02.12.2019 11:14
606. Ísleifur ll VE 36. TFUN.
606. Ísleifur ll VE 36 í upphaflegu útliti. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.
3 bátar til
Eyja
Í þessum yfirstandani mánuði hefur orðið veruleg aukning á
bátaflota Eyjabúa. Fyrst í mánuðinum kom hingað 60 tonna bátur eign Ársæls
Sveinssonar og sona hans. Var báturinn, sem heitir ísleifur II, keyptur frá
Danmörku og er 3 ára gamall með 180-200 hestafla vél. Emil Andersen var
skipstjóri á bátnum til landsins, en Sigfús Guðmundsson mun verða skipstjóri á
honum í vetur.
SI. miðvikudag kom vélbáturinn Júlía (áður Sandfell) hingað, en bátinn hefur
Emil Andersen skipstjóri keypt. Júlía er um 53 smálestir að stærð, smíðuð í
Hafnarfirði fyrir nokkrum árum. Í bátnum er 240 hestafla dieselvél.
Karl Ólafsson, Gísli Sigurðsson o. fl. hafa keypt hingað vélbátinn Faxa (áður
Friðrik Jónsson), sem er smíðaður hér í Eyjum og var gerður út héðan fyrir
nokkrum árum. Báturinn kom í gær heim til Eyja. Miklar vonir eru bundnar við
hverja nýja fleytu, sem bætist við flotann og er þess að vænta að þessir
fyrrnefndu bátar verði happadrjúgir og fengsælir til heilla fyrir byggðarlagið.
Fylkir. 39 tbl. 27 nóvember 1953.
606. Ísleifur ll VE 36 á togveiðum. Kominn þarna með nýtt stýrishús. (C) Tryggvi Sigurðsson.
606. Emma VE 219. (C) Tryggvi Sigurðsson.
Fengu eldgos
upp með borðstokknum
Það var farið að birta af degi og hafflöturinn var sléttur
og friðsæll eins langt og sá frá mótorbátnum Ísleifi II frá Vestmannaeyjum, þar
sem skipverjar biðu hjá línunni um níu sjómílur suðvestur af Vestmannaeyjum,
klukkan rúmlega sjö í gærmorgun. Einn háseta var á baujuvakt og vissi ekki
annað tíðinda úr djúpunum en það, að þar mundi þorskurinn væntanlega vera
byrjaður að gæða sér á beitunni á línunni, sem þeir höfðu verið að leggja. En
viti menn. Allt í einu rís svartur mökkur hljóðlaust upp úr hafinu, skammt frá
bátnum og ber óhugnanlega við himin í grárri dagsskímunni. Þetta voru meiri
stórmerki en búast mátti við á venjulegum fiskimiðum. Í fyrstu trúir hásetinn
ekki síðnum eigin augum, heldur starir á fyrirbærið, sem hnyklast þarna upp í
loftið. Síðan gerir hann félögum sínum viðvart. Þeir koma allir upp á þilfar, og
þeim dettur í hug, að kannske sé skip að brenna þarna hjá þeim. Skipstjórinn,
Guðmar Tómasson lætur það verða sitt fyrsta verk að kalla í talstöðina og
spyrja eftir því hjá Vestmannaeyjaradíó, hvort þeir þar hefðu orðið varir við
kall frá skipi í nauðum. Hann fékk þau svör, að ekkert slíkt kall hefði borizt
og allt væri með kyrrum kjörum á hafinu í kringum hann. Á meðan Guðmar var að
kalla á Vestmannaeyjar lét hann þoka báti sínum nær mekkinum. Það birtir óðum
yfir hafinu og nú fer að sjást betur hvers konar mökkur er þarna á ferðinni.
Víst er um það, að frá þessum mekki kallar engin rödd í Vestmannaeyjaradíó.
Þegar þeir voru komnir í hálfrar mílu fjarlægð frá svörtum mekkinum, sem steig
með boðaföllum upp úr lognsævinu, sáu þeir, að hér var sjaldgæft náttúruundur á
ferð, eldgos á hafsbotni, sem þeir höfðu orðið vitni að fyrstir manna og séð
stíga úr hafinu. Þeim þótti eðlilega ekki fært að nálgast hamfarirnar meir og
sneru því frá, og héldu aftur til baujunnar, sem var í mílu fjarlægð frá
gosinu. Menn í suðlægari löndum hefðu áreiðanlega siglt beint til lands til að tilkynna
tíðindin, jafnvel farið með hrópum, en skipverjum á Ísleifi, fór eins og öðrum
mönnum á þessu landi sem hafa búið við eldfjöllin við túngarðinn, að þeir
byrjuðu að draga línu sína með kraumandi sjóinn skammt undan og vikur- og
gufumökkinn yfir sér. Og þeir héldu áfram að draga línu sína þarna í skugga
eldgossins fram eftir degi, meðan jarðfræðingar og blaðamenn klufu himininn
yfir þeim í flugvélum til að rannsaka þetta náttúrufyrirbæri.
Og um hádegi í gær, þegar Tíminn náði tali af Guðmari Tómassyni, skipstjóra á Ísleifi,
var ekki meiri asinn á þeim en það, að þeir voru enn að draga línu sína og voru
komnir aðeins þrjár mílur frá eldgosinu. Hann sagði, að gosið hefði komið af fullum
krafti þegar í byrjun og væri mökkurinn ýmist dökkur eða ljós. Þeir heyrðu
engar drunur en hann sagði að nokkur ólga væri í sjónum nær eldstöðvunum og þar
væri nokkur öldugangur. Sextíu til sjötíu faðmar væru í botn á gosstaðnum, en
botninn á þessu svæði væri hraunhella. Hann sagði ennfremur, að ekki yrði séð á
dýptarmæli bátsins, að botninn hefði breytt sér nokkuð frá því sem hann hefði
verið, á því svæði sem hann hefði dregið línuna. Guðmar sagði að lokum, að hann
byggist ekki við að koma að landi fyrr en þeir væru búnir að draga, eða um
klukkan 5. Aðrir bátar en Ísleifur II. voru ekki á þessum slóðum og því engir
aðrir sjónarvottar að upphafi eldgossins. Liggur við að segja megi að þeir hafi
fengið gosið upp undir bátinn, en þeir hefðu þó altént orðið að róa heim frá
línunni, hefði hún verið lögð yfir sjálfan gíginn, hvað sem annars verður um
æðruleysi þeirra sagt.
Tíminn. 15 nóvember 1963.