07.11.2019 20:19

B. v. Ágúst GK 2.

Nýsköpunartogarinn Ágúst GK 2 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947. Hét fyrst Elliðaey VE 10 og var í eigu Bæjarútgerðar Vestmannaeyja h/f í Vestmannaeyjum. 664 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 717. Kom fyrst til heimahafnar hinn 8 september sama ár. Togarinn var seldur 7 október árið 1953, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar h/f í Hafnarfirði, fékk nafnið Ágúst GK 2. Togaranum var lagt árið 1964 og var svo seldur sama ár, Minas Stakhakis og Vasilies Manousos (Lindos Meffan Atlantiki Fishing) á Krít. Fékk nafnið X Filas (Sverðfiskurinn). Skipið var lengt um 12 metra og einnig var sett 1.750 ha. Díesel vél í skipið. Ekki veit ég um afdrif skipsins, en allar upplýsingar eru vel þegnar.

Heimild:
Upplýsingar um X Filas.
Tryggvi Sigurðsson.


B.v. Ágúst GK 2. á útleið frá Hafnarfirði.                                                              Ljósmyndari óþekktur.

    Bæjarútgerð Hafnarfjarðar kaupir                           togarann Elliðaey

   Kaupverðið er 5,3 milljónir króna 

Á aukafundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, sem haldinn var kl. 1.30 s. l. föstudag, voru samþykktir bráðabirgðasamningar þeir, sem gerðir voru fyrir nokkru um kaup á togaranum Elliðaey. Kaupverðið er kr. 5,5 milljónir, en frá því dragast kr. 200 þúsund, sem Bæjarútgerð Vestmannaeyja tekur þátt í standsetningu skipsins. Raunverulegt kaupverð skipsins, í því ástandi, sem það nú er í, er því kr. 5,3 milljónir.
Að undanförnu hafa staðið yfir samningar á milli Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og Bæjarútgerðar Vestmannaeyja, um sölu á togaranum Elliðaey til Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Var gengið frá bráðabirgðasamningi í því efni 20. sept. s. l. í Vestmannaeyjum og mættu þar fyrir hönd Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar þeir Stefán Jónsson, Ásgeir G. Stefánsson og Gunnlaugur Guðmundsson, einnig var Guðmundur Gissurarson með í förinni. Vestmannaeyingar höfðu rétt til að ganga inn á samninga þá, sem gerðfc1 voru til 1. okt., en skipið var flutt til Reykjavíkur til botnskoðunar. "Þar sem Vestmahnaeyingar höfðu ekki neytt forkaupsréttar síns fyrir tilskilinn tíma, var ekki annað eftir en að ganga frá kaupunum á áðurgerðum samningsgrundvelli og var því haldinn fundur í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, þar sem einróma var samþykkt að togarinn skyldi keyptur og var jafnframt samþykkt heimild til handa bæjarstjóra að undirrita samningana. Eins og áður er sagt, er togarinn keyptur í því ástandi, sem hann er nú í og þarf talsvert mikið að gera við hann og það nokkru meira en sem muni nema þeim kr. 200 þús., sem Bæjarútgerð Vestmannaeyja tekur þátt í standsetningarkostnaði. Það má því búast við að skipið fari yfir 5,5 millj. kr., þegar það verður tilbúið til veiða. Við þessi togarakaup er mjög lítil útborgun eða um ½  milljón kr. og ætlar Útvegsbankinn að lána Bæjarútgerðinni það fé. Einnig er von til að bankinn láni fé til að standsetja skipið. Hér er því að langmestu leyti um yfirfærslu skulda að ræða og eru sumar þeirra mjög hagstæðar eins og t. d. stofnlán o. fl. Bæjarbúar fagna því að fá fleiri atvinnutæki í bæinn og vonandi fylgir gæfa og gott gengi hinu nýja skipi Bæjarútgerðarinnar, svo að það megi verða til eflingar og blessunar atvinnulífinu í bænum.  

Hamar. 18 tbl. 4 október 1953.


B.v. Ágúst GK 2 með trollið á síðunni.                                        (C) Sigurgeir B Halldórsson.


B.v. Ágúst GK 2 með trollið á síðunni.                                                    (C) Sigurgeir B Halldórsson.


Útlitsteikning af b.v. Elliðaey VE 10 / Ágúst GK 2. Ég á þessa teikningu á pappír og hún er 2,40 cm. á lengdina og 1,10 ´cm. á hæðina.     (C) Þórhallur S Gjöveraa.


B.v. Elliðaey VE 10, síðar Ágúst GK 2. Myndin er nú ekki nákvæm, allt of margir gluggar í brú togarans, en þetta er mjög góð mynd.                 (C) George Wiseman.

   "Ágúst" seldur fyrir 1,4 milljónir                               króna

Togarinn Ágúst, eign Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, hefur verið seldur til Grikklands fyrir 12 þúsund sterlingspund, eða rúmar 1,4 milljónir íslenzkra króna. Bráðabirgðasamningar hafa þegar verið undirritaðir milli útgerðarinnar og kaupendanna, Minas Stahakis og Vasilies Manousos, en þeir eru frá Pireus á Krít. Samkvæmt samningnum skal togarinn afhentur hinum nýju eigendum innan mánaðar frá því að öll nauðsynleg leyfi hafa fengizt fyrir sölunni. Þessir sömu Grikkir hafa einnig gert kauptilboð í togarann Sólborgu og nemur það 14 þúsund pundum. Endanlegt svar hefur enn ekki fengizt við því tilboði. Grikkirnir eru nú að leita fyrir sér með að ráða íslenzka sjómenn til að sigla Ágústi til Grikklands. Ágúst var áður eign Vestmannaeyinga og hét þá Elliðaey.

Morgunblaðið. 13 september 1964.







Flettingar í dag: 326
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 276
Gestir í gær: 42
Samtals flettingar: 1057972
Samtals gestir: 76542
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 17:27:57