27.11.2019 12:09
Þórkatla GK 97. TFXO.
Þórkatla GK 97 á leið til Siglufjarðar. (C) Snorri Snorrason.
Enn eitt
slysið
Mótorbáturinn Hulda frá Keflavík hefur stundað netjafiskirí
á þessari vertíð. Miðvikudaginn 26. febrúar var hún í slíkri veiðiför. Gott
veður var og sjólaust. Klukkan um hálf eitt á hádegi höfðu skipverjar vitjað um
eina trossu og voru á leið að annari. Einar G. Sigurðsson, eigandi og formaður
bátsins kallaði á einn af hásetum sínum og bað hann að taka við stýri af sér,
því keyrslutíminn skyldi notaður til matar. Einar gekk aftur í káetu og þaðan
út á þilfarið. En er matsveininn fór að lengja eftir honum í matinn fór hann að
litast um eftir honum. Hann fór að engu óðslega því að hann mun helst hafa
haldið að Einar hafi hallað sér einhversstaðar til hvíldar. En brátt fóru menn
að örvænta um hann og leituðu nú skipverjar allir og á öllum hugsanlegum stöðum
en fundu hvergi Einar., eða neitt, sem leitt gæti grun að hvarfi hans.
Telja þeir líklegast að hann hafi viljað huga að einhverju og sennilega fengið
aðsvif og fallið þannig fyrir borð. Á síðastliðnu sumri keypti Einar bát þennan
frá Svíþjóð og hóf aftur formennsku eftir nokkurra ára hlé. Hafði hann áður
verið formaður í fjölda mörg ár og verið fengsæll mjög. Einar var af öllum, sem
hann þekktu bezt, mjög vel látinn, ákaflega hjálpsamur og drengur hinn bezti,
enda munu margir telja sig í þakkarskuld við hann. Hann lætur eftir sig konu,
dóttur og tvo syni.
Faxi. 1 mars 1947.
Þorgeir goði VE 34 í sínu upprunalega útliti, "Blaðra". (C) Tryggvi Sigurðsson.
Fórst í
fimmta róðri
Áhöfnin komst í gúmmíbátinn
Um miðnætti í fyrrinótt fórst Grindavíkurbáturinn Þórkatla
undir innsiglingarvitanum inn til Grindavíkur. Átta menn voru á bátnum og
björguðu þeir sér allir á gúmmíbjörgunarbáti. Telja skipsmenn með öllu óvíst,
að svo giftusamlega hefði tekizt, ef þeir hefðu ekki komizt í gúmmíbátinn. Á
þessum sömu slóðum og Þórkatla fórst, varð skipstapi og manntjón fyrir sjö
árum. Vélbáturinn Þórkatla var nær 70 tonna vélbátur. Hefur Erling Kristjánsson
í Grindavík, ungur og dugandi sjómaður, verið formaður á bátnum í 3 ár. Var
Þórkatla í fimmta síldarróðri sínum er óhappið vildi til. Báturinn var kominn
svo nærri Innsiglingunni í Grindavíkurhöfn að þeir sem í brúnni voru, höfðu
verið að skima eftir svonefndum ,,Djúpsundsmerkjum", er báturinn tók niðri
á boða. Talsverð ylgja var og brim. Í stuttu samtali sem Mbl. átti í gær við
Erling formann Kristjánsson á heimili hans í Grindavík, sagði hann, að ástæðan
fyrir óhappinu hafi verið sú að báturinn hafi verið kominn nokkuð af venjulegri
siglingaleið, verið of grunnt. Hafi hann strax eftir að báturinn tók fyrst
niðri, en þá hafði formaðurinn verið að fá sér kaffisopa, séð að báturinn var
kominn á hættusvæði, þar sem brimið braut á boðum og skerjum allt í kring.
Árangurslaust var reynt að bakka bátnum út úr brotunum. Eins og komið var þá
var aðeins um eitt að gera. Reyna að bjarga mönnunum.
Því kvaðst Erling hafa tekið þá ákvörðun, að hleypa upp að ströndinni undir
vitanum, klöngrast yfir sker og boða. Hvað eftir annað tók báturinn niðri, en
formanninum tókst að koma bátnum yfir boðana, og inn að stórgrýttri ströndinni,
inn í bás, þar sem heitir Hópslátur, en þar fyrir ofan er Grindavíkurvitinn. Á
meðan á þessu gekk, sem allt tók aðeins nokkrar mínútur, höfðu skipsmenn allir
sýnt mikla ró og stillingu. Hver gekk að sínu verki, sem Erling formaður sagði
fyrir um. Þannig var gúmmíbjörgunarbáturinn strax leystur frá, kallað út
neyðarkall, og er báturinn var kominn inn í fyrrnefndan bás, var allt til reiðu
fyrir skipsmenn að yfirgefa bátinn, sem var tekinn að sökkva því botninn hafði
brotnað mjög. Allir skipsmenn nema matsveininn höfðu verið uppi í brú eða á
þilfari við að ganga frá afla og veiðafærum. Matsveininn einn var kominn niður.
Fyrst fóru í gúmmíbátinn 3 skipverjanna. Höfðu þeir með sér línu úr hinum
sökkvandi báti. Er þeir komu í fjöruna og höfðu skriðið út úr bátnum í
brimgarðinum, drógu skipsfélagar þeirra úti í bátnum, gúmmíbátinn til sín. Þar
voru þeir sem eftir voru, fimm talsins, til taks að fara í bátinn. Erling
formaður hafði verið inni í brúnni, og skaut þaðan neyðarrakettu upp. Rétt í
sama mund sökk báturinn svo að aftan að brúin fylltist af sjó, og flaut Erling
þá út um einn brúarglugga en náði fljótt fótfestu á þilfari, og fór að
gúmmíbátnum. Rétt á eftir, að hann sem formaður hafði síðastur manna yfirgefið
hinn strandaða bát, stóð aðeins bátstefnið upp úr. Báturinn hvarf þeim sjónum í
næsta broti en það fleytti mönnunum upp að ströndinni. Eftir það sást báturinn
ekki, utan þess að um háfjöru í gærmorgun, hafði annað mastrið sézt. MiIIi
30-50 metrar voru frá bátnum og upp í fjöruna og gekk sú ferð greiðlega. Voru
skipbrotsmennirnir lagðir af stað gangandi og komnir fram hjá Grindavíkurvita,
á hinum þrönga slóða gegnum hraunið, er björgunarleiðangurinn frá Grindavík kom
á móti þeim. Og um leið og kona formannsins bar tíðindamanni og Ijósmyndara
Mbl. rjúkandi kaffi, sagðist hún ekkert hafa vitað um hversu komið var, fyrr en
Erling kom heim allur holdvotur. Til allrar hamingju sagði hún og setti frá sér
bollabakkann.
Á bátnum voru auk Erlings Kristjánssonar formanns: Eyþór Magnússon stýrimaður
frá Selfossi. Hann var í brú er báturinn strandaði. Vélstjóri var Sigurður
Pálsson frá Reykjavík, annar vélstjóri Ingólfur Júlíusson, Grindavík, matsveinn
Þorvaldur Ottóson Reykjavík, Pétur Kristófersson Arnarfirði, Ragnar Magnússon
Grindavík og Finnbogi Sigurðsson Hafnarfirði voru allir hásetar.
Morgunblaðið. 29 nóvember 1959.