20.11.2019 17:36
Siglufjörður og síldin.
Siglufjörður á fjórða áratugnum. (C) Vigfús Sigurgeirsson.
Siglufjörður
og síldin
Síldveiðarnar eru orðnar mikilsverður þáttur í lífi
Íslendinga. Síldarmiðin við Norðurland eru auðug náma, sem eigi aðeins
íslendingar heldur og aðrar þjóðir, og þá fyrst og fremst Norðmenn ausa af, svo
og Danir, Finnlendingar, Svíar, Þjóðverjar og Lettlendingar. Þó að ýmsar
síldveiðistöðvar og merkar sjeu á Norður og Vesturlandi er það þó einn staður
öðrum fremur, sem öllum dettur í hug, þegar minst er á síld og það er
Siglufjörður. Þar er miðstöð allra síldveiða við Ísland og þar kemur mestur afli
á land. Siglufjörður og síld eru tvö óaðskiljanleg hugtök. Það voru Norðmenn,
sem fyrstir byrjuðu á síldveiðum hjer við land og þykjast hafa kent íslendingum
að veiða síld. Þeir óðu hjer uppi sem innlendir væru og nutu allra sömu
hlunninda og landsbúar lengi vel. Og svo þegar landinn fór að rumska og sýna
Norðmanninum, hver ætti húsbóndarjettinn í íslenskum höfnum, brugðust hinir
illa við. Þegar Íslendingar settu lög um, að eigi mættu aðrir veiða síld og
verka innan landhelgi en Íslendingar sjálfir, þótti Norðmönnum þetta fúlmenska,
svo vanir voru þeir orðnir gestrisninni. Og margskonar þófi hafa Íslendingar
átt í við þá síðan og flóknir viðskiftasamningar við Norðmenn sprottið upp af
síldinni. Nú veiða Norðmenn utan landhelgi og verka síldina þar og senda hana
beint til útlanda og selja sem "Prima Íslandssíld". Þetta hefir þrengt svo
markaðinn á saltsíld fyrir íslendingum sjálfum, að til nýrra ráða þurfti að
taka og stofna til verksmiðjuiðnaðar. Meginhluti þeirrar síldar, sem íslenskar
hendur afla nú, fer "í bræðslu" sem kallað er. Það er unnið fóðurmjöl og
lýsi úr síldinni. Siglufjörður hlýtur að vera einkennilegur bær.
Það var nóg að gera á síldarplönunum. (C) Vigfús Sigurgeirsson.
Þar er allt
með kyrrum kjörum frá því á haustin og fram í júní, en þá fer fólkið að streyma
í bæinn í hundruðum og þúsundum og höfnin fyllist af skipum. Þótti þar oft
slarkfengið á vertíðinni forðum, meðan Norðmenn óðu þar uppi í algerðu
lagaleysi og þóttust hafa heimild til að haga sjer eins og þeim þóknaðist. Þá
spurðust oft um land allt orustur, sem háðar voru þar á kvöldin, þegar landlegur
voru, þar voru dansleikir í öllum húsakynnum sem leyfðu, og þeir sem hvergi
fengu húsaskjól dönsuðu á bryggjunum. Þar var nóg rúmið. Og oft var þar líka
nóg af áfengi. Ef orðinu hallaði milli manna undir þeim kringumstæðum, spunnust
áflog af. Fyrst milli tveggja og svo þurftu fleiri að koma til og skakka
leikinn, svo að oft varð stór óflogahundahópurinn að lokum, alveg eins og í
rjettunum, þegar hundarnir bitust. Lögreglulið var ekki til, þess megnugt að
skakka leikinn, og sögðu slæmar tungur, að lögregluþjónninn hypjaði sig á burt,
þegar áflogin byrjuðu. Sögurnar frá Siglufirði í þá daga voru ekki ósvipaðar
sögunum, sem maður heyrir vestan frá námubæjunum í Klondyke og sem svo oft eru
sýndar á kvikmyndum. Og eflaust hefði mátt taka skemmtilega og "drastiska"
kvikmynd af hinu forna Siglufjarðarlífi, ef sögurnar hafa verið sannar. En nú
er allt með öðrum svip. Nú er lífið komið í fastari skorður og nú þykir það
viðburður, ef heyrist að handalögmál gerist á Siglufirði, nema þá milli
kommúnista og "borgaranna", en slík handalögmál eru ekki ótíðari
annarsstaðar hreyfingunni veldur fyrst og fremst áhugi bæjarbúa sjálfra fyrir
því að reka af sjer óspektirnar, aukin löggæsla, minna brennivín, en umfram
allt það, að nú eru útlendingar miklu sjaldsjeðari gestir á Siglufirði en áður
var, meðan útlendu skipin lögðu þar upp afla sínum.
Síldarstúlkurnar salta í hverja tunnuna eftir aðra. (C) Vigfús Sigurgeirsson.
Siglufjörður er að verða
fyrirmyndarbær, með fallegu skipulagi, bær sem er einstakur í sinni röð á
Íslandi, fyrir allar bryggjurnar og "plönin", sem síldin krefst. Í
júnímánuði fara skipin íslensku að búast á síldveiðar og koma norður á síldveiðistöðvarnar
í júnílok eða fyrst í júlí. Er þá oftast veitt í bræðslu fyrstu vikurnar, ýmist
vegna þess að síldin þykir ekki söltunarhæf vegna megurðar eða vegna þess að
áta er í henni, svo að ekki má salta hana nema magadregna. En 20.-25. Júlí
hefst söltunin fyrir alvöru. Þá eru öll skip komin á síldveiðar og er það ekki
smáræðisfloti. Í sumar stunduðu þannig síldveiðar 8 togarar, 31 gufubátur og 63
vjelbátar. Voru togararnir úr Reykjavík og Hafnarfirði, gufubátarnir flestir úr
Reykjavík, Hafnarfirði og af Akranesi, en vjelbátarnir frá Vestmannaeyjum,
Faxaflóa og af Ísafirði og úr Eyjafirði aðallega. Telja má, að á hverjum
vjelbát sjeu 16-17 menn, á gufubátunum 18-20 og á togurunum 20-22. Við veiði síldarinnar
hafa því fengist um 1800 manns á síðastliðnu sumri. Hvað er það, sem hefir gert
Siglufjörð sjerstaklega að miðstöð síldveiðanna? munu ókunnugir spyrja. Aðal
síldarmiðin eru frá Horni til Langaness og enda má telja síldarmiðin allt frá
Ísafjarðardjúpi og austur til Bakkafjarðar. Á þessu svæði er Siglufjörður
miðsvæðis og þaðan er því hentugt að sækja hvort heldur vill austur eða vestur,
þangað sem síldinni þóknast að vera í það skiftið. Því að hún hefir enga
prentaða ferðaáætlun og er ýmist í austri eða vestri. Gamlir menn og reyndir
telja síldargöngurnar þrjár og koma þær allar að vestan.
Síldin brædd dag og nótt. (C) Þorsteinn Jósepsson.
En svo geta þær horfið
á miðri leið, eða breytt áætlun, eftir því hvernig átan, sem síldin er á
hnotskóg eftir, hagar sjer, en mestu veldur þó veðráttan um síldaraflann. Þegar
veður er hagstætt má oftast nær finna næga síld einhversstaðar, vestur í
Húnaflóa, út af Skaga og á Skagafirði, út af Eyjafirði eða austur við Sljettu
eða Langanes. Skipin koma flest inn á kvöldin og fara út seinnipart nætur. Það
er með síldina eins og laxinn, að hún veiðist verst um hádaginn en best í
ljósaskiftunum, en svo mislangt er að sækja hana, að eigi geta skipin áætlað
sjer ákveðinn tíma til að komast þangað sem veiðin er. Um sjálfa veiðina og
veiðiaðferðina mætti skrifa langt mál, en hjer er ekki rúm til að rekja annað
en það, sem viðkemur síldinni eftir að hún er komin að landi og verður þó að
fara mjög fljótt yfir sögu.
Flest skipin selja ákveðinn hluta afla síns til söltunar, en mestan hlutann í
bræðslu. Leggur þá skipið fyrst að söltunarplássinu er það kemur inn og skipar
þar upp því nýjasta af aflanum. Venjulega
þykir síldin ekki söltunarhæf, ef hún er meira en 8 tíma gömul úr sjónum. Þegar
því er lokið flytur skipið sig að verksmiðjubryggjunum og þar er svo afgangnum
skipað upp. Á söltunarplássin er síldinni skipað upp í körfum og stömpum, og er
þeim ekið upp að söltunarkössunum á kerrum og tæmdir þar, eða tæmt úr körfunum
beint í kerrurnar. Síldinni landað úr bát á Siglufirði. Vigfús Sigurgeirsson.
Annars vegar við kassana standa söltunarstúlkurnar viðbúnar
að taka við síldinni með stamp og salttrog og klippur sínar og má þar sjá snör
handtök, er þær grípa síldina, kverka hana og velta upp úr saltinu og þá eru
handbrögðin eigi síðri þegar stúlkurnar raða síldinni í tunnurnar; hvert síldarlagið
fyllist á augnabliki, saltlagi er skvett ofan á og svo koll af kolli þangað til
tunnan er orðin full. Nú á síðustu árum er farið að verka mikið af síldinni sem
matjessíld, er hún linsaltaðri en venjuleg saltsíld. Í saltsíldartunnuna mun
fara um 25 kg. af salti (grófu salti), en í matjessíldartunnu ca. 16 kg. af
fíngerðu salti. Verksmiðjusíldinni er skipað upp með krana, sem gengur fram og
aftur með málin, milli skips og bryggju. Við síldarverksmiðju ríkisins á
Siglufirði getur eitt skip landað um 100 málum á klukkutíma. Það væri
freistandi að segja nokkuð frá ferðalagi síldarinnar frá því að hún skilur við
skipsfjöl og þangað til hún er orðin að mjeli og lýsi, en margan mun furða á
því, að ekki líður nema klukkutími frá því að hún fer úr geymsluþrónni inn í
verksmiðjuna og þangað til mjelið er komið í sekkinn. Lýsið tekur nokkru lengri
tíma að fullverka. Síldin er afhent verksmiðjunum eftir vikt og er þá talið, að
málið, eða 1 ½ hektoliter sje 135 kg.
Hver kynstur af síld verksmiðjurnar geti malað og pressað yfir alla vertiðina
má ráða af því, að ríkisverksmiðjan á Siglufirði getur brætt 2300 mál á dag,
Dr. Pauls-verksmiðjan (rekin af ríkinu) 1400 mál, Goos-verksmiðjan 900 mál,
verksmiðjan á Raufarhöfn 6-700 mál, Krossanes 2300 mál, verksmiðjan á Sólbakka
1000, á Hesteyri 1330 mál og á Dagverðareyri 1150 mál.
Síldin kverkuð og síðan söltuð í tunnurnar. Ljósmyndari óþekktur.
Alls geta verksmiðjurnar þannið brætt um 11.000 mál á dag, og þar sem gera má
ráð fyrir, að um 400 síldar fari í málið, geta þessar verksmiðjur allar malað
um 4 ½ milljón síldar á hverjum degi. Úr
hverju máli síldar er gert ráð fyrir að fáist 20-22 kg. af mjöli, en 18-20 kg.
af lýsi. Á síðastliðinni vertíð fóru alls í bræðslu 686.726 hektólítrar af
síld, og svarar það til þess að síldarmjölsframleiðslan í ár verði um 10 þúsund
smálestir og lýsisframleiðslan yfir 9.500 smálestir. Þá voru saltaðar alls
216,760 tunnur, þar af saltsíld nær 88.000 tunnur, linsöltuð síld (matjes)
rúmar 71.000 tunnur, kryddsíld 31.455 tunnur, og sykursöltuð síld 31.455 tunnur
og sjerverkaðar 14.280 tunnur. Má ætla, að allt að 40 miljón síldar hafi verið
saltaðar í sumar, ef miðað er við að þrjár síldar fari í kílógrammið, en
síldarinnihald tunnu er talið 90 kg. Af tölum þeim, sem nefndar hafa verið hjer
að framan má ráða hvílík ógrynni síldar eru drepin hjer við land á hverju ári.
En þó er hjer alls eigi allt upp talið. Það er ekkert smáræði heldur sem
útlendingarnir drepa af síld hjer við land á hverju ári. Í sumar er talið, að
Norðmenn hafi saltað hjer við land 130-140 þúsund tunnur, auk þess að þeir
lögðu upp mikið af bræðslusíld til Krossanesverksmiðjunnar, en hún bræddi rúm 126.000
mál.
Tómar síldartunnur á Siglufirði. (C) Vigfús Sigurgeirsson.
Lettlendingar munu hafa veitt um 12.000 tunnur, Svíar um 30.000 tunnur,
hinn danski leiðangur A. Godtfredsen um 5.000 tunnur, Þjóðverjar um 5.000 tunnur
og Finnlendingar um 40.000 tunnur. En ekki virðist vera neitt lát á síldinni.
Þessi merkilegi fiskur sækir ár eftir ár á sömu miðin. Menn hafa ekki vitað
"hvaðan hann kemur eða hvert hann fer" fremur en vindurinn. En allir sjá,
að það er mikilsvert atriði fyrir íslenska atvinnu, að kynnast nokkru nánar
högun síldarinnar og nú á síðari árum er unnið að rannsóknum á þessu máli, af
íslendinga hálfu einkum af Árna Friðrikssyni fiskifræðingi. Síldin er orðin
mikilsvert þjóðhagsatriði fyrir íslendinga. Þó að marga hafi klæjað undan
skellunum, sem þeir hafa fengið undan þessum silfurgljáandi fallega fiski,
hlýtur að fara svo, að síldarútgerðin verði öruggur atvinnuvegur í framtíðinni.
Og áhættan við þennan útveg hefir stórum minkað við það, að farið var að
takmarka söltun á sildinni og bræða mikinn hluta hennar.