29.10.2019 21:24

B. v. Goðanes NK 105 að landa afla sínum í gúanó.

Nýsköpunartogarinn Goðanes NK 105 er hér að landa afla sínum í gúanó. Ég veit ekki hvar, kannski á Hjalteyri í Eyjafirði. Eins og sést er skipið mjög hlaðið og aflinn sjálfsagt karfi, sem á þessum árum fór mest megnis í bræðslu. Fljótlega upp úr 1950 fóru landsmenn að vinna karfann til matvæla framleiðslu. Á árunum upp úr 1950 fór að draga úr afla og aflaverðmæti togaranna, bæði vegna útfærslu landhelginnar (1952) þar sem skipunum var meinað að veiða á sínum hefðbundnu veiðislóðum sem þá urðu innan landhelginnar, og svo í öðru lagi stefna ríkisstjórnarinnar í peningamálum kom hart niður á útgerðinni. Þá var oft deilt um það í byggðarlögunum sem voru með bæjarútgerðirnar hvort togararnir lönduðu heima og héldu uppi atvinnu, eða sigldu með aflann á erlendan markað til að fá hærra verð fyrir aflann frekar að landa heima. Nýsköpunartogararnir öfluðu margfalt á við þá gömlu, voru miklu stærri skip og betur búin en þau gömlu. En stjórnvöld unnu gegn "börnum" sínum (Nýsköpunartogurunum) og upp úr 1960 fór af stað niðurlægingartímabil togaranna og margir þeirra seldir úr landi fyrir slikk og oft minna en það. 
Goðanes NK 105 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1947. 655 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Kom fyrst til heimahafnar, Neskaupstaðar annan dag jóla það ár. Goðanes var einn af tíu togurum, en af minni stærðinni, sem smíðaðir voru í Beverley fyrir íslendinga á árunum 1947-48. Goðanes var sannarlega glæsilegt og einkar fallegt skip.


B.v. Goðanes NK 105 að landa í gúanó.                                                   (C) Magnús Hermannsson.

         Heimalöndun togaranna

Það varð tilefni til verulegrar óánægju í bænum, að Egill rauði skyldi ekki leggja afla sinn upp í heimahöfn nú síðast, eins og áformað hafði verið, en ýmis atvik réðu því að frá því var horfið. Í fyrsla Iagi var afli í minna lagi og því afar óhagstætt að sigla með hann svo langa leið, sem um var að ræða. Í öðru, lagi var óttast um gæði fisksins, enda kom það á daginn, að mikill hluti hans var ekki flökunarhæfur og enn meira hefði án efa skemmst, ef siglt hefði verið alla leið til Norðfjarar. Í þriðja lagi stóð fyrir dyrum skipstjóraskipti og var hinn nýji skipstjóri í Reykjavík. Við þetta bættist svo það, að útgerðin berst nú mjög í bökkum fjárhagslega og við ráðstöfun afla verður að taka mikið tyllit til hagsmuna útgerðarinnar. Sé það ekki gert, getur það áður en varir, haft örlagaríkar afleiðingar. Það er eðlilegt, eins og nú er ástatt með atvinnu í bænum, að það valdi vonbrigðum og óánægju þegar vinna gengur mönnum úr greipum. En menn verða að setja sig inn l krigumstæðurnar og gera sér Ijós þau atvik, sem valda viðburðanna rás. Menn mega vera þess fullvissir, að forráðamenn togaranna, gera það ekki að gamni sínu að láta skipin leggja upp annarsstaðar en hér. Heyrzt hafa raddir um það að Egill rauði hafi gert lítið að því, að leggja, upp heima og hefir óspart verið undir þær raddir ýtt af sumum. Fyrir því þykir mér hlýða að gera grein fyrir þessum efnum, svo menn sjái hvernig í þessu liggur.
Sjálfir geta menn svo dæmt um það, hvort með sanngirni var til þess ætlast, að um frekari heimalandanir hafi verið að ræða. Frá áramótum til 5. október hefir Egill rauði landað innanlands 2.960 tonnum af ísfiski. Af þessu magni hafa 2.075 tonn verið lögð upp í Neskaupstað, en í öðrum höfnum 885 tonn, þar af voru losuð á Eskifirði og Fáskrúðsfirði 198 tonn, vegna þess, að löndun fékkst ekki í Neskaupstað, af því frystihúsin voru full. Fram að síðustu mánaðarmótum hafði. Egill aðeins lagt á land á þessu ári 376 tonn utan þeirra hafna, sem hér eru nefndar, eða sem svarar rúmlega einum farmi. Það virðist því ekki ástæða til getsaka um að sneitt sé hjá löndun heima, enda hefir þvert á móti verið landað heima þegar tök voru á og þá ekki alltaf farið eftir því, sem hagkvæmast var útgerðinni. Síðasti farmur Egils lagði sig á rúmar 100 þúsund krónur. Að sigla með hann hingað austur hefði haft í för með sér að minsta kosti 20 - 30 þúsund króna aukakostnað, og getur hver maður séð að frá sjónarmiði útgerðarinnar var þetta frágangssök. Um Goðanes gegnir nokkru öðru máli. Það hefir losað miklu meira af ísfiski sínum utan heimahafnar, en Egill. Alls hefir Goðanes lagt upp innanlands á þessu ári 2.259 tonn af ísfiski þar af í Neskaupstað 1.097 tonn, en 1.168 annarsstaðar. Auk þess hefir það lagt upp hér heima einn góðan saltfiskfarm. Báðir togararnir hafa þá á þessu ári lagt upp í bænum 3.172 tonn af ísfiski. Hve mikil vinnu,laun hafa verið greidd við löndun og vinnslu á þeim afa, get ég ekki gízkað á, en væn fúlga hlýtur það að vera. Hætt er við, að margir hefðu misst spón úr aski sínum, ef þessi afli hefði ekki borizt á land hér. Það veldur vissum erfiðleikum með að fá afla heim, að nú um þriggja mánaða skeið hefir aðeins annað skipið stundað ísfiskveiðar. Ef þau hefðu bæði veitt í ís, var miklu hægara um vik, til dæmis að láta skipin leggja upp heima til skiptis. En fullvíst má telja, að Goðanes leggi ekki upp meiri afla hér á þessu ári, því þegar það kemur úr yfirstandandi Grænlandsferð, liggur fyrir að skipið fari í lögboðna klössun og verður henni varla lokið fyrr en um hátíðar. Við verðum því um skeið að láta okkur nægja útgerð eins togara og vinnu við þann afla, sem hann kann að leggja hér á land. Ég hefi nú gert grein fyrir þessum málum eins og þau liggja fyrir. Sjálfir verða lesendur að beita dómgreind sinni til að dæma um það, hvort ástæða sé til að áfellast forráðamenn Bæjarútgerðarinnar fyrir að hafa haldið illa á spilunum hvað heimalöndun snertir.

Austurland. 26 október 1952.


Flettingar í dag: 1882
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1192284
Samtals gestir: 83672
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:39:31