviðráðanlegum ástæðum.

Frásögn Guðmundar Jónssonar skipstjóra.
Sjómannablaðið Víkingur. 2 tbl. 1 febrúar 1946.



Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30