04.12.2019 13:30
Rafnkell GK 510. TFJL.
Rafnkell GK 510. Ljósmyndari óþekktur.
Nýr 75 lesta
stálbátur kom til
Sandgerðis í gærmorgun
Nýr 75 lesta stálbátur kom til Sandgerðis í gærmorgun. Kom
hann frá Austur-Þýskalandi og hlaut nafnið Rafnkell GK-510. Eigandi bátsins er
Guðmundur Jónsson, útgerðarmaður á Rafnkellsstöðum í Garði en hann á fyrir
bátana Víði II. og Mumma. Rafnkell var fimm og hálfan sólarhring á leiðinni frá
Austur-Þýzkalandi til Sandgerðis og fór að jafnaði níu sjómílur og fékk vont
veður á leiðinni. Í reynsluför sigldi Rafnkell 10 ½ sjómílu. Skipstjóri á bátnum verður Garðar Guðmundsson,
sonur eigandans en með honum heim voru þeir Eggert Gíslason skipstjóri,
Vilhjálmur Ásmundsson 1. vélstjóri, Kristján Guðmundsson annar vélstjóri og
Magnús Berentsson þriðji vélstjóri. Ferðin gekk vel þrátt fyrir vont veður.
Báturinn lítur vel út og verður gerður út frá Garði. Hann hefur 280 hestafla
vél.
Alþýðublaðið. 23 október 1957.
Fyrirkomulagsteikning af 75 lesta skipi smíðuðu í Furstenberg 1957. (C) HRB.
Hörmulegt
sjóslys
Sá hörmulegi atburður gerðist í byrjun þessa árs, að
vélskipið Rafnkell, G K 510 frá Garði, sem fór í sinn fyrsta vertíðarróður frá
Sandgerði aðfaranótt mánudagsins 4. janúar, fórst með allri áhöfn, 6 vöskum og
þrautreyndum sjómönnum. Rafnkell mun hafa lagt af stað í róðurinn kl. 2, ásamt
6 bátum öðrum, en þar sem veður var mjög hvasst og illt þessa nótt, sneru 4
bátanna aftur, en hinir 3 héldu áfram út á miðin og byrjuðu að leggja línur
sínar. Bátarnir frá Sandgerði, sem á miðin komust auk Rafnkels, voru þeir Mummi
og Víðir II. Allir frá sama útgerðarmanni, Guðmundi Jónssyni á Rafnkelsstöðum í
Garði. Klukkan 5 á mánudagsmorguninn hafði skipstjórinn á Víði II., Eggert
Gíslason, talsamband við Rafnkel. Var þá allt með eðlilegum hætti á skipinu.
Skipstjórinn á Mumma , Sigurður Bjarnason, sá einnig til bátsins nokkru síðar,
en hann mun hafa verið sá síðasti, sem til bátsins sá. Þegar Rafnkell var ekki
kominn að á eðlilegum tíma, var tekið að óttast um bátinn og var strax á
mánudagskvöld hafin leit að honum af Sandgerðisbátum. Leitinni var síðan haldið
áfram næstu daga. Var leitað á landi, sjó og úr lofti, en öll leit var án
árangurs. Hins vegar hefir brak úr bátnum og eitthvað af veiðarfærum fundizt
rekið á fjörur. Rafnkell var tveggja ára gamall austurþýzkur stálbátur, 75 tonn
að stærð. Mennirnir sem fórust með skipinu voru:
Jón Garðar Guðmundsson skipstjóri, 41 árs að aldri. Hann lætur eftir sig konu,
Ásu Eyjólfsdóttur, og 9 börn á aldrinum 4-17 ára. Garðar var dugmikill og
vinsæll skipstjóri, sonur hjónanna á Rafnkelsstöðum, Guðmundar og Guðrúnar
]ónsdóttur.
Björn Antonsson stýrimaður, Skipasundi 31 Reykjavík, þrítugur að aldri, ættaður
frá Fáskrúðsfirði. Lætur eftir sig konu, Guðrúnu Mikkelsen, og 2 dætur, 5 og 2
ára.
Vilhjálmur Ásmundsson 1. vélstjóri, til heimilis Suðurgötu 6, Sandgerði, 33
ára. Hann lætur eftir sig konu, Gróu Axelsdóttur, og 4 börn.
Magnús Berentsson matsveinn, til heimilis að Krókskoti, Sandgerði, 42 ára,
ókvæntur. Bjó hjá öldruðum foreldrum sínum, þeim Kristínu Þorsteinsdóttur og
Berent Magnússyni.
Jón Björgvin Sveinsson háseti, til heimilis að Uppsalavegi 4, Sandgerði, 36
ára. Hann lætur eftir sig unnustu, Unni Lárusdóttur og 2 börn, móður átti hann
á lífi, Kristínu Guðmundsdóttur, sem var á heimili hans.
Ólafur Guðmundsson háseti, 36 ára, til heimilis að Arnarbæli, Miðneshreppi.
Hann var fyrirvinna aldraðra foreldra sinna, Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðmundar
Eyjólfssonar.
Minningarguðsþjónusta um hina látnu sjómenn fór fram í Útskálakirkju
sunnudaginn 17. janúar að viðstöddu fjölmenni. Sóknarpresturinn, sr. Guðmundur
Guðmundsson, flutti minningarræðuna. Faxi vottar aðstandendum hinna horfnu
sjómanna innilega hluttekningu, vegna hins sviplega fráfalls þeirra. Drottinn
blessi minninguna um þá og veiti ástvinum þeirra þrek til að bera sinn þunga
harm.
Faxi. 1 tbl. 1 janúar 1960.
Rafnkell GK 510 á leið til löndunar sumarið 1959. Var þá á síldveiðum fyrir norðan land.
Neyðarkall
ekki sent
Neyðarkall var aldrei sent frá Rafnkeli sem gæti þýtt að
bátnum hefði hvolft svo snögglega að enginn tími hefði gefist til að komast í
talstöð. Almennt var ekki mikið rætt um hinn hörmulega atburð manna á meðal í
Sandgerði. Sumum þótti sennilegt að brotsjór hefði fært hann á kaf á svipstundu
en aðrir töldu slysstaðinn vera þar nálægt, sem vitaskipið Hermóður fórst árið
áður. Aðrir töldu ýmislegt benda til þess, að hann hafi verið kominn nær
Sandgerði, er ólagið sökkti bátnum. Öllum bar hinsvegar saman um, að á Rafnkeli
hafi verið úrvalsáhöfn, þaulvanir sjósóknarar, sem þekkt hafi vel til allra
aðstæðna á þessum slóðum. Garðar Guðmundsson frá Rafnkelsstöðum, var búinn að
vera formaður á bátum föður síns, Guðmundar útgerðarmanns til fjölda ára.
Blöðin birtu minningargreinar um hina látnu en ekki var grennslast fyrir um
orsakir þessa hörmulega sjóslyss enda ekki hægt um vik þar sem það eina sem
fannst af bátnum var lítilsháttar brak á fjörum.
Á árunum 1957 til 1967 var fjöldi stálfiskiskipa smíðaður í Austur Þýskalandi
fyrir Íslendinga, allir eftir teikningum Hjálmars R Bárðarsonar,
skipaskoðunarstjóra ríkisins og síðar siglingarmálastjóra. Þessir bátar voru
gerðir út frá flestum sjávarbyggðum landsins og reyndust misjafnlega en flestir
þóttu þó góð sjóskip. Fyrstu fimm bátarnir, 75 tonna stálbátarnir og
systurskipin sem smíðaðir voru samkvæmt teikningum Hjálmars árið 1957 í
Furstenberg í A-Þýskalandi voru Rafnkell, Hafrún ÁR-28 (fyrst Húni HU-1, síðar
Ólafur II. KE-149), Álftanes GK-51, Guðmundur á Sveinseyri BA-35 og Kambaröst
SU-220. Á árunum 1960-1977 fórust þrír þessara fyrstu austur-þýsku báta undir
svipuðum kringumstæðum og með svo sviplegum hætti að ekki gafst tími til að
senda frá þeim neyðarkall. Á annan tuga sjómanna lét lífið í þessum sjóslysum og
menn greinir á um það enn í dag hvað það hafi verið í smíði skipanna sem valdið
hafi þessum slysum.
Faxi. 3 tbl. 1 desember 2013.